15.03.1950
Neðri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Jónas Árnason:

Herra forseti. Mér þykir hlýða að láta örstutta greinargerð fylgja brtt. minni á þskj. 424. Þessari fámennu þjóð er enn þá mikils vant í skólamálum. Heima fyrir eiga þegnar hennar ekki innangengt til skólamenntunar nema að mjög takmörkuðu leyti. Þær eru enn þá tiltölulega fáar vísindagreinarnar, sem skólar landsins bjóða hinni ungu kynslóð til fullkomins náms. Hið sama er að segja um tungumál, tæknileg efni ýmiss konar o.fl. En það er hins vegar gæfa þessarar þjóðar, að hún er haldin sterkri þekkingarþrá. Og þrátt fyrir þröngar aðstæður heima fyrir hafa henni aldrei fallizt hendur um að leita svölunar þessari þrá. Það er íslenzk regla að sigla til útlanda og afla sér menntunar, þegar skólarnir heima fá ekki fullnægt óskum einstaklingsins í þessum efnum. Og þeirri reglu, hefur ekki hvað sízt verið fylgt nú undanfarin ár, þegar hópar ungra Íslendinga hafa leitað til útlanda til að framast í einni eða annarri mennt. Af þessu hefur það leitt, að þessi litla þjóð, ein hin smæsta þjóð í heimi, sem ekki hefur á að skipa nema fáum og tiltölulega ófullkomnum skólum, getur samt farið í mannjöfnuð við hinar stærstu menningarþjóðir um andlegt atgervi og lærdóm. Þannig hefur það verið og þannig á það að vera, því að hér er um að ræða sjálfa lífæðina í sjálfstæði okkar, andlegu og efnalegu. Menntun ungu kynslóðarinnar er sá grundvöllur, sem tilvera okkar sem sjálfstæðrar þjóðar hlýtur alltaf að byggjast á. — En það er ekki ofmælt, að nú vofir yfir sú hætta, að þessi grundvöllur bresti og þar með verði stefnt í voða öllu því, sem á honum er byggt. Gengislækkunarfrv. það, sem hér er til umræðu, mun hafa hinar geigvænlegustu afleiðingar fyrir það íslenzka menntafólk, sem dvelst erlendis. Margt af þessu, fólki er fátækt og auralítið, og við gengislækkunina mundi það komast í alger þrot með að standa straum af námskostnaðinum, mundi neyðast til að hverfa heim að óloknu löngu og dýru námi. Það liggja fyrir upplýsingar um meðalkostnað íslenzks námsfólks, og vil ég leyfa mér að lesa upp þær tölur ásamt heildartölum yfir kostnaðinn eins og hann yrði eftir gengislækkunina.

Í Noregi er námskostnaður nú 7.200 kr., en verður 12.500 eftir gengislækkun. Í Danmörku 8.500, en verður 15.000 eftir gengislækkun. Í Svíþjóð er námskostnaður nú 11.500 kr., en yrði eftir gengislækkun þessa 20.000 kr. Í Bretlandi nú 11.00 kr., en eftir gengisbreyt. 20.000 kr. Í Frakklandi nú 12.000 kr., en eftir gengisbreyt. 21.000 kr. Í Sviss nú 17.000 kr., en eftir gengisbreyt. 30.000 kr. Á Ítalíu nú 18.000 kr., en yrði eftir gengisbreyt. 31.500 kr. Í Kanada nú 21.000 kr., en yrði eftir gengisbreyt. 36.000 kr. Í Bandaríkjunum nú 23.000 kr., en yrði eftir gengisbreyt. 40.000 kr.

Það ætti að vera óþarfi að færa frekari rök að þessu máli. Hv. alþm. ættu öllum að vera ljós hin mikla alvara þess. Þeir hafa enda fengið um það ábendingar frá nokkrum aðstandendum hins unga námsfólks.

Um seinni hluta brtt. þarf ég ekki heldur að hafa mörg orð. Högum okkar í læknisfræðilegum efnum er, því miður, ekki svo vel komið, að sambærilegt sé við það, sem gerist með hinum stærri menningarþjóðum, þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja í rannsóknarstofum læknisfræðinnar og tæknileg geta og sérþekking um hinar ýmsu greinir hennar hafa ærið olnbogarúm til afreka. Í útlöndum má fá bata við mörgum þeim sjúkdómum, sem ólæknandi eru á Íslandi. Og þannig mun það verða enn um nokkurt skeið, ef að líkum lætur. Eflaust hefur því fólki, sem reynt hefur til að leita sjálfu sér eða aðstandendum sínum lækninga í öðrum löndum, verið það ærinn baggi að standa straum af slíku. En hvað mundi þá verða, ef gengislækkun sú, sem hér er lögð til, yrði látin leggjast með öllum sínum þunga ofan á þann kostnað? Það er ekki erfitt að svara þessu. Hv. alþm. ganga þess varla duldir, að hér er um það að ræða, hvort lækningin við alvarlegum sjúkdómum, sem hinar ónógu aðstæður hér heima fyrir ráða ekkert við, en sérþekking sú og tæknileg geta, sem erlend sjúkrahús hafa upp á að bjóða, mundu hins vegar megna að snúa á betra veg, hvort slík lækning skuli þeim einum veitast, sem auðs eiga not í ríkum mæli. Með brtt. þessari er leitazt við að skipa þann veg málinu, að svo verði ekki. Og er þess að vænta, að hv. alþm. móti afstöðu sína til hennar í ljósi þessarar mikilvægu röksemdar. — Skal ég svo ekki frekar fjölyrða um þessa brtt. Aðeins vil ég ítreka það, sem ég áður sagði um þá nauðsyn, að komið verði í veg fyrir það, að þeir ungu Íslendingar, sem nám stunda erlendis, þurfi að hrekjast frá því námi vegna einnar samþykktar, sem gerð er á Alþ. þeirra. Ég treysti því, að hv. alþm. gjaldi jáyrði við brtt. þessari, því að hvað sem líða kann skoðun þeirra hvers um sig varðandi þýðingu þess að lækka gengi krónunnar, þá hlýtur þeim öllum jafnt að vera ljós sá mikli háski, sem af því mundi stafa að lækka um leið, til ófyrirsjáanlegra afleiðinga, gengi hins andlega atgervis Íslendinga, gengi þekkingar þeirra og menningar, gengi getu þeirra og þreks til að vera sjálfstæð þjóð.