04.01.1950
Sameinað þing: 13. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1550 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Síðasta dag, sem fundur var haldinn í Alþingi, áður en jólafrí hófst, gerði ég hérna grein fyrir viðhorfi ríkisstj. til þess vanda, sem nú blasir við og þjóðin væntir, að Alþingi ráði bót á svo fljótt sem auðið er.

Ég gerði það þá sérstaklega að umræðuefni, hvernig komið væri fyrir bátaútveginum, og skýrði í því sambandi frá því, að ríkisstj. hefðu borizt skýrslur frá Landssambandi ísl. útvegsmanna þann 15. des. og þann 18. des. frá hraðfrystihúsunum, þar sem bornar eru fram óskir og kröfur frá þessum aðilum, til þess að þeir gætu hafið starfsemi sína sem fyrst.

Ég lýsti því yfir þá, að ríkisstj. hefði ekki gefizt ráðrúm til þess að athuga það, hvort auðið væri að tryggja þessa aðila með bráðabirgðaráðstöfunum, til þess að útgerðin stöðvaðist ekki núna um áramótin, eða hvort grípa ætti til róttækari ráðstafana í samræmi við yfirlýsta stefnu Sjálfstfl., ef hann hefði náð meirihlutaaðstöðu hér á þingi. En endanlega gaf ég það heit fyrir hönd ríkisstj., að hún mundi leggja fram tillögur í málinu fyrir Alþingi svo fljótt sem auðið yrði, hvort heldur sem þær mundu hníga að bráðabirgðalausn sem undanfara róttækari tillagna, eða þá að hinar síðarnefndu yrðu lagðar fram svo fljótt sem auðið yrði án slíks undanfara.

Að sjálfsögðu hefur ríkisstj. gert allt, sem í hennar valdi stóð, til þess að vinna að framgangi þessa máls, og um áramótin var undirbúningur málsins það langt á veg kominn, að ég taldi mér fært að lýsa því þá yfir í áramótaboðskap mínum í Morgunblaðinu, að ríkisstjórnin mundi: „1) Leggja fyrir Alþingi þegar í stað, er það kemur saman til funda að nýju, tillögur, er miða að því að hindra stöðvun útvegsins og ætlaðar eru eingöngu til bráðabirgða. 2) Leggja fyrir Alþingi svo skjótt sem auðið er, að loknum nauðsynlegum undirbúningi málsins, tillögur um lausn á vandamálum atvinnu- og viðskiptalífsins, sem byggjast á afnámi uppbótaleiðarinnar og stefna að hallalausum rekstri framleiðslustarfsemi landsmanna í meðalárferði, afnámi hafta og banna og verzlunarfrelsi.“

Ég skýrði þá einnig frá því, að ríkisstjórnin hefði unnið sleitulaust með sérfræðingum sínum að undirbúningi skýrslna og tillagna í þessum málum, og að þessum tillögum miðaði vel áfram, en að sjálfsögðu þarfnast þær mikillar athugunar og vinnu, en leitazt mun verða við að hraða þeim sem mest.

Ég taldi mér sem forsætisráðherra skylt að skýra Alþingi frá því nú, er það kemur til fundar á ný, að í samræmi við þessi fyrirheit sín hefur ríkisstj. nú lagt fyrir Alþingi frv. til bráðabirgðaúrlausnar á þessum vandamálum. Ég tek það fram, að ríkisstj. þótti ekki kleift að bíða eftir endanlegri lausn þessara mála, því að mörg atriðin krefjast mjög ýtarlegrar athugunar, svo að ekki verður hægt með neinni sanngirni að ætlast til þess, að Alþingi geti á einum eða tveim dögum látið uppi álit sitt um það og samþ.

Að þessu athuguðu telur ríkisstj. rétt og flutti þess vegna þetta frv., sem miðar að bráðabirgðalausn þessara mála. Ég skal svo ekki að svo stöddu fara að ræða um þessa bráðabirgðalausn, því að hún kemur til umr. hér í þinginu á morgun, og mun þá viðkomandi ráðherra gera grein fyrir henni, en ég vil aðeins undirstrika það meginatriði, að ákvæði þessa frv. er eingöngu bráðabirgðalausn, og ætlazt er til, að þau gildi aðeins þangað til í marz. Það er miðað við, að þau gildi til 1. marz, ef ekki verður búið að setja heildarlöggjöf áður, en þau falla úr gildi strax og heildarlöggjöf er sett. Skyldi svo fara, gegn von ríkisstj., að Alþ. verði ekki búið að setja heildarlöggjöf um þetta 1. marz, þá gildir þó þessi bráðabirgðalausn áfram, í breyttu formi varðandi tekjuöflun, til vertíðarloka, þar sem útgerðarmenn töldu sig ekki geta hafið vertíð, ef ekki fengist vilyrði fyrir því, að sú vertíð, sem nú er að hefjast, fengi annaðhvort að njóta ábyrgðar eins og verið hefur eða þeirra grundvallarbreytinga, sem um er að ræða og hníga í þá átt að koma fótum undir framleiðslustarfsemi landsmanna almennt. Þó er svo ætlazt til, að þessi bráðabirgðalausn, ef hún heldur áfram lengur en til 1. marz, falli niður, hvenær sem endanleg skipun málanna verður gerð á Alþ., og gildi aldrei lengur en til vertíðarloka, 15. maí. Ég get um þetta aðeins af því, að ég vil, að hæstv. Alþ. sé það ljóst, að ríkisstj. ber fram bráðabirgðalausn í viðurkenningu þess, að það er ekki hægt að láta útveginn stöðvast, meðan stendur á varanlegri lausn málsins, en hún slær því jafnframt föstu, að hún vill ekki una þessari bráðabirgðalausn sem varanlegri lausn í málinu. Og hún telur eftir sem áður skyldu sína að bera fram till. um aðrar leiðir í þessu máli og mun leggja þær fyrir Alþ. svo skjótt sem auðið er.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frekar. Ríkisstj. mun. þegar þessar aðrar leiðir liggja fyrir, gera Alþ. ýtarlega grein fyrir þeim. Ég tel ekki, að ríkisstj. sé skylt að gera grein fyrir þeim fyrr en þær liggja fyrir. Þetta vildi ég herra forseti, láta koma fram á þessum fyrsta fundi Alþ.