15.03.1950
Neðri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Umr. um þetta frv. eru í raun og veru með nokkuð einkennilegum hætti. Það er sjálfsagt einsdæmi í veraldarsögunni, að frv. um gengisbreyt., svo gífurlega eins og hér er lagt til, eigi nú þriggja vikna afmæli á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Og vitanlega hefur sá dráttur, sem hefur orðið á afgreiðslu frv., valdið ákaflega mikilli truflun í viðskiptalífinu.

Ég vil ekki frekar heldur en aðrir þeir, sem rætt hafa um þetta frv., gera neina tilraun til þess að tefja afgreiðslu þess hér á Alþ. Það er auðvitað, að þessu frv. er tryggður framgangur. Og því mun rétt vera að gera ekkert til þess að draga afgreiðslu þess, af þeim ástæðum, að þeim mun meiri vandræði mun leiða af því sem lengur dregst, að það sé afgreitt. — Ég get þó ekki látið vera að benda á það, sem raunar áður hefur verið fram tekið hér í hv. d., að það er ákaflega hætt við því og raunar vissa fyrir því, eins og frv. liggur fyrir og eins og út lítur fyrir, að það verði samþ., að það nær ekki tilgangi sínum. Hv. 2. landsk. þm. hefur fært mjög mörg rök að því, að hvorki mun samþykkt þessa frv. verða til verulegra bóta fyrir sjávarútveginn í heild, eins og frv. liggur fyrir, né heldur fyrir bátaútveginn út af fyrir sig, og styðst hann þar við fskj., sem komið hafa fram í málinu, bæði frá Félagi íslenzkra botnvörpuskipaeigenda og frá hraðfrystihúsunum. Þá er og vitað, að til stendur að boða aukafund í Landssambandi ísl. útvegsmanna, til þess að reyna að koma hv. þingmönnum í skilning um það, að þetta frv., ef að l. verður eins og það liggur fyrir, það mun heldur veikja hag bátaútvegsmanna heldur en styrkja hann. Ofan á þetta bætist svo, að hjá bátaútveginum er nú í raun og veru hallærisástand. Það er kvartað undan því hér á Suðurlandi, að afli sé ekki nema nokkur hluti þess, sem hann er í meðalvertíð. Og af Vesturlandi er það að segja, að þó að afli sé mjög lítill hér, þá er hann ekki þar nema einn þriðji hluti af því, sem hann er hér. Vélbátar, sem stundað hafa sjó frá Vestfjörðum frá 1. janúar, höfðu í byrjun marzmánaðar aflað um 50 tonn á bát, miðað við slægðan fisk upp úr sjó. Ef þessir bátar eiga að taka við verðlækkun eins og þeir eiga að gera, ef þetta frv. verður samþ., og þar á ofan 60–70% verðhækkun á salt og veiðarfæri og olíu, þá get ég ekki séð annað en þessi útgerð stöðvist jafnskjótt og búið er að afnema verðábyrgðina. Það er, í þessum landshluta a.m.k., hallærisástand hjá útgerðinni hvort sem er. Og frv., ef að l. verður, mundi gera það að verkum, að ég held, að þeir bátar, sem nú sækja þar sjó vestra, yrðu að hætta veiðum. Ég get ekki látið vera að benda á þetta. Ég tel, að eins og frv. liggur fyrir, þá muni það verða til þess að draga úr eða stöðva útgerð í landinu, en ekki að koma henni á réttan kjöl, eins og þeir, sem hafa undirbúið frv., segja, að gert verði með því. Ég vil koma svolítið að þessu aftur síðar. En ég vildi aðeins, fyrst hæstv. viðskmrh. er nú kominn hér inn í hv. d., ítreka það, sem bent hefur verið á um 2. gr. frv. Ég hygg, að eina vonin til þess, að samþykkt þessa frv. verði ekki til þess að koma öllu í bál og brand í landinu og spilla öllum vinnufriði, sé — og það sé fyrsta skilyrðið fyrir því, — að fella 2. gr. frv. alveg burt. Í 2. gr. frv. er, eins og allir hv. þdm. muna, svo kveðið á, að ríkisstjórninni sé á ráðherrafundi rétt, að fengnum till. bankaráðs og bankastjórnar Landsbanka Íslands, að ákveða gengi ísl. kr. Og þegar breyt. verður á kaupgjaldi, önnur en sú, sem ákveðin er í þessum l., er í þeirri gr. kveðið svo á, að bankarnir skuli þá, svo fljótt sem kostur er á, gera ríkisstj. grein fyrir niðurstöðum sínum um ráðstafanir til þess að halda jafnvægi í greiðslunum við útlönd. Nú hefur verið bent á það, að kaupgjald innanlands er í sjálfu sér ekki endilega ráðandi um verzlunarjöfnuðinn við útlönd, sem og mun koma í ljós nú á næstu mánuðum, því að hvað sem þessu gengisfrv. líður, þá er ekki annað sjáanlegt nú í dag, en að á næstu mánuðum verði meiri gjaldeyrisvandræði hér í landinu, en hafa verið nokkurn tíma áður, í ég veit ekki hvað mörg ár. En eins og þetta frv. er lagt fram, þá er það í rauninni lagt í vald bankaráðs Landsbankans og ríkisstj. að ákveða kaupgjaldið í landinu. Ég hygg, að þarna yrði settur á gerðardómur, sem væri þannig skipaður, að launþegarnir í landinu sætti sig ekki við hann. Það er í raun og veru óhugsandi, eins og launþegarnir í landinu á sínum tíma tóku gerðardómsl. 1942, að þeir sætti sig við gerðardóm um kaupgjald, sem sé skipaður eins og gert er ráð fyrir í þessari frvgr. Ég fyrir mitt leyti vildi gjarna sjá það, að atvinnuvegirnir hér í landinu blómguðust. Og ég vildi umfram allt vita, að hér væri stöðug vinna fyrir alla og að vinnufriður væri í landi. Af þessum ástæðum vil ég — ekki sízt þar sem hæstv. forsrh. nú er kominn hér í sinn stól — beina því til hæstv. ríkisstj., að hún athugi það rækilega fyrir 3. umr. málsins, hvort hún ekki sér sér fært að afnema þessa gr. úr frv. eða ganga inn á þá till., sem liggur hér fyrir frá hv. 3. landsk. um að fella þessa gr. niður. Ég tel, að þótt ekki væri neitt annað, en þetta að frv., þá séu þessi ákvæði slík ögrun við launþegana í landinu, að þeir muni ekki sætta sig við hana. Ef við tökum svo til athugunar að öðru leyti, að þessum sömu aðilum, sem eftir 2. gr. frv. eiga að ráða raunverulega kaupgjaldi til launþeganna, er ekki ætlað að ákveða um neitt annað verðlag í landinu, þá verður þetta enn óviðunanlegra. Þeir eiga t.d. ekki að ráða neinu um verðlag á iðnaði og þeir eiga ekki að ráða neitt verðlagi á landbúnaðarvörum, svo að við tökum dæmi. En þeim er ætlað að ráða verðlagi á kaupgjaldinu. — Ég skal ekki hafa mörg orð um þessa gr. En ég hygg, að þeir, sem hafa henni ráðið, hafi sjálfsagt ætlað að gera gott með sínum till. En till. eru svo fjarstæðar, að þær eru ekki líklegar til þess að skapa frið um framkvæmd þessa máls, svo að ég ekki segi meira.

Ég vildi þá koma ofurlítið aftur að sjávarútvegsmálunum. Í raun og veru hefur hv. 2. landsk. þm. rakið mjög ýtarlega og bent á mörg atriði, sem hefðu verið þess verð — ef það hefði verið ætlunin að afgreiða þetta mál hér á Alþ. með viðtölum við þm. á opinberum vettvangi — að þau væru tekin til athugunar. Ég þykist vita það, að hæstv. ríkisstj. muni verða þess vör nú á allra næstu dögum, að það, sem komið hefur fram frá samtökum útgerðarmanna af aths. við þetta frv., er ekki fleipur eitt og ekki fram sett að ástæðulausu. En í sambandi við svo nefnt framleiðslugjald vildi ég bæta því við, sem áður hefur verið um það sagt, að það er nærri hjákátlegt, að það skuli vera gert ráð fyrir framleiðslugjaldi af atvinnu, sem hefur verið í hallæri í fimm undanfarin ár, og það svo miklu, að bæði þeir útvegsmenn, sem hafa lagt út í að halda út skipunum, hafa þurft á stöðugri aðstoð að halda, og eins hafa þeir sjómenn, sem farið hafa á síld á hverju sumri, komið heim undanfarin ár svo að segja slyppir og snauðir og venjulega ekki fengið lágmarkskauptryggingar, sem þeir hafa átt að fá, fyrr en löngu eftir á, og nú fyrir síðasta sumar alls ekki, margir hverjir. Það má segja í raun og veru, að það sé seilzt um öxl til lokunnar að gera ráð fyrir fé í ríkissjóðinn frá slíkum atvinnuvegi. Mér er ljóst, að það er að sumu leyti ekkert slæmt útlit með sölu á síldarafurðum, sérstaklega síldarmjöli, og einnig hitt, að við gengisbreyt., sem hér er gert ráð fyrir, hækka síldarafurðirnar að sjálfsögðu afar mikið í verði. En það liggur við, að maður freistist til þess að halda, að þeir, sem flutt hafa þetta frv. inn á Alþ., hafi tekið gild ummæli hagfræðinganna, sem munu vera hér einhvers staðar í þessari grg., um, að almenn dýrtíð í landinu muni ekki vaxa nema um eitthvað 10 eða 20%, og þá líka heimfært þetta upp á útgerðarvörur. En nú er það svo um útgerðarvörurnar, að þær eru yfirleitt ákaflega lítið tollaðar. Og útgerðarvörur, eins og salt, síldartunnur, olía og veiðarfæri, þær hækka, vegna þess, hve lítið gætir tollanna í útsöluverði þeirra hér og innkaupsverð þeirra er mestur hlutinn af söluverðinu. Og af þessum sökum hljóta þessar vörur að hækka, margar hverjar, um a.m.k. 50–60% við gengisbreyt. Þetta gerir það að verkum, að gengisbreyt. jafnframt því auðvitað að hækka söluverðið á vörum út úr landinu — hækkar allar vörur, sem útgerðin þarf að kaupa inn í landið, miklu meira heldur en yfirleitt gerist í sambandi við dýrtíðina almennt. Og ég er satt að segja alveg hissa á, að jafnágætlega skýr fjármálamaður og hæstv. viðskmrh. er skuli ekki hafa tekið þetta til sérstakrar athugunar við afgreiðslu þessa frv.

Nú er gert ráð fyrir því í frv., að gengishagnaður sá, sem fæst við það, að sá gjaldeyrir, sem bankarnir eiga umfram sínar skuldbindingar, verður seldur, renni til ríkisins og verði varið eins og segir í frv. En nú á þessum fundi hefur verið útbýtt alveg nýjum till. um þetta, hvernig eigi að úthluta þessum gengishagnaði. Eru þessar till. á þskj. 431. Mér er ekki alveg ljóst, hve mikill þessi gengishagnaður muni verða. En e.t.v. gæti hann orðið um 25 millj. kr., e.t.v. ekki svo mikill og e.t.v. meiri. Mér er það ekki alveg ljóst. En af hverju er þessi gengishagnaður fenginn? Hann er fenginn af vörum, sem þeir, sem flytja þetta frv., segja, að hafi verið borgaðar við of lágu verði. Þeir, sem hafa lagt þennan gjaldeyri til, er útgerðin. Og hvernig sem menn annars líta á gengislækkunina, hvort það eigi að hafa gengislækkun eða ekki, þá er varla hægt að segja annað en það, að frv. sé viðurkenning á, að gjaldeyrir sá, sem útvegurinn hefur skilað til bankanna undanfarið, hefur verið borgaður of lágu verði. Nú má vitanlega deila um það, hvernig eigi að verja þessum gjaldeyri. En hitt er ekki hægt að deila um, að mikill þorri útgerðarinnar er og verður þrátt fyrir framgang þessa frv. í mestu fjárhagsvandræðum. Og hefði þá ekki verið réttara, ef á að útdeila þessum arði á annað borð, að nota hann til þess að koma fótum undir þann illa stadda sjávarútveg, heldur en að fara að eins og gert er í samningunum á milli stjórnarflokkanna, að þriðjungurinn af honum skuli vera lánaður byggingarsjóði verkamanna, einn þriðji hluti skuli vera lánaður byggingarsjóði samkv. l. um byggingarframkvæmdir í sveitum og einn þriðji hluti skuli vera lánaður ræktunarsjóði Íslands? Nú er ákaflega fjarri því, að ég sé á móti því út af fyrir sig, að fé sé varið til alls þessa. Ég hef mikinn áhuga fyrir því að styðja ræktun í landinu og mikinn áhuga fyrir því að stuðla að því, að byggt verði upp í sveitum, og þó mestan áhuga fyrir því, að byggðir verði verkamannabústaðir samkvæmt verkamannabústaðalögunum. Þó dylst mér það ekki, að það er ákaflega hæpin leið að fara inn á að fara þannig með þetta fé, sem eftir viðurkenningu Alþ. er í raun og veru tekið af útgerðinni, og þegar útgerðin er svona stæð eins og hún er, að deila því þá á þennan veg eins og hv. stjórnarfl. hafa samið um, ekki sízt þegar þess er gætt, að Alþ. hefur alls ekki staðið við þær skuldbindingar, sem það hefur gefið útgerðinni. Það hefur ekki staðið við þær. Það hefur lofað að láta stórfé í aflatryggingasjóð, mig minnir 5 millj. kr. Þær eru ekki komnar enn. Það hefur verið talað um, að þær eigi að koma með eignaraukaskatti, sem er ekki búið enn þá að jafna niður. Nú er í þessum brtt. í raun og veru lofað sama skattinum. Það á að jafna honum niður, eftir að þetta frv. kemst í lög. En mundi það ekki taka langan tíma? Og hvenær mundi þá aflatryggingasjóður taka til starfa? Því var lofað af fyrrv. hæstv. ríkisstj. og þeim flokkum, sem að henni stóðu, öllum í sameiningu, að aflatryggingasjóðurinn ætti að taka til starfa á árinu sem leið. Þetta var ekki efnt. Og enn mun eiga að draga það að gera aflatryggingasjóði mögulegt að taka til starfa. Við heyrum hér daglega fréttir af því hallærísástandi, sem ríkir í vélbátaútgerðinni. Og það verður óhjákvæmilegt, og það e.t.v. áður en þessu þingi lýkur, að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir út af því aflaleysi, sem er nú hér um allt land hjá vélbátaútveginum, ef ekki rætist verulega úr. Um togaraútgerðina er það vitað, að hún hefur svo til ekki skilað neinum gjaldeyri og að flestir togarar hafa verið reknir með tapi síðan snemma á síðasta hausti. — Ég vil þess vegna enn víkja að því, að ef það er ætlun Alþ. að skipta því fé, sem fæst vegna breyt. á genginu, því fé, sem Alþ. virðist nú vera að viðurkenna, að komið hafi inn, er borguð hafi verið of lágu verði framleiðsla útgerðarmanna, sem skiluðu því til bankanna, þá tel ég réttast, að útdeila eigi því til sjávarútvegsins, til þess að styrkja hann og koma fótum undir hann, en ekki til þess, sem gert er ráð fyrir í samningum þeim, sem gerðir hafa verið á milli stjórnarfl., hversu þarfar umbætur sem þar eru á ferðinni. Ég hefði talið, að það hefði átt Fyrst og fremst að greiða nú inn í aflatryggingasjóðinn nokkurt fé og láta hann taka til starfa. Það er ekki gert. Ég vil ekki við þessa umr. flytja brtt. um þetta. En ég vil þó leyfa mér að flytja brtt. svolítið í þessa átt, til þess að freista þess, hvort Alþ. ekki vilji standa við skuldbindingar, sem það gaf hlutarsjómönnum um það að greiða fyrir því, að útgerðar:nenn gætu fengið lán til þess að inna af hendi sjóveðskröfur frá síldveiðunum á s.l. sumri. Í l. um ríkisábyrgð á útflutningsvörur bátaútvegsins nr. 1 frá 14. jan. 1950 er svo ákveðið, að ríkisstj. sé heimilað að taka að láni 11/2 millj. kr. í þessu skyni. Mér er kunnugt um, að hæstv. fyrrv. ríkisstj. hafði fullan vilja á að koma þessu í kring. Þá er ógreitt til sjómanna mikið af sjóveðum frá því á síldveiðunum s.l. sumar, og hygg ég, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki fé til að greiða þetta, þó að hún vildi gera það. Það er víst, að þau skip, sem veð hvíla nú á, fara ekki á sjó, nema veðin séu greidd, því að sjómenn eru orðnir langþreyttir á að fá ekki kaup sitt greitt. Ég hygg því, að það minnsta, sem hægt sé að gera, sé að leyfa hæstv. ríkisstj. að taka hluta af gengishagnaðinum til að greiða þetta. Ég vil því fyrir 3. umr. láta athuga, hvort ekki sé hægt að láta aflatryggingasjóð fá von í þessu fé, en ekki í óálögðum eignarskatti, sem enginn veit hve mikill er eða hvort verði greiddur eða innheimtur. Ég mun nú freista að reyna réttsýni hv. þm. og leggja fram brtt. við 1. brtt. á þskj. 431, sem ég mun nú lesa, með leyfi hæstv. forseta: „Fyrir orðin „og varið til lánveitinga sem hér segir“ kemur nýr málsliður: Þar af skal verja 11/2 millj. kr. til lánveitinga samkv. 15. gr. laga nr. 1/1950, um ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl., en að öðru leyti skal gengishagnaðinum varið sem hér segir:“ Ég vil sjá, hvort þessu verður nokkuð ágengt við þessa umr., en áskil mér rétt til að bera fram frekari brtt. við 3. umr.