17.03.1950
Neðri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Áður en þetta merkilega og viðkvæma mál fer út úr þessari hv. d., vildi ég láta falla nokkur orð. Ég vil aðeins segja það um brtt. hv. meiri hl. fjhn. á þskj. 448, að mér dettur í hug hið fornkveðna: Fjallið tók jóðsótt og það fæddist mús. Ég hafði satt að segja búizt við því, að þegar stjórnarfl., eftir þá gagnrýni, sem fram hafði komið hér í hv. d., færu að athuga málið nánar, þá kæmust þeir að einhverri annarri og merkilegri niðurstöðu, en kemur í ljós í brtt. á þskj. 448. Ég vil t.d. segja það um 1. tölul. brtt., varðandi lánin til byggingarsjóða, að þar er ekki verið að rétta hlut kaupstaða og kauptúna, heldur er verið að klípa í sundur þá hungurlús af láni, sem á að veita til bygginga í kaupstöðum og kauptúnum, á milli byggingarsjóða verkamanna og til bygginga sveitarfélaga. Ég tel mikils um vert að styðja byggingar sveitarfélaga til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum. En nú, þegar fjárskortur er og sízt er í ríkum mæli varið fé til bygginga hagkvæmra íbúða í kaupstöðum og kauptúnum, verð ég að segja, að þessu fé hefði verið betur varið til byggingarsjóða verkamanna, a.m.k. að fenginni þeirri reynslu, sem Reykvíkingar þekkja til. Annars vegar hafa verið byggðir verkamannabústaðir, sem hafa reynzt ódýrustu og hentugustu íbúðirnar fyrir alþýðu, og hins vegar hafa verið byggðar bæjarbyggingar, vandaðar og góðar, en dýrar úr hófi fram. Ég held því, að sízt sé til bóta sú breyt., sem þar er gerð.

En það, sem ég vildi hér að lokum segja, áður en mál þetta er afgr., og ég skal endurtaka það, að ég hafði búizt við öllu merkilegri og meiri brtt. frá meiri hl. fjhn., en sú hefur því miður ekki orðið raunin á. Það eina, sem kynni að bjarga þessu máli, svo að ekki væri stefnt til ófarnaðar, væri að samþ. a.m.k. 1. og 3. brtt. á þskj. 444. Í fullkominni einlægni aðvara ég hæstv. ríkisstj. Ég aðvara hana um það að beita ekki þröngsýni og allt að því ofbeldi með hinum mikla meiri hluta, sem hún hefur hér á þingi, og espa upp gegn sér verkalýðssamtökin í landinu. Þessir tveir flokkar hafa einu sinni áður tekið höndum saman, og árangurinn af því samstarfi voru gerðardómslögin frægu í ársbyrjun 1942. Ég aðvara nú hæstv. ríkisstj. um það að leggja nú ekki inn á sömu skammsýnis- og óheillabrautina eins og gert var í ársbyrjun 1942 gegn íslenzkum verkalýð. Íslenzk verkalýðssamtök langar sízt af öllu til að skapa glundroða í íslenzku, atvinnulífi. En þau hafa sinn skilning og sínar réttlætisóskir fram að bera. Og ef það virðist, að slegið sé, við skulum segja, á útrétta hönd þeirra og ekki gert neitt til að verða við réttlætisóskum þeirra, má vel búast við, því miður, að fari öðruvísi en ætti að fara í þessu málefni. Ég verð að segja það, að ef 2. gr. frv. stendur óhögguð að öðru leyti en þessi ómerkilega brtt. verði samþ., sem gerð hefur verið og flutt er á þskj. 448, þá horfir málið til hreinna óheilla. Og ef það verður t.d. látið standa áfram í niðurlagi 7. gr., að skilyrði til launahækkunar samkvæmt þessari gr. sé, að launagreiðslur hækki ekki af öðrum ástæðum, en lög þessi mæla, frá því sem þær voru 31. jan. 1950 o.s.frv., þá vita það allir, sem til þekkja, að úti um land er það þannig, að þar eru verkalýðsfélög, sem hafa orðið aftur úr og hafa tiltölulega lægri laun, en flestir aðrir, og ef þau, vegna þess að þau freistuðu. þess að rétta hlut sinn, fá þennan refsivönd yfir sig, sem reiddur er til höggs í 7. gr., þá horfir ekki vel. Ég endurtek því það, að ég aðvara hæstv. ríkisstj. að beita af skynsemd sínum mikla meiri hluta hér á þingi og taka með gætni á viðkvæmum málefnum, en það er ekki gert í þessu máli.