17.03.1950
Neðri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Finnur Jónsson:

Ef hæstv. atvmrh. ekki treystir sér til að vera viðstaddur vegna annarra anna, verð ég að sætta mig við að tala við þá tvo hæstv. ráðh., sem hér eru, þó að mér virðist, að það sé að tala fyrir daufum eyrum að tala við þá, því að hvað eftir annað var til þeirra beint nokkrum fyrirspurnum og tilmælum í gær, án þess að þeir gerðu nokkra tilraun til að svara þeim, og ég verð að segja, að mér þykir það nokkuð undarlegt, af þeirri ástæðu, sem ég tók fram áður og ítreka nú í áheyrn hæstv. ráðh., að ég hef ekki orðið var við, að nokkur andmælandi frv. hafi gert nokkra tilraun til málalenginga. Það hafa að sjálfsögðu komið fram mismunandi skoðanir, en hæstv. ríkisstj. hefur annaðhvort ekki viljað sýna þá kurteisi — eða ekki getað — að svara þeim fyrirspurnum, sem til hennar hefur verið beint.

Ég gerði við 2. umr. að umtalsefni hluta af skilmálum sjávarútvegsins, sem hæstv. ríkisstj. hefur algerlega vanrækt að taka til úrlausnar í sambandi við þetta mál, og þó er það svo, að sjávarútveginum verður ekki komið á þann kjöl, sem hæstv. ríkisstj. ætlast til með þessu frv., nema uppfylltir séu skilmálar sjávarútvegsins. Á ég þar sérstaklega við hin geysilega háu sjóveð frá síðustu síldarvertíð. Ég benti þá á það jafnframt, og ég flutti brtt., sem var felld, um það efni að taka greiðslur á sjóveðskröfunum frá síðustu síldarvertíð upp í ákvæði um væntanlegan gengishagnað, og jafnframt var eftir till. ríkisstj. farið nokkuð einkennilega með þann sjóð, sem ríkisstj. kallar í frv. aflatryggingasjóð. Það er að vísu svo, að slíkur sjóður er hvergi til í neinum l., heldur heitir hann hlutatryggingasjóður bátaútvegsins. Má það ef til vill til marks taka um vandvirknina við undirbúning þeirra till., sem hæstv. stj. hefur gert við frv., að þessi sjóður er í frv. kallaður aflatryggingasjóður, en ekki því rétta nafni, sem hann heitir í l.

Um aflatryggingasjóðinn, sem hæstv. ríkisstj. kallar svo, er það að segja, að í l. frá 1947 um dýrtíðarráðstafanir, er svo kveðið á í 2. gr., að leggja skuli sérstakan skatt á eignarauka, sem orðið hafi frá 1. jan. 1940 til 31. des. 1947, og sá skattur skuli renna í framkvæmdasjóð ríkisins, en ef stofnaður verði afla- eða hlutatryggingasjóður fyrir bátaútveginn með l., þá skuli skattinum jafnt skipt milli hans og framkvæmdasjóðs. Jafnframt var útgerðarmönnum lofað, að þessi sjóður skyldi taka til starfa árið 1948 eða í síðasta lagi í ársbyrjun 1949. Lög um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins voru síðan sett, og eru þau frá 25. maí 1949. Þar er ákveðið í 8. gr., að í staðinn fyrir að sjóðnum sé ætlaður helmingur eignaraukaskattsins, sem innheimtur verði samkvæmt 2. kafla l. nr. 128 frá 1947, um dýrtíðarráðstafanir, skuli hann fá 5 millj. kr., og leggi ríkissjóður fram það, sem á vanti. — Nú mun það vera svo, að þessi eignaraukaskattur var alveg undirbúinn undir álagningu, og henni því sem næst lokið. Mér hefur verið tjáð, að það sé byrjað að jafna skattinum niður og búið að jafna niður helmingnum hér í Reykjavík. Útlit ætti því að vera fyrir, að ef áframhald yrði á niðurjöfnun þessa skatts, að henni yrði lokið á síðari hluta þessa árs, og innheimtan á honum ætti því að komast í framkvæmd mjög snemma á næsta ári í síðasta lagi. Séu þessar upplýsingar réttar, þá ætti aflatryggingasjóðurinn að geta fengið það fé, sem honum ber, nú í byrjun næsta árs og uppfyllt þau loforð, sem gefin voru Landssambandi íslenzkra útvegsmanna. Nú sé ég, að í till. hæstv. stj. er gert ráð fyrir að afnema þennan eignaraukaskatt og gera þá erfiði þeirrar n., sem að þessu starfaði í þrjú ár, ónýtt. Jafnframt er skattstiginn lækkaður verulega, svo að nú er gert ráð fyrir, að ekki verði greiddur skattur af eign undir 300 þús. kr., en í l. um eignaraukaskatt átti hann að byrja á 100 þús. kr. Hér er því um verulega tekjurýrnun að ræða frá því, sem ætlazt var til í eignaraukaskattslögunum, þar sem vitað er, að meginþorri af eignum landsmanna er til orðinn á því tímabili, sem eignaraukaskattslögin ná yfir, og það því fremur, sem jafnframt því að tekið er neðan af skattstiganum, er hann verulega mikið lækkaður.

Mér skilst því, að með þeirri lagabreyt., sem flutt hefur verið af hæstv. ríkisstj., sé verið — ég vil ekki segja að svíkja bátaeigendur um þann hluta eignaraukaskattsins, sem þeim bar samkvæmt samningum við þrjá flokka á Alþingi, sem stóðu að fyrrverandi ríkisstj.

Ef svo skyldi vera, að hæstv. ríkisstj. hefði einhverjar upplýsingar að gefa í þessu efni, þá þætti mér mjög vænt um að fá þær við þessa umr. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. viðskmrh., sem ég geri ráð fyrir að sé aðalforsvarsmaður þessa frv., ef hann er nokkur til á Alþingi, hvort hann hafi einhver gögn í höndum, sem sýni það, að eignaraukaskatturinn, sem átti að renna í hlutatryggingasjóð, hafi ekki orðið meiri en 5 millj., en ef svo væri, að hann hefði getað orðið meiri, hvernig ætlar hæstv. stj. þá að uppfylla þau loforð, sem Alþingi og stjórnmálaflokkarnir þrír á Alþ. hafa gefið útgerðarmönnum í þessu efni?

Í öðru lagi mætti ganga út frá, að hlutatryggingasjóður þyrfti ekki enn að bíða mörg ár eftir þessu framlagi, ef haldið hefði veríð áfram með eignaraukaskattinn, svo sem l. stóðu til. En með þeirri breyt., sem samþ. var hér í þessari d. í gær, þá er gert ráð fyrir, að framlag ríkissjóðs til hlutatryggingasjóðs komi ekki allt til innheimtu, eftir 12. gr. þessa frv. En skattinn skal greiða í síðasta lagi 6 mánuðum eftir að skattupphæðin var tilkynnt gjaldanda, og ef skatturinn er hærri en 2000 kr., er gjaldanda heimilt að greiða allt að 90% af því, sem þar er fram yfir, með skuldabréfum, sem hann gefur út, en ríkisstj. ákveður form og texta fyrir, og andvirði bréfanna á svo að greiðast á 20 árum, og séu ársvextir af þeim 4%. — Mér skilst, að eftir þessu ákvæði geti farið svo, að hlutatryggingasjóður mundi geta þurft að biða enn í ærið mörg ár eftir þessu loforði stjórnarflokkanna og Alþ., jafnvel þó að framlag til hans eigi að greiðast af því fyrsta fé, sem innheimt verður með þessu móti. Bæði mundi það nú taka verulegan tíma að fara nú að jafna niður skatti eftir nýjum reglum, leysa í útreikningnum öll hlutafélög, samvinnufélög og sameignarfélög upp í einstaklinga og jafna skattinum niður og innheimta hann. Og eins er ekki alveg víst, að það komi inn 5 millj. kr. í peningum af þessum skatti fyrstu mánuðina, heldur mundi eitthvað verða borgað í tuttugu ára skuldabréfum, sem þessi hlutatryggingasjóður þá ætti að fá. Ég tel, að hér sé ekki vel að farið og að ef þessar tili. nái fram að ganga eins og þær liggja fyrir, þá verði nokkuð erfitt eftirleiðis að treysta loforðum hæstv. Alþ. og loforðum þessara þriggja stjórnmálaflokka. Ég veit ekki betur, en að um þetta hafi verið gerður bindandi samningur, að vísu e.t.v. munnlegur, við Landssamband íslenzkra útvegsmanna. Þessi samningur var siðan staðfestur með l. Það er að vísu sjálfsagt á valdi Alþ. að breyta lögum. Hitt er dálitið vafasamara, hvort þrír flokkar, sem hér eiga hlut að máli, geta gengið á bak orða sinna, eins og til virðist stefnt með þeim till., sem hér liggja fyrir. Út af þeim upphæðum, sem gefin hafa verið loforð um viðkomandi hlutatryggingasjóðnum, skal ég ekki fjölyrða meira. Ég tel, að það sé í mesta lagi vafasamt af hæstv. Alþ. að slá því föstu, að þessi upphæð hefði ekki getað numið meiru en 5 millj. kr., og ég vil þess vegna ítreka það við hæstv. viðskmrh., hvort hann hafi einhver gögn um það eða vitneskju, er sýni, að skatturinn hefði ekki numið hærri upphæð.

Í öðru lagi vil ég freista þess að reyna að fá því komið til leiðar, að hlutatryggingasjóðurinn þurfi ekki að bíða enn í langan tíma eftir því, að þessi loforð verði framkvæmd, og hef í því skyni flutt brtt. á þskj. 447, þar sem farið er fram á, að framlagið til hlutatryggingasjóðs verði tekið af væntanlegum gengishagnaði, sem ætti að verða í handraða nú innan mjög skamms tíma — þó ekki til frambúðar, heldur aðeins sem lán, sem endurgreiðist þá af þeim skatti, sem ætlazt er til, að innheimtur verði samkv. till. hæstv. ríkisstjórnar. Mér finnst ekki, að það sé farið fram á mikið í þessum till. Það er aðeins verið að reyna að fá þessa þrjá stjórnmálaflokka, sem að þessum samningum stóðu, til þess að standa svolítið við orð sín. Það eru ekki gerðar tilraunir til þess að breyta úthlutun gengishagnaðarins, eins og hún er í frv. hæstv. ríkisstj., nema aðeins í bili, þangað til skatturinn innheimtist. — Nú má vel vera, að það séu svo fastir samningar á milli núverandi hv. stjórnarflokka um, að hér skuli ekki breyta neinum stafkrók. En þar sem nú er ekki um annað að ræða, en að reyna að fá þessa flokka til þess að standa við loforð, sem lögfest hafa verið, þá vænti ég þess, að hæstv. ríkisstj. taki þessa brtt. til velviljaðrar athugunar.