15.03.1950
Neðri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Hv. 3. landsk. þm., sem er fulltrúi Alþfl. í fjhn. út af þessu máli, er því miður ekki enn þá kominn til þessa fundar, þar sem hann hefur áður lofað að tala á félagsfundi úti í bæ. En ég vænti þess, að hann komi brátt á fundinn. — Mér þykir því hlýða að minnast með örfáum orðum á brtt. þær, sem fyrir liggja á þskj. 431, sumpart að gera við þær nokkrar aths. og sumpart að gefnu tilefni að leita mér upplýsinga hjá hv. flm. brtt., sem þeir væntanlega geta gefið mér. En hv. 3. landsk. þm. tók það fram við umr. þessa máls nú í dag, að brtt. af hans hálfu eða Alþfl. varðandi skattamálin eða skattamálakaflann mundi þá fyrst koma fram, þegar séðar væru og útbýtt hefði verið brtt. þeim, sem fluttar eru að tilhlutun hæstv. núverandi ríkisstj. og samkomulag hefur orðið um milli þeirra flokka, sem að ríkisstj. standa, og eru grundvöllur undir myndun þessarar hæstv. ríkisstj. Það verður þess vegna ekki hægt nú á þessu stigi að bera fram brtt. af hálfu þriðja minni hl. fjhn. um þennan hluta frv., þó að þess verði e.t.v. kostur áður en þessari 2. umr. lýkur. — Ég vildi sumpart hreyfa hér nokkrum aths. og sumpart leita mér upplýsinga út af brtt., sem fyrir liggja.

Ég skal að vísu játa, að það er framför frá upphaflega frv., hvað snertir það atriði að leggja til, að bæði hluti af gengislækkunararði bankanna og einnig af stóreignaskattinum renni til bygginga í bæjum og sveitum, því þó að ég sé alveg því sammála, að of miklu hafi verið varið nú á undanförnum tímum til ekki alls kostar heppilegrar fjárfestingar í landinu og það hafi átt sinn þátt í því að skapa þá verðbólgu, sem við eigum við að búa í dag, þá er það samt engum vafa undirorpið, að það sé hægt án nokkurrar áhættu að verja verulegu fé til þess að reisa hagkvæmar og ódýrar íbúðir fyrir þá, sem búa við híbýlaskort, bæði í þorpum og eins í sveitum. Það ætti þess vegna ekki að raska því höfuðlögmáli, sem reyna ætti að fylgja í framtíðinni, að takmarka eftir vissum reglum fjárfestinguna, þó að farið væri inn á þær brautir að fara nú nokkru örar í byggingar fyrir alþýðu manna til sjávar og sveita, en í stað þess draga úr öðrum framkvæmdum og stórbyggingum, sem nokkuð mikið hefur kveðið að á undanförnum árum.

En eitt hef ég rekið mig sérstaklega á, þegar ég fór að athuga þessar brtt. frá hv. meiri hl. fjhn., um það, hvernig skiptingunni skuli vera háttað á þessari aðstoð til byggingarframkvæmda við sjávarsíðuna annars vegar og hins vegar í sveitum, og yfirleitt, hvernig fénu ætti að verja í landinu af þeim tekjum, sem aflast bæði vegna gengisgróða bankanna og einnig vegna stóreignaskattsins. Hvað stóreignaskattinn snertir, þá hygg ég, að það sé vitað mál, að meginhluti hans muni falla til úr kaupstöðunum eða við sjávarsíðuna yfirleitt. Maður skyldi því ætla, að honum yrði ekki að verulegu leyti dreift þaðan út í strjálbýlið út um landið, því að það teldi ég eftir atvikum ekki réttlátt. Það er fyrsta atriðið. Annað atriðið er hitt, að ef við athugum, hvernig högum er háttað um það, hvernig landsmenn um búsetu skiptast á kaupstaði og kauptún annars vegar og sveitir hins vegar, þá verður skiptingin enn þá athyglisverðari og ég vil segja óréttlátari. Eins og sakir standa nú, munu 5/7 hlutar þjóðarinnar búa í kaupstöðum og kauptúnum, en 2/7 hlutar í sveitum landsins. Hins vegar er ætlazt til þess, eftir þeim till., sem fyrir liggja, að það sé þannig skipt því fé, sem ég nefndi, til að styðja að byggingarframkvæmdum fyrir alþýðuna, að jafn hlutur komi í sveitir annars vegar og kaupstaði og kauptún hins vegar. Ég veit það að vísu, að víða skortir enn á það, að reistar hafi verið góðar og hentugar íbúðarhúsabyggingar úti um sveitir landsins og að þar er þörf á nýbyggingum. En hitt ætla ég þó að sé engu óvissari staðreynd eða þurfi enn þá síður að draga í efa, að í mörgum kaupstöðum og kauptúnum er byggingum þannig háttað, að fjöldi fólks býr þar við algerlega óviðunandi og heilsuspillandi húsnæði. Sanna skýrslur úr Reykjavík þetta svo óvefengjanlega, að ekki verður um villzt. Ég hef aftur ekki samanburð um það, hve margir, sem búa í sveitum, búa við óviðunandi og heilsuspillandi íbúðir. En ég hygg þó, að þar muni ekki vera um að ræða ólík hlutföll því, sem ég nefndi áðan á milli íbúanna, sem búa í kaupstöðum og kauptúnum annars vegar og sveitum hins vegar, sem eru fimm á móti tveimur. Mig undrar það dálítið, að tveir af hv. flm. þessarar brtt., hv. 5. þm. Reykv. og hv. þm. Snæf., sem býr í einu kauptúninu, skuli flytja þær brtt., sem hér liggja fyrir um þessa skiptingu, jafnmisskipt og þar er á milli sjávarsiðunnar annars vegar og sveitanna hins vegar. Með þessu er þó engan kala að finna í mínum orðum til sveitanna, og ekki mega mín orð skiljast þannig, að ég dragi í efa þörfina á nýbyggingum í sveitum landsins. En ef á að deila jafnt sól og regni milli landsbúa yfirleitt, þá verður að athuga allar aðstæður og skipta fjáraflanum til byggingarframkvæmdanna eftir þeim staðreyndum, sem fyrir liggja. En því fer víðs fjarri, að svo sé lagt til hér. — Ég vildi alveg sérstaklega benda á þetta atriði, og eins hitt, að bráðabirgðalánin, sem byggingarsjóður verkamanna og byggingarsjóður til byggingarframkvæmda í sveitum eiga að fá af gengishagnaði bankanna, á að veita með þeim kjörum, að það á að greiða 4% vexti af þeim, en af láninu, sem Ræktunarsjóður Íslands á að fá, á að greiða 2% í vexti. Löggjöfin um verkamannabústaði gerir ráð fyrir því, að það séu greidd aðeins 3% alls í vexti og afborganir af þeim lánum, sem veitt eru til byggingarframkvæmda í kaupstöðum og kauptúnum. Finnst mér því engri átt ná, jafnvel þó að um stuttan lánstíma væri að ræða, að vextir séu reiknaðir 4% af þeim peningum, sem til bráðabirgða renna til þessara byggingarsjóða, eða mun hærri en það, sem eigendur verkamannabústaðanna eiga að greiða, þegar þeir fá lánin.

Þetta eru þær aths., sem ég vildi gera út af skiptingunni á peningunum til byggingarframkvæmdanna á milli sveita og sjávarsíðu. Og ég vildi mega treysta því, að Alþ. væri ekki þannig skipað, að það í þessum athöfnum sínum hefði í frammi slíkt óréttlæti, ég vil segja fullkomið óréttlæti, eins og hér er lagt til með þessum till.

Hitt atriðið, sem ég vildi minnast á, er að ég vildi fræðast hjá hv. flm. brtt. á þskj. 431 um stóreignaskattsákvæðið, þar sem lagt er til, að skipt verði niður eignum félaga á eigendur í hlutafélögum og samvinnufélögum í réttu hlutfalli við hlutafjár- og stofnfjáreign þeirra hvers um sig, og að þær eignir teljist með öðrum eignum þeirra einstaklinga við skattálagningu, sbr. og ákvæðin þar á eftir, að af eignum einstaklinga, reiknuðum samkvæmt framansögðu, skuli fyrstu 300.000 kr. hjá hverjum skattaðila vera skattfrjálsar. Og út af þessu vildi ég spyrja: Hafa hv. flm. þessarar brtt. gert sér grein fyrir því eftir upplýsingum, hvaða munur verður á því að skipta skattinum þannig á milli einstaklinga eða hins vegar láta félögin bera þetta sem skattþegn út af fyrir sig? Ég verð nú, því miður, að játa það, eftir að ég hef nú fyrir einum klukkutíma fengið þessar brtt. í hendur, að ég get ekki gert mér grein fyrir, hvernig þetta mundi verka. En hugboð mitt er það, að með þessu móti sé stórkostlega mikið verið að draga úr skattinum og raunverulega að lækka hann, svo að „progressjónin“ og hækkunin, sem kemur hérna á eftir, sé meir til þess að sýnast. Það verður eftir þessari till. hv. meiri hl. fjhn. að sjálfsögðu þyngri skattur á eignum einstaklinga, sem ekki eru hluti í hlutafélögum, með þessari hækkuðu hundraðshlutatölu skattsins. En hitt vitum við, að það gildir t.d. um samvinnufélög, að eftir þessum breyt. verður stóreignaskatturinn af þeirra eignum lítill eða enginn. Samvinnufélögin eru mannmörg. Og þegar búið er að skipta upp eignum þeirra í sambandi við þessa skattálagningu í útreikningnum á skattinum, þá grunar mig, að það verði meginhlutinn af félögum í samvinnufélögum (þ.e. félagsmönnunum), sem ekki eiga yfir 300 þús. kr., þó að búið sé að leggja hlut þeirra í samvinnufélögunum við þeirra einkaeign aðra, og þar með muni skatturinn alveg niður falla. Það er kunnara, en frá þurfi að segja, að mörg hlutafélögin eru einnig mannmörg og að margir hluthafarnir eru ekki stóreignamenn og í eign langt fyrir neðan 300.000 kr. í einkaeign fyrir utan sín hlutabréf. Og mundi þessi skattur af hlutabréfunum, þannig skipt upp á milli þeirra, verða að engu. Við þekkjum svokölluð fjölskylduhlutafélög, þar sem hluthafarnir eru kannske hjón, nánustu ættingjar og börn, sem ekkert eiga annað en hlutabréf í hlutafélögum. Skatturinn af þeim hlutabréfum verður, eftir þessum brtt., vafalaust enginn. Þannig mundi þetta verða, að minni hyggju, þó að ég hafi ekki átt þess kost að rannsaka þetta atriði eða leita mér um það verulegra upplýsinga, að þessi ákvæði mundu draga mjög úr þessum skatti, frá því sem áður var hugsað í upprunalega frv. að láta gilda, sem var það að leggja skatt þennan á félög þessi sem sérstakan skattþegn út af fyrir sig. — Ég þykist nú vita, að þessar till. séu þaulhugsaðar af hálfu flm. og að þeir hafi gert sér grein fyrir, hvort fyrirkomulagið mundi nú gefa meiri arð og við skulum segja leggja meiri byrðar á herðar þeirra, sem burðarþol hafa, þessi tilhögun að skipta skattinum í þessum tilfellum upp á milli einstaklinga í félögum, eins og hér í brtt. er gert ráð fyrir, eða það að leggja skattinn á félögin sem „júridíska“ persónu eða sérstakan skattþegn. Ég vildi þess vegna vænta upplýsinga um þetta atriði. En það er elns og það flögri að mér sú hugsun, þó að ég geti ekki rökstutt hana, að þessi ákvæði brtt. leiði til þess, að hækkunin á skattinum og „progressjónin“, hvað snertir fjárhæðir, verði gerð að litlu, og að heildartekjurnar, sem frá þessum aðilum koma með þessum skatti, verði sízt gerðar hærri við þetta, en með því, sem áður var gert ráð fyrir í upprunalega frv.

Í öðru lagi vildi ég spyrja viðkomandi því, þar sem lagt er til í 5. tölul. brtt. á þskj. 431, að felldur sé niður eignaraukaskatturinn, sem ákveðinn var með l. nr. 128 frá 1947, hvort hv. flm. brtt. hafi gert sér grein fyrir því, hvað sá eignaraukaskattur mundi nema miklu. Það skortir nokkuð á, þegar gera á samanburð á þessum till., sem lagðar eru fram af hálfu meiri hl. hv. fjhn., annars vegar og hins vegar þeim ákvæðum, sem voru í upprunalega frv. óbreyttu, ef þetta er ekki upplýst. Mætti vel svo fara, að niðurfelling eignaraukaskattsins gerði það að verkum, að „skattaradikallsminn“ í till. meiri hl. væri meiri í orði, en á borði. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um brtt., en vildi með þessari ræðu minni aðeins vekja athygli á því, að mér finnst gæta rangsleitni í skiptingu teknanna milli byggingarsjóðs verkamanna og byggingarsjóðs bænda, og einnig vildi ég spyrja um skattinn. En fyrir þá, sem vildu nú vera róttækir í skattaálagningu, og það hefur manni heyrzt á sumum, sem gagnrýndu upphaflega frv., er nauðsynlegt að fá þetta upplýst.

Ég vildi að lokum minnast á eitt atriði, þ.e.a.s. margföldun fasteignamatsins, bæði í frv. og í brtt. á þskj. 431. Þótt ég nú játi, að mjög erfitt sé að finna réttláta svæðaskiptingu fyrir þessa margföldun á fasteignamatinu, þá er þessi mjög af handahófi gerð. Ég vil t.d. benda á, að í till. er gert ráð fyrir að margfalda fasteignamatið í Reykjavík með tölunni 6, að vísu gerir önnur till. ráð fyrir að margfalda það hér með 7 og enn önnur með 5, en ég held mig við brtt. á þskj. 431. Þar er gert ráð fyrir að margfalda með tölunni 3 þær fasteignir, sem hvorki eru í Reykjavík, Akureyri né Hafnarfirði, eða kaupstöðum með yfir 2.000 íbúa. Við lestur þessarar till. koma upp í huga manns mjög undarlegar hugsanir. Hér fyrir sunnan, í Kópavoginum, eru þáttaskil milli Reykjavíkur og Kópavogshrepps, og þar fyrir sunnan kemur svo Hafnarfjörður. Nú á að margfalda fasteignamatið í Reykjavík með tölunni 6, í Kópavogi með 3 og í Hafnarfirði með 5. Nú er það vitað, að flestar byggingar í Kópavoginum eru líkar í verði og í Reykjavík, eða a.m.k. Hafnarfirði, og fasteignamatið því svipað. Þetta er því mjög einkennilegur hlutur. Það er líka vel ljóst, að byggingar t.d. á Kjalarnesi eru mun dýrari, en á Ströndum norður, en það er sameiginlegt, að margfalda á fasteignamatið með 3 á báðum stöðunum. Ég held, að það hefði átt að athuga þetta betur, þátt það muni nú kannske reynast erfitt, úr því sem komið er, þegar knýja á frv. í krafti meirihlutavalds ríkisstj. í gegn á örstuttum ííma. En benda vildi ég á þetta atriði, því að það skapar rangsleitni eftir því, hvar menn eru á landinu.

Að lokum vildi ég segja það, að ég vænti upplýsinga hjá hv. flm. brtt. á þskj. 431, hvernig þeir hugsa sér, að skiptingin á skattinum á hlutafélögum og samvinnufélögum annars vegar og einstaklingum hins vegar muni verka, og hvort þetta muni lenda meira á herðum þeirra, sem burðarþol hafa, þegar nú á að rýra svo mjög kaup og kjör launastéttanna, að þær eru að því komnar að kikna.