17.03.1950
Neðri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hafði sannast að segja vonast eftir því, að hæstv. viðskmrh. mundi segja eitthvað viðvíkjandi till., sem miðar að rýmkun haftanna. Ég vil leyfa mér að vænta þess, að þm. fái að vita, hvaða undirtektir till. á þskj. 439 fær hjá þeim mönnum, sem segjast vera sérstakir fulltrúar frjálsrar verzlunar og segja, að með þessu frv. sé stefnt að því að koma hugmyndinni um frjálsa verzlun til veruleika. Það er ekki mikið, sem farið er fram á í þessari brtt. En ofurlítið gæti það máske hjálpað, ekki sízt á ýmsum stöðum utan Reykjavíkur. Ég veit ekki, hvort hv. þm. og þá sérstaklega hæstv. ríkisstj. hafa gert sér það ljóst, hvernig aðstaðan er fyrir þá menn, sem eru að brjótast í því að reyna að stunda atvinnu úti á landi. — Ég ætla, til skýringar minni brtt., að segja frá því, að fyrir tveim til þremur árum síðan kom ég í lítið þorp á Austurlandi. Við höfðum haft með það að gera í nýbyggingarráði einu eða tveimur árum áður að aðstoða menn, sem bar búa, til þess að koma sér upp frystihúsi. Þeir höfðu sýnt fram úr skarandi dugnað í þessu máli og safnað í fátæku þorpi og í fátækri sveit tiltölulega miklu fé til þess. Og með hjálp stofnlánadeildarinnar tókst þeim að koma upp hraðfrystihúsinu. Þegar það var svo komið upp og fyrir viku búið að taka það í notkun, þá kom skeyti frá Sölumiðstöðinni hér í Reykjavík, sem var tilkynning um það frá Landsbankanum, að ekki yrði lánað út á hraðfrystan fisk, nema hann væri sérstaklega pakkaður. Þetta þýddi það, að allir bátar, sem voru þarna á staðnum, urðu að hætta veiðum.

Þannig er það, að ef einn bankastjóri hér í Reykjavík skrifar eitt bréf, þá leiðir af því, að framleiðendur úti á landi verða að hætta að framleiða vöru og frystihús þeirra verður að standa autt. — Nú veit ég hins vegar, að hægt var þarna að framleiða af fullum krafti og selja það, sem framleitt var þar, og kaupa vörur til landsins fyrir það. En þessir menn, sem ég minntist á, höfðu ekki leyfi til þess né peninga að ráðast í að framleiða á þennan hátt. Hefðu þessir menn haft möguleika til þess að geta selt vöru sína út úr landinu og keypt vörur í staðinn, þá hefðu þeir haldið áfram veiðum, en ekki hætt. Og ég veit, að sama mætti segja í aðalatriðum um fjölda staða úti á landi. En svo framarlega sem þeir sjá, að skrifstofuvaldið hér í Reykjavík er að takmarka möguleika þeirra til sjálfsbjargar, þá eru þeir ráðalausir. En ef þeir hefðu þó ekki væri nema þá gátt, sem þeim væri opnuð með samþykkt þessarar brtt., þá sæju þeir sér fært að framleiða útflutningsvöru, ef þeir mættu selja sína vöru úr landi og kaupa inn vörur í staðinn. Og í sumar verður það svo, ef ríkisstj. heldur áfram þeirri pólitík, sem stóð til, að Landsbankinn stoppaði útlán, þegar búið væri að hraðfrysta 15 þús. tonn — og það klárast hér á Suðurnesjum um 15. maí og kannske meira það þýðir, að hraðfrystihúsin, sem starfa úti á landi síðari hluta ársins, hefðu ekki möguleika til að selja. Þau fengju ekki lán til þess, og það mundi stöðva reksturinn á hraðfrystihúsunum og bátunum. Hingað til hafa hraðfrystihúsin mátt vinna af fullum krafti og hafa mátt framleiða 30 þús. tonn. En nú mættu þau, samkv. því, sem ég sagði áðan, framleiða 15 þús. tonn. — Með samþykkt þessarar brtt. yrði hraðfrystihúsunum opnaður möguleiki til þess, ef þau gætu skapað sér viðskiptasambönd, utanlands og innan, að reyna að selja fisk sinn, sem þau alls ekki mundu framleiða annars, ef þau fengju ekki að flytja inn vörur fyrir gjaldeyrinn, sem þau fengju fyrir vöru sína. Menn þeir, sem á þau hafa treyst, yrðu að sitja atvinnulausir annars. Og er þetta nú virkilega til of mikils mælzt, að þeir menn, sem eru að vinna við þessa framleiðslu úti um allt land, fái möguleika til þess að vinna við þetta með því móti, að þeir megi sjálfir flytja inn vörur fyrir útflutningsvöru sina? Ef menn t.d. í einhverju þorpi tækju sig til með að framleiða fisk og flyttu út og keyptu inn timbur og sement í staðinn og reistu sér hús — er það til of mikils mælzt fyrir Íslendinga árið 1950, að þeir fái leyfi til þess? Er ástæða til þess að láta vera í þessu absolút ráðandi skrifstofuvald hér í Reykjavík fyrir Íslendinga nú eins og það var úti í kóngsins Kaupmannahöfn fyrir 200 árum siðan? Má ekki lina á þessu? Hvernig stendur á því, að það er staðið svona hatramlega á móti þessu? Heldur Hafnarstrætis-klíkan — ég á ekki við aumingja fólkið, sem er austan til í Hafnarstræti stundum, heldur það, sem heldur sig vestan til í því — halda heildsalarnir, sem þar eru, að þeir þurfi að vera einhver forsjá fyrir þetta land, þannig að enginn maður megi kaupa vörur inn í landið, án þess að þær gangi þar í gegn? Er ekki ástæða til þess fyrir þessa menn, sem tala mikið um frjálsa verzlun, að lina á tökum þessara einokunarkrumla, sem læsa allt landið í sínum greipum? Og það er það, sem ég fer fram á í minni brtt., að Hafnarstrætis-klíkan geri. Ég held því, að hæstv. viðskmrh. ætti að taka hér undir þessa brtt. Verkalýðurinn í Reykjavík vill hlynna að því, að fólk úti á landi, sem sérstaklega vill nóta sér þetta, geti fengið þetta frelsi. Hann langar ekkert til þess, að hvert byggðarlagið eftir annað flosni upp, þannig að fólk, sem þar býr, verði að flytja á mölina hér í Reykjavik. Atvinnuleysi úti um allt land er svo gífurlegt nú, að fyrst það á engar ráðstafanir að gera af hálfu þess opinbera til þess að bæta þar úr, t.d. með því að stofna til atvinnu eða annars slíks, þá er ekki til of mikils mælzt, að þessir menn fái ofurlítið frelsi til þess að bjarga sér sjálfir. Þessir menn gætu sjálfsagt farið á hausinn, einhverjir þeirra, þó að þeir reyndu þessa leið. En það á ekki að banna þeim að reyna að bjarga sér á þann hátt, sem um er að ræða í minni brtt. Og ég hefði satt að segja búizt við því, að Sjálfstfl., með öllu hans tali um frjálsa verzlun, hefði verið með slíkri till. — Sannleikurinn er, að það er viss hópur ríkra manna hér í Reykjavík, sem gerir samkomulag við vissan hóp manna í Framsfl. um að halda áfram þessu verzlunarófrelsi, vegna þess að það er til gróða fyrir tíu til tuttugu menn hér í Reykjavík. Og það er bezt, ef Sjálfstfl. tekur nú þá afstöðu um þessa brtt. að drepa hana, að það gerist hér alveg ljóst, að alþýðan á Íslandi kemur til með að verða að taka upp baráttu á móti einokun hér heima.

Byrðarnar af gengislækkuninni munu lenda þannig á launþegastétt landsins, að hún mun þurfa að bera 100 millj. kr., sem þeirri stétt væri gert að minnka sínar tekjur um, frá því sem hún hefur nú. Er það um einn sjötti partur af því, sem ég gizka á að séu tekjur launþegastéttarinnar í landinu. Það þýðir, miðað við kaup launamanns, sem vinnur árið um kring, 4 þús. kr. af hans launum, sem hans launakjör rýrna með þessu. Og ég hef áður sýnt fram á, að þær fórnir, sem af auðmannastéttinni væru heimtaðar með þessum skatti, sem kallaður er stóreignaskattur hér, þær eru alveg hverfandi, borið saman við það, sem heimtað er af launþegastéttinni. Niðurstaðan af þeim samanburði varð sú, að auðmannastéttin, þeir 200 ríkustu hér í Reykjavík, mundi þurfa að borga 40 millj. kr. í stóreignaskatt, sem með því að skipta honum á 20 ár mundi þýða 2 millj. kr. skatt á ári. 2 millj. kr. í skatti af hreinum venjulegum tekjum 200 ríkustu einstaklinganna og félaganna í Reykjavík er hægt að taka, án þess að þá aðila muni verulega um það. Þetta er kallað eignarskattur hér. En allur gróði þessara aðila er verndaður. Eignir þeirra skerðast heldur ekkert sem heitir, þó að þessir aðilar verði að borga svona skatt á 20 árum. Auðmannastéttin í Reykjavík heldur sem sagt öllum sínum tekjum og auði, en launþegum er gert að tapa um 100 millj. kr. á ári. — Og svo á það að vera of mikið frelsi fyrir fólkið úti á landi, að menn fái að selja út fisk, sem þeir framleiða, og kaupa fyrir hann nauðsynjar sér til handa, selja freðfisk og saltfisk og kaupa timbur og sement án þess að skrifa til Reykjavíkur og spyrja Magnús Jónsson og fá svar frá skriffinnskuvaldinu hér um það, hvort þeir megi byggja yfir sig íbúðir eins og verkamannabústaði. Ég vil aðeins vara þá yfirstétt, sem stendur að samningu frv. eins og þessa, við því að hreykja sér of hátt í þessum efnum. Það er alveg óhætt fyrir auðmannastéttina hér í Reykjavík að slaka á sinni einokun á Íslendingum. Það er praktískt fyrir eina yfirstétt að sjá til þess í tíma að slaka á, heldur en að bíða þangað til fólkið þolir ekki við lengur. Atvinnuleysi er að vaxa um allt land. Það er ekki ástæða til að banna fjárfestingu í bráðnauðsynleg fyrirtæki. Það er að verða erfitt fyrir Íslendinga að útvega sér markaði, en það er ekki ástæða til að banna mönnum að finna þá. Það er skortur á nauðþurftum hér á landi. En það er ekki ástæða til að banna mönnum að flytja þær inn. — Það kemur nú úr hörðustu átt, að ég skuli þurfa að þylja yfir þessum herrum frumstæðustu kenningar um frjálsa verzlun, þegar þeir eru búnir að leggja fyrir hæstv. Alþ. heila, þykka bók um fjárhagsmálin. En það sýnir sig, að þeir trúa ekki því sjálfir, að því er virðist, sem fram kemur þar, eða þeir þora ekki að láta það koma undir próf reynslunnar, enda er það svo um hvert einasta orð, sem þar er sagt, ef það snertir hagsmuni auðfélaga eða slíkt, þá er hlaupið frá því. Á bls. 42 stendur um verðið á fiskinum til hraðfrystihúsanna, með leyfi hæstv. forseta: „Verð það, sem þeir mundu fá með þessari gengislækkun, mun vera kringum 93 aurar, miðað við 10 d. pundið af freðfiskinum.“ Og gengið er út frá því, að það sé alveg nauðsynlegt, að bátaútvegsmenn fái það fyrir fiskinn. Ég legg fram till. um, að ákveðið sé þetta 93 aura verð fyrir fiskinn. Hv. 3. landsk. þm. gerði fyrirspurn til hæstv. viðskmrh. í þessu sambandi. En hæstv. ráðh. svaraði því, að ríkisstj. hefði ekki verið með neinar fullyrðingar um þetta. En það er bara þannig, að undirstaðan í þessu plaggi ríkisstj. eru þessir 93 aurar. Hæstv. ráðh. segir, að reynslan verði að skera úr um þetta. En hvað segir reynslan? Hvað sýnir reynsla frystihúsanna? Það, að ekki verði borgað meira en um 75 aurar fyrir fiskinn, ef ekkert verður að gert. En ríkisstj. þegir yfir því. En ef hagfræðingunum, sem sömdu þetta plagg, einhvers staðar datt í hug, að einhvers staðar yrði að leggja eitthvað ofurlítið á eitthvert auðfélag, hvað er þá gert? — Á bls. 62 í hagfræðingaálitinu stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Af svipuðum orsökum teljum við, að sérstök skattfríðindi megi ekki koma til greina í sambandi við þennan skatt, t.d. undanþága fyrir Eimskipafélag Íslands.“ En við hvað er nú öll 12. gr. miðuð? Hún er miðuð við það m.a. að gera Eimskipafélag Íslands, ríkasta félagið í landinu, skattfrjálst. Svona er farið að viðvíkjandi þessu hagfræðingaáliti, sem á að vera svona afskaplega óvefengjanlegt. Það er hlaupið frá því í nær öllum atriðum. Og svo er sagt, að reynslan verði bara að skera úr um þetta.

Ég hef ekki ætlað mér að tefja málið með umr. um það. og hef ekki rætt hér mikið við þessa umr. En ég hefði satt að segja vonazt til þess, að þessar brtt., sem ég flyt þarna, ættu að geta fengið sæmilegar undirtektir. Ég held, að það væri betra, að hæstv. ríkisstj. tæki tillit til þessara brtt. nú, heldur en að þurfa að koma innan eins mánaðar aftur til þingsins og biðja það að samþ. ráðstafanir, sem greiði úr í þessum efnum, vegna þess að þessar ráðstafanir, sem hér á nú að samþ. fyrir bátaútveginn, hafi allar reynzt meira og minna vitlausar og skaðlegar og rangar.