15.03.1950
Neðri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það er nú ekki enn búið að útbýta þeim brtt., sem ég flyt við þetta frv., og ætla ég því fyrst að víkja að brtt. á þskj. 431 frá þeim, sem mynda meiri hl. fjhn., en það eru þeir, sem styðja núverandi ríkisstjórn. Ég vil fyrst minnast á, að ég sakna þess í sambandi við brtt. við 3. gr., að ekki skuli lagt til, að neinu fé verði varið til að útrýma heilsuspillandi íbúðum, og þó eru til um það l. frá 1946, sem að vísu hefur verið þannig breytt, að þau koma ekki til framkvæmda. Ég held satt að segja, að þegar athugaður er sá góði tilgangur að leggja fé í byggingarsjóði verkamanna og bænda, þá megi ekki gleyma þessu máli. Það er líka staðreynd, að Alþingi sá ástæðu til að setja um þetta lög, þó að meiri hlutinn hafi síðar fallið frá þeirri ákvörðun vegna fjárskorts, eins og það var orðað. Nú er tækifæri til að hefjast handa í þessu nauðsynlega máli og verja nokkru af því fé, sem frv. gerir ráð fyrir að innheimt verði. Í sambandi við 11. gr. skil ég satt að segja ekki, hvernig fulltrúi Sjálfstfl. getur fylgt slíkri brtt. Ég hélt, að fulltrúi útgerðarmanna í fjhn. hefði sýnt fram á með rökum, að ekki væri rétt að miða framleiðslugjald við £ 8.500 sölu á ísfiski, því enda þótt togari hafi selt í 3 eða 4 söluferðum fyrir £ 8.500, þá getur verið stórtap á öllum hinum söluferðunum. Sama er að segja um 10% gjaldið af öðrum sjávarafurðum togaranna. Það er heppilegra að leggja hærra gjald á þá, sem hafa grætt á útveginum, því að þessi gjöld koma harðast niður á bæjarfélögum, sem nýlega hafa hafið útgerð og misst af mesta gróðatímanum. Ég mun nú flytja brtt. um þetta og vænti, að hún fái góðar undirtektir. — Viðvíkjandi 12. gr. er það að segja, að þar endurtekur sig sama sagan og áður, þegar reikna á skatt á auðmennina og láta þá fórna hluta af þeim auði, sem þeir hafa safnað á undanförnum árum, principið er það sama, þótt breytt sé um reikningsaðferðir. Það vita nú allir, að eignakönnunarl. voru blekking, þó að það hafi aldrei komið eins greinilega í ljós og nú, þar sem fella á niður eignaraukaskattinn, sem þá var ákveðinn, um leið og þessi nýi skattur á stóreignamenn skal samþykktur. Þetta eru aðferðirnar, að láta almenning fyrst færa fórnir með skírskotun til þess, að nú skuli leggja stóran skatt á auðmennina, en þegar svo almenningur hefur innt sínar skyldur, þá er skatturinn á þá ríku felldur niður. Svo er nú um þennan nýja skatt, að það er gert ráð fyrir, að hann megi greiðast á 20 árum, eða 90% af honum. Það á sem sagt ekki að ganga of hart að þeim ríku, og kannske verður hann svo bara gefinn eftir eins og nú er lagt til um eignaraukaskattinn. Það er greinilegt, að með þessum till. á að binda alþýðuna og láta hana þegar taka á sig þungar byrðar, en auðmannastéttin skal fá pappírslög, sem enginn veit, hvort nokkurn tíma verða framkvæmd. Það er heldur ekki mikið hreyft við verzlunarauðvaldinu í þessum till. Hins vegar tók ég eftir því, að þm. V-Húnv. minntist á í ræðu sinni áðan. að þörf væri á umbótum í verzluninni og setja um hana nýja löggjöf til hagsbóta fyrir almenning, eftir því sem mér skildist. Ég mun nú bera fram brtt., sem bráðlega verður útbýtt, um þetta efni og freista með því að koma inn í þennan lagabálk ákvæði um rétt neytendanna til að velta af sér heildsalaálagningunni, og fer till. mín í sömu átt og þm. V-Húnv. hefur áður lagt til.

Þá vil ég ræða nokkuð um þá grein frv., er fjallar um uppbætur sparifjár. Ég sé, að fulltrúar stjórnarflokkanna hafa breytt henni þannig, að innstæðan á að hafa staðið á vöxtum frá 1941–49. Ég held, að þetta sé óréttlátt, og er ég hissa á þessu, samkomulagi í fjhn. Það hafa verið færð eðlileg rök fyrir því að haga uppbótum sparifjárins á þann hátt, er Landsbankinn leggur til. Nú vita menn, að síðari hluta árs 1946 tók mikill hluti sparifjáreigenda út fé sitt til þess að kaupa bréf stofnlánadeildarinnar. Ríkissjóður og Landsbankinn höfðu þá í frammi mikinn áróður til þess að fá menn til að kaupa bréfin, og mönnum var sagt, að þetta væri heillavænlegt hvað snerti rekstur atvinnuveganna. Höfuðstóllinn, sem kom inn, mun hafa verið um 10 millj. kr. S.Í.S. fór líka á stúfana til að efla framkvæmdasjóð sinn, og það var sendur maður út um land til að safna í hann. Þannig var á margan hátt reynt að ná í fé sparifjáreigendanna. Auðvitað trúðu þeir hinum fögru loforðum ríkisvaldsins í þessu efni. En nú á beinlínis að refsa þessum mönnum fyrir að hafa lagt fé til rekstrar atvinnuveganna. Enn fremur er óeðlilegt, að ríkið geri svona hluti. Þegar ríkisvaldið hefur skorað á menn að leggja fé sitt fram, þarf það að hafa einhverja ábyrgðartilfinningu. Ríkisvaldið á ekki að ómerkja svona orð sín. Ég veit, að það hefur oft verið tekið of sterkt til orða, þegar verið var að gylla þetta fyrir sparifjáreigendum, hvað það væri hagkvæmt og traust að lána ríkinu fé sitt. Einu sinni sagði Tíminn t.d. um happdrættisbréfin, að með því að kaupa þau væri verið að hindra verðfall peninganna. — Ég held, að meiri hl. fjhn. ætti að athuga þessar till. sínar betur. Enn fremur vil ég fara nokkrum orðum um það, hvernig framkvæmd þessa atriðis er hugsuð. Eins og þetta er nú hugsað, má telja það óframkvæmanlegt eða setja verður á stofn eitthvert heljarmikið skrifstofubákn, sem kostar þá auðvitað ósköp. Ódýrasta framkvæmdin er vitanlega sú, að bönkum og öðrum slíkum stofnunum verði fyrirskipað að skrifa inn í reikninga sparifjáreigenda, t.d. þegar vextir eru innritaðir, ákveðna upphæð, sem reiknast þá sem uppbætur. Með þessu væri tryggt, að sparifjáreigendur fái sitt, sem til er ætlazt. Það ætti að vera auðvelt að láta bankana sjá um þetta, og ég trúi ekki, að þeir fari að hafa af fólki. Ríkisvaldið ætti að sjá um að auglýsa þetta fyrirkomulag, svo að sparifjáreigendur geti gengið eftir sínu. Þetta yrði áreiðanlega miklu ódýrari aðferð en hér er lagt til. Ég held, að menn ættu að athuga, hvort kostnaðurinn við hitt fyrirkomulagið geti ekki orðið eins mikill og uppbæturnar sjálfar.

Þá ætla ég að mæla fyrir þeim brtt., sem ég flyt á þskj. 423. Ég legg til, að 4.–8. gr. frv. sé breytt, og fjallar brtt. um það, að starfslaun skuli greidd skv. vísitölu kauplagsnefndar um framfærslukostnað í Reykjavík. Það þýðir, að laun manna miðist við fulla verðlagsuppbót, eins og hún hefur verið 1949. Brtt. fer fram á það, að í stað nýju vísitölunnar verði sú gamla látin gilda. Þótt sú gamla sé óréttlát, er hún þó réttlátari en sú nýja. Enn fremur falli vísitölubindingin niður.

2. brtt. frá mér fjallar um breytingu á persónufrádrætti. Hann er nú 900 kr. í Rvík, 1800 hjá hjónum og 700 kr. fyrir hvert barn. Ég legg til, að þessi persónufrádráttur verði hækkaður nokkuð, eða tölurnar verði þessar (í sömu röð og áðan var sagt): 1.200, 2.400, 1.000 kr. Raunverulega hækka skattarnir, ef frv. þetta verður að lögum, og því álit ég rétt að hækka persónufrádráttinn einnig. Það er meira en eðlilegt að gera ráðstafanir til að rýmka skattana, og það virðist vera í fullu samræmi við greinargerð þessa frv. að létta skattabyrðinni af þegnunum. En hið undarlega kemur þó í ljós, að skv. frv. á að þyngja tollana. Þannig stangast frv. og greinargerðin á.

Í 3. brtt. legg ég til, að 10. gr. frv. sé felld niður.

4. brtt. er við 15. gr. frv. Hún er allþýðingarmikil. Skv. minni brtt. er lagt til, að fiskábyrgðarlögin haldi gildi sínu árið út. Ég sýndi fram á það í gær í ræðu minni, að ef tryggja á, að bátaútvegurinn haldi áfram, þá þarf að tryggja honum sama verð fyrir fiskinn og nú. Öryggi bátaútvegsins hefur verið tryggt fram að þessu, og það verður að tryggja það áfram. Með gengislækkuninni lækkar fiskverðið úr 85 aurum kg niður í 75 aura, um leið og olía, salt, veiðarfæri og annað, sem útvegurinn þarf til rekstrar síns, hækkar. Þess vegna held ég að þessi brtt. eigi fullan rétt á sér. Hún tryggir líka, að bankarnir verði skyldaðir til að taka ekki meira en 4% vexti af því fé, sem þeir lána til útvegsins.

Brtt. á þskj. 437 fer fram á það að bæta við nýrri grein á eftir 9. gr. frv., um það að breyta fjárhagsráðsl. og því ákvæði, er segir, að menn þurfi fjárfestingarleyfi fyrir öllum byggingum. Það mætti auðvitað deila um það, hvernig framkvæmdin á fjárhagsráði hefur tekizt undanfarin ár. Það hefði verið hægt að hagnýta vinnuaflið betur, ef þessi l. hefðu verið nokkru frjálslegri, en raun ber vitni. En almennt má þó segja það, að það hefur verið byggt of litið, og því hefur húsnæðisekla skapazt. Nú á að tryggja, að meira fé renni til bygginga verkamannabústaða og bygginga í sveitum. Ég held, að það ætti líka að rýmka nokkuð til, þannig að menn megi byggja sjálfir. Oft hafa menn sótt um leyfi til að mega byggja lítil hús úti á landi, en fengið neitun; skriffinnskan og einokunarkerfið hefur eyðilagt allt fyrir þeim. Atvinnuleysið er nú að halda innreið sína, og ég spyr: Er þá réttlætanlegt að banna mönnum að byggja, ef þeir geta útvegað efni til þess sjálfir? Nú er komið til sögunnar það afl, sem er enn þá alvarlegra en skriffinnskan, en það er fátæktin og peningaleysið, og ég held, að það sé nægilegur þröskuldur fyrir menn að yfirstíga, þótt ekki sé bætt þar ofan á skriffinnskufargani hér í Reykjavík. Ég held, að það sé fyllilega réttmætt að afnema, að það þurfi fjárfestingarleyfi til að byggja fyrir sjálfan sig eina íbúð, svo fremi sem viðkomandi eigi enga fyrir. Ég legg þessa till. fram beinlínis til þess að prófa, hvort það eigi að rígbinda menn við öll þessi höft, um leið og menn tala ósköpin öll um að losa um höftin. Er þá aðeins verið að draga menn á tálar? Ef ríkir menn eiga hér í hlut, kemur ekki til mála, að þeir fái að byggja án fjárfestingarleyfis, svo að hér er aðeins verið að létta undir með þeim fátækari. Sem sagt, ef menn vilja hjálpast að við að byggja, þá er þeim ekki bannað að gera það. Þess vegna vona ég, að þessi brtt. finni náð hjá hv. þingdeild frelsisins vegna. — Hv. 3. landsk. er því miður ekki staddur hér í þingdeildinni, og sleppi ég því að svara honum, þar til hann kemur.