17.03.1950
Neðri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Ég vil víkja fáum orðum að aflatryggingasjóðnum. Í l. frá 1949, 8. gr., stendur: „Nú nær stofnfé ekki 5 millj. kr., og skal þá ríkissjóður leggja fram það, sem til vantar“. Þetta bendir til þess, að þeir, sem sömdu l., hafa ekki verið fullvissir um, að aflatryggingasjóður mundi fá 5 millj. af eignaraukaskattinum. Þess vegna sagði ég, að þessi skattur mundi færa hlutatryggingasjóðnum 5 millj., eða sem miðað hefði verið við. (FJ: Sem lágmark.) Það má segja það, en þeir, sem sömdu þetta, hafa ekki gert sér háar hugmyndir um tekjurnar af eignaraukaskattinum, fyrst ríkissjóður átti að bæta við því, sem á vantaði. Annars tel ég ekki, að neitt vinnist á því að karpa um þetta. Ég get ekki glatt hv. þm. með því, að ég verði með till. hans. Ég endurtek það, að ég tel, að vel verði fyrir sjóðnum séð með frv., þó að hann fái ekki þetta fé fyrr en eftir tvö eða þrjú ár. Læt ég svo útrætt um þetta.

Hv. 3. landsk. bar hér fram ýmsar fyrirspurnir og ávítaði stj. fyrir, að hún hefði ekki staðið fyrir svörum í gærkvöld. Það má æra óstöðugan, ef svara ætti öllu, sem þeir koma með, er vilja hindra framgang málsins og spilla fyrir því. Fyrirspurnirnar bera þess líka merki, að þær eru til þess gerðar að tefja umr. og gera málið tortryggilegt. Þó vil ég minnast á nokkur atriði. Hann spurði, hvort fiskverðið gæti hækkað upp í 93 aura. Reynslan verður að skera úr um það. Það er ekki mikið unnið við að deila um það, en stj. væntir þess, að þessar ráðstafanir nái því marki að koma útgerðinni á arðbæran grundvöll og út úr feni ríkisstyrkjanna, sem hún nú er komin í. Hann spurði líka, hvernig líran yrði skráð, en hún er nú skráð 50% yfir raunverulegt gengi. Ég er undrandi yfir því, að hv. þm. skuli vera að spyrja um þetta. Það leiðir af sjálfu sér, að líran verður skráð, eins og annar gjaldeyrir, og þar með losnum við, við hið svo kallaða gotukerfi. Hann spurði líka, hvort ráðgert væri, að söluskatturinn félli niður. Það er ekki ákveðið, en málið er í athugun, og mun brátt verða gefið til kynna, hvað gert verður í þessu efni.