15.03.1950
Neðri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur atriði, sem ég vildi minnast á nú við þessa umr. í sambandi við þær brtt., sem nú eru komnar fram frá hv. þm. úr flokkum þeim, sem mynda hæstv. ríkisstj. Það hefur oft verið tekið fram, að þetta frv. sé flutt til þess að leysa vandræði sjávarútvegsins og þá sérstaklega bátaútvegsins. En hafa menn nú gert sér ljóst, hvað við tekur fyrir bátaútveginn, eftir að þetta hefur verið samþ., hvernig aðstæður hans verða? Er því þannig háttað, að hagur bátaútvegsins verði eitthvað betri, eftir að þetta hefur verið samþ.? Í þessu sambandi vil ég rifja upp nokkrar staðreyndir. Bátaútveginum er nú tryggt, með ríkisábyrgð, ákveðið lágmark fyrir fiskinn, 75 aurar pr. kg, og auk þess hefur hann ákveðin fríðindi, sem metin eru af þeim hagfræðingum, sem samið hafa þetta frv., að þau jafngildi 10 aura hækkun á fiskkílói, þannig að bátaútvegurinn fær þá samtals 85 aura fyrir kg. af fiskinum núna. En hvað tekur þá við, eftir að þetta frv. hefur verið samþ.? Það liggur fyrir hjá þeim aðilum, sem fiskinn kaupa, frystihúsum og öðrum, að ekki er hægt að greiða meira en 75 aura fyrir kg, og þó er það jafnframt tekið fram af flestum, að þeir geti ekki lofað þessu 75 aura verði, svo að tryggt sé. Það á m.ö.o. að lækka fiskverðið um 10 aura. En hagfræðingarnir, sem sömdu frv., hafa í áliti sínu gefið það út, að eftir gengislækkunina þurfi bátaútvegurinn ekki aðeins 85 aura, eins og hann fær í dag, heldur þurfi hann að fá verð, sem nemur 93 aurum, aðeins til þess að standa í stað við það verð, sem nú er greitt, miðað við það, að rekstrarkostnaður aukist sem afleiðing af gengisbreyt. M.ö.o. það, sem liggur fyrir í sambandi við bátaútveginn, er að hann þyrfti að fá 93 aura, en fær ekki nema 75 aura og lægra þegar fram líða stundir. Í gildandi l. um ríkisábyrgð á bátafiski eru einnig ákvæði um það, að bátar, frystihús og aðrir þeir, sem hafa með rekstur bátaútvegsins að gera, að þeim séu tryggðir vextir frá bönkunum, sem nema 4%, en hinir almennu útlánsvextir bankanna eru annars 6%. Um leið og þetta frv. yrði samþykkt, þá er búið að hækka alla rekstrarvexti úr 4% í 6%, og ekki yrði það heldur til bóta fyrir bátaútveginn eða frystihúsin, þetta yrði til að auka útgjöldin. Hvernig eru svo líkurnar fyrir því, að frystihúsin, eins og nú standa sakir, og þeir, sem kaupa fiskinn af bátunum, fari ekki enn þá verr út úr því eftir en áður? Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur gefið umsögn um það hingað til Alþ., að eins og verðlagi sé háttað nú á hraðfrystum fiski, þá mundi þessi gengisbreyt. engan veginn nægja og á ýmsum mörkuðum verða undir ábyrgðarverði, og yfirleitt mundu frystihúsin fá lægra verð fyrir sína framleiðslu en þau fá nú með ríkisábyrgðinni. En rekstrarkostnaður frystihúsanna kæmi til með að hækka allverulega vegna gengisbreyt., og er þá alveg sýnilegt, að hagur frystihúsanna fer versnandi frá þeim l., sem nú eru í gildi, og möguleikar þeirra fara minnkandi fyrir því, að þau geti greitt það verð, sem þau hafa greitt, hvað þá meira, sem þau ættu að gera samkvæmt áliti hagfræðinganna. Um saltfiskverðið í dag er það að segja, að þótt á það verð, sem nú er upp gefið, leggist 74% verðhækkun á erlendum gjaldeyri, þá mundi það tæplega ná því ábyrgðarverði, sem nú er á saltfiski til bátaútvegsins, en þyrfti að verða allmiklu hærra, vegna þess að framleiðslukostnaður í sambandi við saltfiskframleiðsluna fer vaxandi eftir gengisbreyt., salt hækkar í verði og margt annað, sem lýtur að framleiðslu saltfisks. Það er því alveg vitanlegt, að afleiðingarnar af samþ. þessa frv. og niðurfellingu á ríkisábyrgðarl. hljóta að verða þær, að kjör bátanna fari versnandi, og það má búast við því, að mörg frystihús og þeir, sem kaupa fisk af bátunum, gefist upp, nema verðið lækki enn til bátanna. Svo er eitt atriði enn í þessu, sem hefur ekki verið athugað til fulls, það er þetta: Hvernig ætla bankarnir sér að bregðast við þessu nýja viðhorfi, hvað ætla þeir að lána frystihúsunum mikið, þegar ekkert ábyrgðarverð liggur fyrir á fiskinum, heldur aðeins breytilegt söluverð á ýmsum mörkuðum, fyrir fjölda frystihúsa? Hvað ætla bankarnir að lána þeim til rekstrarins? Ætla þeir að lækka lánin frá því, sem nú er? Ég býst við, að þeir mundu gera það, þar sem verðið fer lækkandi frá ábyrgðarverði, og þá yrði það eitt nóg til þess að stöðva rekstur frystihúsanna, eins og nú standa sakir.

Þegar vertið hófst upp úr áramótum, þá var hér tekið í lög á Alþ. ákveðið ábyrgðarverð á lifur til bátaflotans. Ég var ekki staddur á þingi þá, en varð þó þess var, að um þetta urðu allmikil átök, en meiri hl. Alþ. ákvað að tryggja bátaflotanum ákveðið verð fyrir hvern lítra af lifur. Hvað svo um þessa tryggingu, hvað um þessa lagasetningu, sem svo mikil átök urðu um á þingi? Nú á að kippa þessu öllu til baka aftur, nú á að svipta burt og gera að engu það, sem þá var samþ., vegna þess að með því verði, sem nú mundi koma út, samkvæmt því verði sem fyrir liggur á lýsi með þeirri gengisbreyt., sem hér er reiknað með, þá er óhugsandi að borga það lifrarverð, sem Alþ. ákvað eftir áramótin að tryggja bátaflotanum. Það er alveg sama, hvar á þetta er litið, alls staðar kemur það sama út. Nefndarmenn segja, að þetta sé gert til þess að — bæta afkomu bátanna og rekstur frystihúsanna. En þegar þetta er krufið til mergjar, þá kemur það út, að afkoma og rekstur þessara aðila verður verri, en er samkvæmt gildandi lögum, og afsökun manna fyrir því, að það sé verið að gera þetta fyrir bátaútveginn, getur ekki verið önnur en sú, að menn hafi komizt að raun um, að ekki sé hægt að standa við þau ábyrgðarl., sem í gildi eru, og nú verði að gera á þessu breyt., sem þýðir versnandi afkomu fyrir þennan rekstur. Það þýðir þess vegna ekki að segja, að hér sé verið að gera ráðstafanir, sem þýði betri rekstrarafkomu, því að það er ósatt.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því í 11. gr. að leggja allverulegan skatt, svonefnt framleiðslugjald, á nýju togarana, eins og það er orðað, og þetta er rökstutt með því, að nauðsynlegt sé að leggja þetta gjald á þann afla, sem nýju togararnir leggja á land, til þess að halda jafnvægi á milli rekstrarafkomu nýju togaranna og rekstrarafkomu annarra, sem að sjávarútvegi starfa. Rökin fyrir þessu eru ákaflega undarleg, og þessi skattur mun koma mjög skringilega út að verulegu leyti. Í fyrsta lagi þessi röksemd, að ef nýju togararnir fái að njóta þess raunverulega verðs, sem fæst fyrir þeirra afla, þá muni þeir safna að sér vinnuaflinu, þeir muni taka vinnuaflið frá bátunum, eins og hagfræðingarnir segja í sínu áliti. Þetta skiljum við ekki, sem eitthvað höfum fengizt við rekstur þessara skipa, vegna þess að því er þannig háttað með rekstur þessara skipa, að þau hafa nú þegar þann mannafla, sem þau mundu hafa annars. Það dettur engum í hug að setja fleiri menn út á skipin, þó að meira hafist upp. Þau mundu því ekki taka meiri mannafla frá bátaflotanum, en þau gera, ef þau eru í gangi á annað borð. Þetta er því ekkert annað en hugsanavilla hjá þessum hagfræðingum. Vitanlega er ekki um það að ræða, nema það sé meiningin, að það eigi að stöðva eitthvað af þessum skipum til þess að spara þar mannafla, sem eigi að fara yfir á bátana, en það er ekki viðurkennt, að það sé tilgangurinn. En þá kemur aftur hitt, að þessir togarar græða eftir gengisbreyt., og af því á að leggja þennan skatt á framleiðslu þeirra. Eins og nú háttar með rekstur þessara nýju togara og rekstur togaraflotans yfirleitt, þá ríkir óvissa um það, hvernig á að selja afla þessara skipa. Í fyrsta skipti nú um langan tíma eru engir fyrir fram samningar í gildi um það, hvernig skuli selja og á hvaða verði skuli selja afla þessara skipa. Um langan tíma hefur það verið svo, að skipin eru starfrækt þannig, að þau selja afla sinn fyrir brot úr eðlilegu verði, og hefur gífurlegt tjón hlotizt af. Sum skipin hafa legið vikum saman, af því að eigendur þeirra hafa ekki vitað, hvað átti að gera við aflann, ef einhver afli hefur fengizt. En það er svo, að þó að menn hafi rokið í það að breyta rekstri skipanna og hefja saltfiskútgerð, þá vita þeir ekki, hvaða verð þeir fá fyrir fiskinn eða hvenær hann selst, því að fyrir fram sala er engin á saltfiski, en því fylgir svo aftur mikil áhætta og kostnaður að liggja með hann yfir sumarmánuðina. Þetta getur því hæglega farið svo, eins og nú horfir, að þessi skip verði að liggja óstarfrækt yfir þann tíma ársins, sem yfirleitt er erfiðast um það að fá bezta fiskinn, yfir sumarmánuðina, og það er einmitt það, sem margir eigendur búast við að kunni að verða á þessu ári, og það er vegna þeirra upplýsinga, sem liggja fyrir um sölumöguleika og afla. Þá gæti svo farið, að þegar þessi skip ná sæmilegri ísfisksölu og þegar þau geta náð nokkrum túrum af saltfiski, þá yrði samkvæmt þessari 11. gr. lagður mjög verulegur skattur á rekstur skipanna, upp á nokkur hundruð þúsund króna, því að skatturinn er geysilega hár, en hins vegar sýndi rekstrarafkoma þessara skipa tap eftir allt árið. M.ö.o., hér er fundin leið til þess að skattleggja þessi skip mjög verulega; þótt sannanlegur taprekstur sé á þeim. Svona skattstofn er vitanlega heimskulegur og ósanngjarn. Hann er ekki síður ósanngjarn þegar það liggur fyrir, að þegar þessi skip voru keypt, þá var gert ákveðið samkomulag af kaupendum þessara skipa við ríkisstj. þá, sem þá fór með völd, um allvíðtækt skattfrelsi vegna þessara dýru skipa og þau skatthlunnindi eru bundin í l. En svo á að hlaupa fram hjá umsömdum skatthlunnindum, sem eru í gildandi l., áður en rekstrarafkoman er kunnug eða gerð upp, og leggja á skipin hundruð þúsunda króna í rekstrarskatt á ári. Það er óeðlilegt og brot á samþykkt, sem gerð hefur verið. Allmörg af þessum skipum eru í eigu. bæjarfélaga, en bæjarútgerð er í l. skattfrjáls, en hér er farið fram hjá því atriði líka, og nú á að ná skatti af þessum skipum. Hvað svo, ef svo færi, að þessi skip fiskuðu sæmilega og sýndu rekstur óslitið allt árið, sölur með bezta móti og allt gengi vel? Þá höfum við skattal., sem taka fyllilega við þessu, og þessir aðilar verða skattlagðir samkvæmt þeim. Hér hafa menn, sem ekkert þekktu inn á það, sem þeir voru að semja ákvæði um, búið til þennan skatt. Þeir hafa ætlað mikið úr þessu að gera, en þekktu ekkert það, sem þeir voru að skattleggja, rekstur þessara skipa og samkomulag í gildandi l., sem gert hefur verið um rekstur þeirra, og svo er búið að kasta þessu hér fram á Alþ., og frá því má ekki snúa, þó að bent sé á rök fyrir því að hverfa frá þessu. Nú á að ná þarna í peninga til þess að leggja í alveg ákveðnar framkvæmdir aðrar.

Í þessari 11. gr. er gert ráð fyrir því, að skattur, sem leggst á ísfisksölur togaranna, verði lagður þannig á, að hann nemi 25% af því, sem umfram er 8.500 sterlingspunda brúttósölu. Nú er vitanlegt, að þetta er í alla staði ákaflega ósanngjarnt og misjafnt, 8.500 punda brúttósala t.d. í Englandi er gersamlega önnur sala heldur en 8.500 punda sala í Þýzkalandi, svo að miðað sé við þau tvö lönd, þar sem skipin hafa selt að undanförnu. Á öðrum staðnum er tekinn 10% innflutningstollur, en ekki á hinum staðnum. Þessi 8.500 pund í Englandi eru því raunverulega minna virði fyrir skipin heldur en er í hinu landinu, en eigi að síður á að beita þessum sama skattstiga í báðum tilfellum. Svo er gert ráð fyrir því í þessari gr., að aflahlut skipverja, sem nemur allhárri upphæð hjá yfirmönnum, skuli ekki reikna af þeim hlut, sem gengur beint í skattgreiðsluna. Þetta virðist út af fyrir sig ekki óeðlilegt. En svo er aftur einmitt í þessari gr. annað ákvæði um það að leggja samsvarandi skatt á saltfisk skipanna, og það þótt aflinn sé lagður upp hér heima. Þar má borga af einum saltfisktúr 50.000 kr. skatt, eftir því verði, sem maður reiknar nú með á saltfiski, en þar er ekkert svona ákvæði um það, að það skuli ekki reikna aflahlut af þeim hluta, sem gengur beint í skattgreiðsluna. En þetta er eins og áður svo heilagt, að það má ekki leiðrétta það. Þetta hafa einhverjir vísir menn búið til, og það skal ekki settur blettur á þeirra vizku með því að breyta neinu, hversu vitlaust sem það er. Eins og greinin er orðuð, mundi svo fara, að 10% skattur mundi einnig koma á allt það lýsi, sem þessir nýju togarar seldu. Nú hefur lýsi lækkað svo í verði s.l. ár, að þrátt fyrir þessa miklu gengisbreyt., sem hér er gert ráð fyrir, mundi verð á lýsi ekki ná því verði, sem var 1948, eða sem svarar útborgun á s.l. ári, en samt á að skattleggja það, svo að allur afli þessara nýju togara er skattlagður. Ef þeir leggja saltfisk í land, ef þeir leggja ísfisk í land, ef þeir leggja upp t.d. fiskúrgang í beinamjöl og ef þeir leggja upp lifur, þá er þetta allt skattlagt. En ef önnur skip, t.d. gömlu togararnir, bátar eða einhver önnur fiskiskip setja sams konar verðmæti á land, þá á ekki að skattleggja þau. Það mætti segja mér, að í ýmsum tilfellum mundi ekki ganga sem bezt að greiða úr þessu, því að þetta er ekki þægilegt í framkvæmd. Í þessari sömu gr. er að mínum dómi álíka fjarstætt ákvæði í sambandi við síldveiðarnar; þar er gert ráð fyrir að leggja 8% útflutningsgjald á allar síldarafurðir. Nú liggur það fyrir, eins og við vitum, að síldarútvegurinn hefur gengið heldur báglega undanfarin ár, og það sýnist vera svo, að síldarútveginum veiti ekki af því að fá að njóta þess verðs til fulls, sem fæst fyrir framleiðslu síldarskipanna. En nú er gert ráð fyrir því að leggja þarna á allverulegan skatt, sem renna á í ríkissjóð, í viðbót við alla skatta, sem á þessari framleiðslu eru. Það er tekið svo til orða, að allar síldarafurðir falli þarna undir. Við höfum í þessum efnum alveg skýrt dæmi fyrir okkur, þar sem er faxasíldarframleiðslan hér á s.l. vetri. Samkvæmt þessu orðalagi mundi t.d. faxasild lenda undir þennan skatt. Þó er það vitað mál, að þrátt fyrir þá gengisbreyt., sem hér er gert ráð fyrir, mundi framleiðslukostnaður þessarar síldar verða meiri en útflutningsverðinu nemur, og þessi skattur mundi tryggja það, að faxasíld yrði ekki framleidd. Á s.l. ári tókst að framleiða þar verðmæti fyrir 10 millj. kr., vegna þess að gjaldeyrir, sem fékkst inn fyrir þessa framleiðslu, var gefinn frjáls og veitt alveg sérstök hlunnindi um álagningu á þær vörur, sem fluttar voru inn fyrir þennan gjaldeyri, og því tókst að bjarga verðmæti fyrir 10 millj. kr. En nú er gert ráð fyrir því, að öll svona hlunnindi falli niður, og tryggt, að þetta verði ekki framleitt, með því að leggja þarna á 8% útflutningsgjald til viðbótar því, sem fyrir er. Þetta ákvæði er afar ósanngjarnt og óeðlilegt og mundi beinlínis miða að því að torvelda að framleiða sumt af síldarafurðum, sem fullerfitt hefur verið að framleiða fram til þessa.

Ég ætlaði ekki að verða svona langorður, en það er þó eitt atriði enn, sem ég vil minnast á í frv., eins og það liggur fyrir. Í 12. gr. frv., í 2. tölul., stendur: „Verðmæti skips skal talið vátryggingarverð þess, nema sannað sé með mati, að söluverð þess sé annað.“ M.ö.o., þegar verið er að gera upp eignir manna í sambandi við skattlagningu þá, sem framkvæma á samkvæmt ákvæðum 12. gr., þá á að leggja vátryggingarverð skips til grundvallar við verðmætisákvörðun skipsins. Nú er það svo, að mikið af skipum, t.d. megnið af nýsköpunartogurunum, eru vátryggð í sterlingspundum, og hvernig ber þá að skilja þetta? Ýmsir halda því fram, að þetta mundi þýða, að hið nýja gengi á pundinu, sem samþ. er með þessum l., yrði látið gilda, og þá mundi verðmæti þessara skipa stórkostlega hækka og eigendur þeirra lenda í miklum skatti. Og á þann hátt gæti svo farið, að vátryggingarverð skipa yrði mjög misjafnt, því að sumir hafa vátryggt skipin í ísl. krónum, en aðrir í sterlingspundum. Ákvæðum þessa liðar þyrfti því virkilega að breyta og gera það ótvírætt, að þar sem talað er um vátryggingarverð skipa, þá sé miðað við þá gengisskráningu, sem var áður en frv. þetta varð að lögum.

Ég þykist nú hafa sýnt hér fram á nokkur atriði í sambandi við þetta frv., sem alveg ótvírætt sanni það, að tilgangi þessa frv., ef hann hefur virkilega verið sá, sem af hefur verið látið, verði ekki náð með því að samþ. þetta frv. Bátaútvegurinn verður ekki leystur úr þeim vandræðum, sem hann er í, með því að samþ. þetta frv. eins og það liggur hér fyrir. Og það eru mjög óréttlát ákvæði í frv. í sambandi við aðra þætti útgerðarinnar, bæði óeðlileg og ósanngjörn. — Og svo er það atriði líka, sem ég drap á við 1. umr. málsins, þar sem ég tel líka geysilegan galla á þessu málí, að það eru ekki gerðar neinar tilraunir í ákvæðum frv. til þess að koma í veg fyrir það mikla gróðabrall og spákaupmennsku, sem hlýtur að sigla í kjölfar svona mikillar gengisbreyt. sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Það er vitað, að það er til allmikið af vörum á lager. Þessar vörur, sem eru í eigu einstakra manna, munu koma út á markaðinn á næstu dögum og mánuðum, eftir að gengisbreyt. er gerð, þessar vörur, sem hafa horfið í vöruskemmur að undanförnu. Það á að blanda þeim vörum saman við nýrri vörur í verðlaginu, þannig að eftir nokkra daga frá því að gengisbreyt. er gerð fá nokkrir menn tækifæri til þess að fá stórhækkað verð á vörunum, sem þeir hafa geymt, og þar með gífurlegan gróða. Og ýmsir verða að horfa á það þessa daga, að þó að enn þá sé ekki búið að samþ. nýja skráningu á gengi krónunnar, þá eru menn farnir þegar að kaupa vörur á verði, sem miðað er við það gengi, sem á að verða á ísl. krónunni. Ýmsir verða að kaupa salt í fisk sinn á verðlagi, sem miðast við það gengi, sem á að verða samkv. þessu frv., þegar aðrir hafa hins vegar tryggt sér salt í sinn fisk út allt árið fyrir verð, sem samsvarar gamla genginu. Og þannig er þetta um fleiri vörur. Það er vitanlegt mál, að ýmsir menn græða á þessari gengissveiflu gífurlegar fjárfúlgur. Og menn eru að kasta því á milli sín, að þessi heildsalinn græði hálfa milljón kr. og þessi þrjá fjórðu millj. kr. bara á gengissveiflunni einni saman. En í þessu frv. eru ekki gerðar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að þessar vörur lendi á þennan hátt inni á vörumarkaðinum og verði vissum mönnum svo mikil gróðalind. Afleiðingarnar af þessu munu sýna sig á eftir. Þessir peningar munu eftir á koma til með að valda alveg sömu vandræðunum eins og hver annar stórgróði, sem mönnum fellur í hendur.