17.03.1950
Neðri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Við skulum fyrst athuga, hver eru aðalatriði þessa frv. Þau eru að því er mér virðist þessi:

1. Gengið skal lækka um 42,6%, þ.e. innkaupsverð erlendrar vöru skal þar með hækka um 74,3%. Hagfræðingar ríkisstj. fyrrverandi og væntanlega þessarar líka, sem nú situr, halda því fram, að þetta hafi í för með sér 11–13% verðhækkun, og þó að þetta væri rétt, sem hagfræðingarnir halda fram, þá er það engin smávegis kjararýrnun fyrir lágtekju menn. Fyrir Dagsbrúnarverkamann þýðir 13% hækkun á verðlagi almenna kauplækkun, sem nemur kr. 1,06 um tímann, eða um kr. 8,50 á dag. En þessi útreikningur er í hæsta máta tortryggilegur, yfirborðslegur og fljótfærnislegur. Hagfræðingur Landsbankans, Klemenz Tryggvason, sem er miklu kunnugri íslenzkum efnahagsmálum, en þessir menn (Benjamín Eiríksson og Ólafur Björnsson), og þar að auki samvizkusamur, telur, að hækkunin geti orðið 15–18% og sennilega meiri, allt að 20%. Þegar við bætist verðhækkun sú, sem orðið hefur og verða mun vegna gengisfellingar dollarans í haust, þá held ég að það sé mjög varlega í sakirnar farið að áætla kjararýrnunina a.m.k. 20% eða 1/5. Það jafngildir kr. 1,85 kauplækkun um tímann fyrir Dagsbrúnarverkamann, eða kr. 14,80 á dag. Það hefur verið bent á það áður hér í þessari hv. d., að ef Dagsbrúnarverkamaður hefði fimm manns í heimili og vinnu allt árið, þá kemur minni upphæð á hvern einstakling, sem hann hefur á framfæri núna, en sem svarar fullum lífeyri til gamalmenna og öryrkja. Það heldur víst enginn því fram, að menn séu of sælir með 1.200 kr. lífeyri í grunn á ári, eins og öryrkjar og gamalmenni hafa eftir tryggingal., ef þeir hafa fullan lífeyrir, ekki sízt, ef verðlag hefur verið hækkað sem nemur 1/5. Hvað segja menn þá um afkomu Dagsbrúnarverkamanns, þegar búið er að lækka kaup hans um allt að 20%? Er það rétt, að íslenzka þjóðin sé svo illa á vegi stödd, að hún verði að búa þegnum sínum, sem vinna að framleiðslu verðmætanna, slík smánarkjör? Ég kem að því seinna að athuga það.

Sparifé rýrnar að sama skapi, þ.e.a.s. það rýrnar um 42,6% gagnvart erlendum gjaldeyri og um allt að 20% að því er snertir kaupmáttinn innanlands. Þetta er svo bætt upp aðeins með litlu broti af verðmætisrýrnuninni, — af sparifé, sem myndazt hefur fyrir 1941 og ekki hefur verið tekið út síðan, en það sparifé, sem síðan hefur myndazt, er ekki bætt. Sparifjármyndunin frá því fyrir 1941 er svo lítil, að ekki skiptir máli fyrir allan almenning.

2. Í orði kveðnu er gert ráð fyrir nokkrum kaupuppbótum til launþega til miðs ársins 1951, þó aðeins á 6 mánaða fresti eftir 1. júli 1950, en minni verðhækkun, en 5% ekki tekin til greina. Enn er fundin upp ný fölsun á vísitölunni til þess að gera þessar uppbætur að engu eða þá svo smáar, að ekki munar um þær að neinu ráði. Inn í vísitöluna á nú að taka hæstu húsaleigu, eða húsaleigu í húsum, sem byggð eru eftir 1945, og enn fremur verð á kjöti án frádráttar á kjötstyrk, sem bendir til þess, að í ráði muni vera að afnema hann. Þannig er vísitalan komin nokkuð hátt á fimmta hundrað stig, þegar hún er þannig „leiðrétt“. En þetta eiga launþegar að fá í engu bætt, heldur á núgildandi kaup, sem er miðað við vísitöluna 300, að heita grunnkaup eftirleiðis, og eftir að búið er að ræna launþega þeirri kauphækkun, sem þeim ber vegna hækkandi húsaleigu undanfarin ár, þá á loks að taka það inn í vísitöluna, ekki til þess að launþegar njóti þess, sem hún hefur hækkað, heldur öfugt. Með þessu vinnst það, að hækkun á erlendri vöru vegur minna en ella. Hreyfing verðlagsins er enn á ný fölsuð með tilfæringum á vísitölunni, ekkert er svo auðveldara en að svipta launþega þessari uppbót með öllu með því að halda áfram hinni gamalreyndu aðferð að falsa vísitöluna með niðurgreiðslum, sem koma allt öðruvísi út í vísitöluútreikningnum, en í hinum raunverulega framfærslukostnaði. Þegar þar að kemur, að launauppbætur verða aðeins greiddar á 6 mánaða fresti, þá þarf svona kerfi ekki að hafa mikinn kostnað í för með sér.

Við þetta bætist svo, að ef eitthvert verkalýðsfélag hækkar grunnkaup sitt, þótt ekki sé nema um nokkra aura, þá fyrirgerir það rétti sínum til þessara launauppbóta.

Í frv. er einnig ákveðið, að ef eitthvert verkalýðsfélag hækkar kaup sitt, a.m.k. ef um nokkra almenna kauphækkun er að ræða, þá skuli kauphækkanir jafnharðan gerðar að engu með nýrri gengislækkun, sem ríkisstj. er heimilað að framkvæma í samráði við Landsbankann, án þess að samþykki Alþ. komi til.

M.ö.o., gengisskráningin er tekin úr höndum Alþ. og afhent ríkisstj. og Landsbankanum. Þetta er náttúrlega engin smáræðis breyt., þetta er stórviðburður og alger nýjung í íslenzkri löggjöf og íslenzku efnahagslífi. Og ekki nóg með það, að þetta vald sé í höndum ríkisstj. og Landsbankans, heldur er beinlínis skylda að beita þessu valdi til að gera allar kauphækkanir að engu. M.ö.o., það er viðurkennt opinberlega, að það skuli beita ríkisvaldinu og Landsbankanum sem tæki í stéttabaráttunni gegn verkalýðnum. Þetta hefur að vísu verið gert undanfarin ár, en þetta er viðurkenning, sem ekki hefur komið fram áður, heldur þvert á móti allt tal um það, að ríkisvaldinu væri beitt þannig í stéttabaráttunni, verið talinn rógur og óviðeigandi, en nú er það viðurkennt sem hlutverk ríkisvaldsins og Landsbankans.

3. Verðtollurinn er hækkaður mjög verulega, og veldur það verðhækkunum, sem bætast ofan á þær, sem verða af völdum gengisbreytingarinnar.

4. Ákvæði um eignarskatt, sem ekki skiptir máli um lausn vandamálsins, en á að sýnast sem lítils háttar tilburðir gagnvart þeim, sem mestan beinan gróða hafa af gengislækkun. Ákvæðunum um eignarskatt samkvæmt 12. gr. er þó svo haganlega fyrir komið, að mörgum stóreignamönnunum mun hægt um vík að sleppa við hann með öllu, enda er þess vandlega gætt að gera enga áætlun um skattinn. Það er ekki minnzt á það í grg., hverju skatturinn muni nema. Klemenz Tryggvason hagfræðingur hefur bent á, að jafnvel milljónarar geta komizt hjá að greiða eyri í skatt, samkv. frv. eins og það kom frá fyrrv. ríkisstj., ef þeir eiga nóga framtakssemi til þess að skipta eignum sínum á hlutafélög. Nafngiftirnar, sem hann valdi þessum skattafyrirmælum, voru „viðundur“ og „skrípalæti“.

Þessum ákvæðum var breytt nokkuð. Hundraðstala skattsins hefur verið hækkuð nokkuð á hæstu gjaldendum og nú skal hann lagður á einstaklinga, en ekki félög. Þetta virðist vera eina tilslökunin, sem Framsókn hefur fengið við stjórnarmyndunina. En það er aðeins sýndartilslökun, því að samtímis er eignaraukaskatturinn frá 1947 felldur niður fórnin mikla, sem eignamennirnir áttu þá að færa, þegar launþegarnir voru, rændir verðlagsuppbótinni af því, sem vísitalan fór fram úr 300 stigum. Og nú geta stóreignamennirnir sloppið við skattinn, eða gert hann að smámunum einum, ef eignirnar skiptast á nógu marga einstaklinga, t.d. ef fjölskyldan er nógu stór, þegar um fjölskylduhlutafélög er að ræða. Það er að öllu samanlögðu vafamál, hvort meira fé fæst inn með þessum nýju ákvæðum, en hinum fyrri.

Nú er spurningin: Hvaða vandamál eru það í íslenzku atvinnulífi, sem þarf að leysa? Verða þau leyst með slíkum ráðstöfunum? Er nauðsynlegt að rýra svo stórkostlega afkomu þeirra, sem vinna og framleiða í landinu, til að leysa þau?

Vandamálin, sem þarf að leysa, eru þessi: Það er hallarekstur á allmiklum hluta útgerðarinnar og horfur á, að hún dragist mjög saman. Það þarf að tryggja rekstur hennar. Enn fremur: Það er gjaldeyrisskortur og þar af leiðandi vöruskortur í landinu og verðlag er mjög hátt, og fer hækkandi. Úr þessu þarf að bæta.

Til þess að hægt sé að finna lækningu, sem að gagni kemur við meinunum, þarf að finna orsakir þeirra. Hverjar eru þær?

Höfuðorsökin fyrir hallarekstri útgerðarinnar og vöruskortinum er hin sama: minnkandi markaðir. Hver er ástæðan fyrir því? Ástæðan er sú, að meginviðskipti Íslands eru við lönd, þar sem kreppa er í uppsiglingu og eru í sívaxandi mæli að verða sjálfum sér nóg að því er fiskveiðar snertir. Markaðsvandræðin eru ekki fyrst og fremst spurning um verð. Horfur eru á, að ekki verði hægt að selja neitt af frystum fiski til Englands og lítið eða ekkert til Vestur-Þýzkalands og sáralítið til annarra Marshalllanda. Það er talið af þeim, sem kunnugir eru, að alls getum við ekki gert okkur vonir um að selja meira en 15 þúsund tonn af frystum fiski í ár, eða rúml. helming eðlilegrar framleiðslu. Sölumöguleikarnir á ísfiski eru hinir ískyggilegustu. Um skeið hafa togararnir ekki komið með neinn gjaldeyri heim úr Englandsferðum. Undir slíkum kringumstæðum er bersýnilegt að gengislækkun kemur að engu haldi. Um sölu á saltfiski er allt í óvissu.

Höfuðvandamálið er því að afla nýrra markaða. Undir því er hagur útgerðarinnar kominn. En það verður ekki gert með gengislækkun.

Rekstrarkostnaður útflutningsatvinnuveganna er of hár og meginþátturinn í þessum háa rekstrarkostnaði er hin mikla dýrtíð í landinu. Hver er orsök hennar?

Hagfræðingar ríkisstj. hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að orsökin sé of háar tekjur hins vinnandi fólks í landinu bæði vegna of hás kaupgjalds og of mikillar fjárfestingar. Að þessari niðurstöðu hafa þeir komizt með eftirfarandi röksemdafærslu:

Fyrst ber okkur að meðtaka þann vísdóm, að heildarvöruverð þeirra vara, sem keyptar eru í landinu, er alltaf jafnhátt og þær tekjur, sem þær eru keyptar fyrir. M.ö.o.: ég hef tvær jafnar stærðir, og þær eru jafnar. Ef ég dreg einn frá einum, fæ ég núll. Hin almenna formúla „lögmálsins“ virðist vera X - X=O.

Út frá þessu „vísindalögmáli“, sem hagfræðingarnir hafa fundið af vísdómi sínum og speki, draga þeir mjög víðtækar ályktanir. Hin fyrsta er þessi: Það er alveg sama, hvort verkalaun eru há eða lág að krónutali. Útkoman verður sú, að það fæst jafnmikið fyrir þau. Það er ekki hægt að hækka hið raunverulega kaup verkalýðsins í heild. Ef einhver hópur launþega hækkar laun sín, þá er hann aðeins að taka það frá öðrum launþegum. Þetta er margendurtekið í áliti þeirra, sem fylgdi greinargerð frv. Á bls. 52 stendur: „Skyldi koma til almennra kauphækkana, þrátt fyrir þau rök, sem færð hafa verið í þessari greinargerð og víðar, sem sýna, að með almennum kauphækkunum eru launþegarnir fyrst og fremst að taka hver frá öðrum, þarf að vera búið svo um hnútana, að gengislækkunin komi samt að fullu gagni.“ Á bls. 55 stendur: „Launþegasamtökin geta ekki bætt afkomu allra launþega með almennum kauphækkunum, en þau geta bætt afkomu einstakra hópa launþeganna, á kostnað þeirra í heild sinni, þar með talið þeirra, sem vinna í útflutningsframleiðslunni.“ Og á bls. 57: „Kaupstreitan svokallaða er í rauninni innbyrðis barátta um skiptingu þjóðarteknanna milli launastéttanna, en hefur, þegar til lengdar lætur, lítil eða engin áhrif á skiptingu þjóðartekna milli launþega og atvinnurekenda, þótt svo kunni að virðast við fyrstu sýn“, o.s.frv. sama tuggan, með lítið eitt breyttu orðalagi. Að vísu er gert ráð fyrir, að ofurlítið af slíkum launahækkunum kunni að vera tekið af útflutningsframleiðslunni. En í rauninni aðeins í fyrstu umferð, því að það leiðir til aukins hallarekstrar og þar af leiðandi aukinnar verðþenslu og hækkaðs verðlags.

Undir forustu Ólafs Björnssonar prófessors hefur Bandalag starfsmanna ríkis og bæja krafizt allt að 36% launahækkunar fyrir starfsmenn hins opinbera og sættir sig ekki við minna en 20% hækkun. Samkvæmt kenningu hins sama prófessors er allt þetta fé tekið af öðrum launþegum og styrkþegum, munaðarleysingjum og ekkjum, og rennur drjúgur hluti þess til manna með 40–60 þús. kr. árstekjur. Hitt er svo annað mál, hvort starfsmönnum hins opinbera finnst líklegt, að aðrir launþegar hefðu mikinn áhuga fyrir að styðja þá í kjarabaráttunni, ef þeir tryðu þessu, og hvort þeim finnst vænlegt til samstarfs við önnur launþegasamtök að velja mann til forustu, sem heldur slíkum kenningum fram.

Önnur ályktun hagfræðinganna er þessi: Aukin fjárfesting leiðir aðeins til aukinnar verðþenslu. Það skapast fölsk kaupgeta og þar af leiðandi lækkun raunverulegra launa. Sama gildir um mikinn hluta þeirrar fjárfestingar, sem undanfarið hefur átt sér stað og talin er nema meiru en sparifjármyndun, afskriftum og óúthlutuðum arði.

Ráðið við hallarekstri og dýrtið er því ofur einfalt, samkvæmt kenningu hagfræðinganna: Lægri laun og minni fjárfesting. Þessu er hægt að ná bæði með verðhjöðnun, þ.e. beinni kauplækkun, og með gengislækkun samfara miklum niðurskurði verklegra framkvæmda. Hagfræðingarnir mæla með síðari leiðinni.

Nú er það alveg augljóst, að kenningin um óumbreytanleik launanna getur því aðeins verið rétt, að tvennum skilyrðum sé fullnægt. Í fyrsta lagi, að engin breyting á skiptingu þjóðarteknanna milli framleiðslustéttanna geti átt sér stað, enginn tilflutningur á tekjum til vinnandi stéttanna frá atvinnurekendum í verzlun og framleiðslu og öðrum þeim, sem ekki vinna þjóðfélagslega nytsama vinnu, sé mögulegur. Annaðhvort hlýtur því að vera, að verkamenn og bændur og annað vinnandi fólk fær í sinn hluta allan afrakstur framleiðslunnar, eða hlutur atvinnurekenda, heildsala o.s.frv. er föst og óumbreytanleg stærð, sem ekki verður raskað. Í öðru lagi, að engin aukning hinna raunverulegu þjóðartekna geti átt sér stað, engin aukning á verðmætum framleiðslunnar.

Til þess að ályktunin um fjárfestinguna geti staðizt, verður hvort tveggja að vera: Því fé, sem veitt er í fjárfestingu, er ekki skilað aftur í auknum verðmætum fyrir aukin afköst framleiðsluaflanna, og ekki eru til fjármunir í þjóðfélaginu til að leggja í fjárfestingu nema með aukinni seðlaútgáfu, sem rýrir verðgildi peninganna.

Kenningin um óumbreytanleik raunverulegs kaupgjalds á ekki aðeins við Ísland, heldur virðast þeir líta á það sem almennt lögmál. Þeir vitna m.a. í England og önnur nágrannalönd. „Verkamannastjórnir“ þessara landa eiga að hafa fundið það út af sinni óvefengjanlegu vizku og góðvild, að hækkað kaupgjald geri engum gagn, heldur aðeins tjón.

Á bls. 55 í áliti þeirra stendur:

„Með almennum kauphækkunum reyta launþegarnir fyrst og fremst hver af öðrum, og það, sem umfram er, er af útflutningsframleiðslunni tekið... Það, sem sagt hefur verið hér að framan um stefnu verkalýðsfélaganna í kaupgjaldsmálum, gildir um almenna kaupgjaldshækkun. Lagfæring á kaupi hjá einstökum hópum launþega er að sjálfsögðu annars eðlis, þar sem þá er um að ræða innbyrðis afstöðu milli hinna einstöku launþegahópa. En það er slík afkoma, sem verkalýðsfélögin geta í raun og veru ráðið, en ekki hinni almennu afkomu. Væri leið almennrar kauphækkunar fær til þess að bæta afkomuna, hefði mannkynið farið þá leið til Gósen fyrir löngu síðan.“ Því næst er þó viðurkennt, að aukin afköst framleiðslutækjanna og verðlag erlendis geti haft áhrif á afkomuna, en gengisbreyting breyti hvorugu.

Svo mörg eru þau orð. Það stendur svo sem ekki á, að atvinnurekendur séu allir af vilja gerðir til að hækka launin á sinn kostnað, eins og þeir mögulega geta. Það er heldur ekki verið að efast um, að nýting framleiðslutækjanna og allra möguleika tækninnar sé alfullkomin. Hver efast t.d. um, að þeim milljörðum, sem varið er til framleiðslu atómsprengna, vetnissprengna og annars slíks góðgætis, sé vel varið?

Í Englandi er talið að milljónir manna búi við næringarskort. Ef þessi staðreynd á að koma heim við kenninguna, vinnur brezka heimsveldið ekki fyrir mat sínum, ekki einu sinni fyrir brýnustu þörfum íbúa heimalandsins þrátt fyrir allan auðinn, sem streymir úr öðrum heimsálfum frá striti hinna mörgu millj. nýlenduþræla. Í brezka heimsveldinu er samkvæmt þessu enginn ónauðsynlegur gróði, allur afraksturinn rennur til hinna vinnandi stétta og skiptist í neyzlu og nauðsynlegt viðhald og aukningu framleiðslutækjanna, samkvæmt ákvörðun þeirra sjálfra.

Mikið var, að þeir vitnuðu ekki einnig í Ameríku. Þar eru nú allar vöruskemmur fullar og aðeins brot af framleiðslugetunni er þó nýtt til framleiðslu almenningsþarfa. Samt búa þar tugir milljóna við skort og 15 milljónir verkamanna eru ýmist atvinnulausir eða hafa ekki fulla atvinnu. Samkvæmt yfirlýsingu Trumans forseta býr sjöundi hver maður í borgum Bandaríkjanna við næringarskort. Samtímis er korninu brennt, kjötið eyðilagt og kartöflunum breytt í óæti. Það væri víssulega verkefni fyrir hagfræðingana að láta jöfnur sínar og „jafnvægislögmál“ skýra þessar staðreyndir. Bandaríkin eru þó hið klassíska land kapítalismans og hinnar „frjálsu samkeppni“ í skilningi hagfræðinganna.

Það væri líka verkefni fyrir hagfræðingana að skýra það út frá jöfnum sínum, hvernig á því stendur, að í Sovétríkjunum skuli raunverulega laun verkalýðsins í heild hafa hækkað þrisvar sinnum eftir stríð, hvernig stendur á því, að hægt skuli vera að hækka kaupmátt launa í Sovétríkjunum svo mjög, á sama tíma sem viðfangsefni allra auðvaldslanda er að lækka heildartekjur verkalýðsins.

Kenningin um, að verkamenn geti aldrei bætt kjör sín með almennum launahækkunum, heldur aðeins bakað sjálfum sér tjón, er ekki ný hér á landi. Það hefur verið eitt af meginverkefnum Morgunblaðsins undanfarna áratugi að sanna þessa kenningu. Í flestum meiri háttar kaupdeilum hafa sprenglærðir hagfræðingar verið fengnir til að útskýra þessi sannindi fyrir fáfróðum lýð. Hvernig hefur svo þessi vísdómur staðizt dóm reynslunnar? Í hagfræðilegri álitsgerð, sem sjálfur Ólafur Björnsson prófessor hefur samið ásamt öðrum hagfræðing, er sýnt fram á, að frá 1942–47 hefur kaupmáttur launanna farið síhækkandi vegna þeirra grunnkaupshækkana, sem orðið hafa á tímabilinu. 1947 voru hin raunverulegu laun orðin meira en 70% hærri en 1940. Væntanlega eiga Morgunblaðshagfræðingar eftir að fella marga slíka dóma yfir sjálfum sér.

Við skulum nú athuga, hvernig þessi hagspeki kemur heim við staðreyndirnar hér hjá okkur, eins og nú er ástatt. Árið 1948 höfðu þjóðartekjurnar meira en nífaldazt frá því 1938, en verkalaun Dagsbrúnarmanna höfðu tæplega sexfaldazt á sama tíma. Nú eru laun Dagsbrúnarverkamanna rúmlega 6,3 föld frá því fyrir stríð. Þetta hlutfall gefur mynd til samanburðar á því, hvernig þjóðartekjurnar skiptast, ef miðað er við jafnmargar vinnustundir. Það má benda á, að atvinna hafi verið minni 1938, þó að mjög halli nú undan fæti, og auk þess ber að taka tillit til fólksfjölgunar. En þar kemur á móti, að vinnutíminn var þá 10 stundir á dag í dagvinnu, en aðeins 8 stundir nú. Það lætur nærri, að þjóðartekjurnar á mann hafi a.m.k. áttfaldazt á tímabilinu, en dagkaup Dagsbrúnarverkamanna er nú rúmlega fimmfalt hærra en 1938. Raunveruleg laun eða kaupmáttur launa mun samkvæmt þeim útreikningi hagfræðinga, sem fyrir hendi er, hafa hækkað um ca. 40% á sama tíma. Hins vegar hefur verðmæti útflutningsframleiðslunnar hækkað um nálega 100%. Skattskýrslurnar gefa nokkra hugmynd um tekjuskiptinguna, en þó mjög ónákvæma, þar sem mikill hluti af tekjum stórgróðamanna er ekki talinn til skatts. 1946 gáfu 200 framteljendur í Reykjavík upp 103 milljónir í eignum. Það mun jafngilda að minnsta kosti 600 milljónum á gangverði.

Hvað sannar þetta? Það sannar, að hlutdeild verkalýðsins í þjóðartekjunum er mun minni en fyrir stríð. Það sannar, að með óbreyttum þjóðartekjum er hægt að hækka stórum raunveruleg vinnulaun á kostnað þeirra, sem vinna ekki eða miður þjóðfélagslega nytsama vinnu. Það sannar, að það er hægt að halda núverandi kaupgjaldi, þótt þjóðartekjurnar minnki mjög verulega vegna lækkaðs verðlags á útflutningsafurðum. Það geta orðið allmiklar breytingar verkalýðnum í hag á tekjuskiptingunni milli stéttanna, áður en komið er að því marki, að hlutföllin verði hin sömu og fyrir stríð. Það er hægt að verja miklu fé í fjárfestingu án skuldasöfnunar og án nýrrar seðlaútgáfu og án þess að heildartekjur verkalýðsins eða kaupmátturinn þurfi að lækka. Það sannar, að „umframtekjurnar“ í krónutali eru ekki hjá verkalýðnum, heldur hjá öðrum. Það hefði verið verkefni hagfræðinga, sem vildu, leiða sannleikann í ljós, að rannsaka, hvar þessar „umframtekjur“ eru niður komnar, og það hefði varla þurft að leita lengi. Þær eru fyrst og fremst hjá þeim, sem hafa umráð yfir gjaldeyri og einokunaraðstöðu í innflutningsverzluninni, og hjá þeim fyrirtækjum, sem þróast í skjóli þessarar einokunar.

Öll röksemdafærsla hagfræðinganna, er þeir halda fram þeirri firru, að gengislækkunin hafi enga kjararýrnun í för með sér, byggist á þeirri fölsku forsendu, að hægt sé að gefa innflutningsverzlunina frjálsa, ef gengið er lækkað. Vitaskuld er það fjarstæða að tala um „frjálsa verzlun“ á tímum einokunarauðvaldsins, þótt höftin væru afnumin. 1934 var verzlunin „frjáls“ í skilningi hagfræðinganna. Samt var vöruskortur, og rannsókn leiddi í ljós, að á sama tíma sem tap sjávarútvegsins var 2 milljónir, var verzlunargróðinn 5 milljónir. Það bætir vitanlega ekki úr neinum vöruskorti út af fyrir sig, þótt höftin séu afnumin. Með óbreyttri gjaldeyrisupphæð til ráðstöfunar er hægt að kaupa nákvæmlega jafnmikið af erlendum vörum eftir sem áður. Í stað haftanna kæmu þá önnur takmörk, takmörk kaupgetunnar. Og það er einmitt þessi takmörkun, takmörkun, sem byggist á rýrnuðum lífskjörum, „jafnvægi“ fátæktarinnar, sem hagfræðingarnir mæla með. Fullyrðingu þeirra um, að gjaldeyristekjurnar muni aukast vegna aukinnar útflutningsframleiðslu, er auðvelt að afsanna. Í fyrsta lagi fer afurðaverðið lækkandi og markaðirnir þrengjast. Þeir láta sem þeir viti það ekki. — Í öðru lagi er aðstaða bátaútvegsins mun verri, eftir að gengislækkunarlögin ganga í gildi og hin nýja skipan komin á. Hagfræðingarnir halda því fram, að verðið á nýja fiskinum verði 93 aurar fyrir kg. En frystihúsin fullyrða, að þau geti í hæsta lagi greitt 75 aura, eða sama verð og áður. Áður fengu útgerðarmenn sem svarar 85 aurum fyrir kg af nýjum fiski, þegar beini styrkurinn er reiknaður með. Þar við bættust „hrognapeningarnir“, sem nú falla niður. M.ö.o., eftir að „bjargráðið“ kemur til framkvæmda fá útgerðarmenn miklu lægra verð fyrir fiskinn, samtímis því sem allur tilkostnaður hækkar um rúmlega 74%. Kvótaverzlunin lækkar, og verð á fiskinum verður óvissara, þar sem ekkert ábyrgðarverð verður lengur, og við slíkar aðstæður mun þykja ærið áhættusamt að gera bátana út, og erfitt að fá menn á þá, nema um mikið og almennt atvinnuleysi verði að ræða. Það eru litlar líkur til, að hægt verði að gera báta á Norðurlandi, Austurlandi og Vesturlandi út á sumarvertíð. Og ef ekki er markaður fyrir meira en 15 þús. tonn af hraðfrystum fiski, þá verður útgerð þeirra báta, sem veiða fyrir hraðfrystihúsin, stöðvuð, þegar þeir hafa veitt það magn. Ef togararnir verða að fara á saltfiskveiðar, þá er hæpið, að mikill markaður verði afgangs fyrir bátaflotann í þeirri framleiðslugrein.

Rök hafa verið færð fram af hagfræðingum fyrir því, að til þess að hægt verði að afnema höftin, þá verði gjaldeyrisframleiðslan að nema 700–800 millj. kr., miðað við breytt gengi og svipaðar þjóðartekjur, en fáir munu vera svo bjartsýnir, að þeir reikni með, að þær nemi nema ca. 500 millj. kr. Það er því alveg augljóst, að með sömu stefnu í utanríkisverzluninni verður stórkostlegur samdráttur í sjávarútveginum, eftir að bjargráðið er gengið í gildi. Það ætti engum að koma á óvart, þó að næsta haust sæjum við fram á hrun og öngþveiti miklu geigvænlegra, en þá örðugleika, sem við eigum nú við að etja. Og er rétt að vara hæstv. atvmrh. við því, sem hann varar aðra við. Við tölum aftur saman næsta vetur og sjáum þá hvað setur.

Gjaldeyrisöflunin mun því dragast saman. Það þýðir meiri vöruskort, meiri eftirspurn í hlutfalli við framboð, jafnvel þótt við gerum ráð fyrir mikilli tekjurýrnun almennings. Fyrirheitið um afnám haftanna, sem öll bygging hagfræðinganna hvílir á, er því fjarstæða. Verzlunin verður ekki gefin „frjáls“, heldur mun verða hert á einokunarhöftunum, enda er ekki hróflað við verzlunarfyrirkomulaginu í lögunum. Fyrirheitið um „frjálsa verzlun“ í grg. er því vísvitandi blekking. Annar flokkurinn í ríkisstj., Framsfl., hefur líka staðfest þetta og lagt ríka áherzlu á, að allt tal um frjálsa verzlun væri firra. Hv. 1. þm. S-M. (EystJ) sagði við 1. umr. í Nd., að það væri sama og að stinga höfðinu í sandinn að detta í hug frjáls verzlun.

Hæstv. fyrrv. ríkisstj. undir forsæti Stefáns Jóh. Stefánssonar hóf feril sinn með því að lækka laun verkalýðsins með þvingunarlögum frá Alþingi. Hún fullyrti, að þetta væri gert til að bæta hag verkalýðsstéttarinnar og mundi koma fram í bættum kjörum, þegar fram liðu stundir. Þetta var stutt með hagfræðilegum rökum, sem borin voru fram af ekki minna steigurlæti en nú. Síðan gerði hún Ísland að aðila í Marshallsamningnum og lofaði, að árangur þess skyldi verða öryggi og velmegun, gull og grænir skógar. Hún lofaði atvinnu handa öllum, niðurfærslu dýrtíðarinnar, stórstigum atvinnuframkvæmdum og nýsköpun. Nú höfum við séð efndirnar. Nú koma þessir herrar til okkar og segja, að ekkert sé fram undan nema hrun og ríkisgjaldþrot, nema stórkostlegar byrðar séu lagðar á vinnandi fólk í landinu. Og á ný fara þeir fram á margfalt stórkostlegri kjaraskerðingu, líka í þeim tilgangi að bæta hag þessa sama fólks, sem á að taka á sig byrðarnar. Enn lofa þeir öryggi og velmegun. Á sama tíma lýsa þeir því yfir í grg., að bjargráðið frá 1947 hafi aðeins leitt til ófarnaðar, hafi verið eintóm hringavitleysa, hafi verið byggt á röngum forsendum, einmitt frá sjónarmiði hagfræðinnar. Og nú ætlast þeir til þess, að við tökum þessa sömu „hagfræði“ fyrir góða og gilda vöru. Við horfum nú ekki aðeins upp á efnahagslegt gjaldþrot, heldur líka andlegt gjaldþrot þeirra manna, sem hafa leitt okkur út í ófæruna. Þeir eiga ekkert annað eftir, en steigurlætið.

Höfuðvandamálin, sem þarf að leysa, eru þessi: Það þarf að afla nýrra markaða. Það þarf að draga úr framleiðslukostnaði útgerðarinnar. Það þarf að efla útflutningsframleiðsluna og auka gjaldeyristekjurnar. Það þarf að stefna að því að koma upp stórvirkum framleiðslutækjum í nýjum framleiðslugreinum, til þess að firra þjóðina öryggisleysi hinnar einhæfu framleiðslu. Það þarf að breyta verzlunarfyrirkomulaginu til þess að lækka vöruverðið og hagnýta verzlunargróða til almenningsþarfa.

Ég hef nú sýnt fram á, að „bjargráð“ ríkisstj. og hagfræðinga hennar leysir ekkert af þessum vandamálum, heldur gerir illt verra og torveldar lausn þeirra. Það útvegar enga nýja markaði. Það eykur framleiðslukostnað útgerðarinnar og gerir hag bátaútgerðarinnar verri. Það eykur ekki útflutningsframleiðsluna, heldur dregur úr henni. Það leiðir ekki til vaxandi, heldur minnkandi gjaldeyrisöflunar. Það leiðir ekki til aukinnar tækniþróunar og framfara í atvinnulífinu, heldur stöðvunar tækniþróunar og nýsköpunar. Hin stórkostlega verðhækkun á erlendum framleiðsluvörum hlýtur að gera landsmönnum illkleift að afla þeirra. Hagur bænda mun versna mjög vegna hinnar miklu verðhækkunar á erlendum vörum og endir bundinn á þær framfarir, sem undanfarið hafa orðið í landbúnaðinum. Vöruskorturinn mun aukast vegna minnkandi gjaldeyrisframleiðslu. Það verður hert á höftunum og verzlunarástandið mun enn versna.

Í stuttu máli: Árangurinn af „bjargráðunum“ verður sá einn að rýra stórkostlega kjör hinna vinnandi stétta til þóknunar auðmannastéttinni, jafnframt því sem öll efnahagsleg vandamál eru sett í enn meiri hnút.

Sósfl. hefur bent á, hvernig leysa megi þessi vandamál á kostnað auðmannastéttarinnar, en þó fyrst og fremst á kostnað þeirrar helstefnu, sem fulltrúar auðmannastéttarinnar reka. Það verður ekki gert með einu „pennastríki“ eða einum „bjargráðalögum“ frá Alþingi, heldur með algerri stefnubreytingu, margháttuðum ráðstöfunum og þrautseigu starfi.

1. Flokkurinn hefur sýnt fram á, hvernig afla má nýrra markaða. Til þess þarf að gera tvennt: breyta algerlega um stefnu í utanríkismálum og utanríkisviðskiptum og framleiða miklu fjölbreyttari og markaðshæfari vörur úr afurðum sjávarútvegsins. Til þess þarf áframhald nýsköpunarinnar. Norðmenn hafa selt allar sínar sjávarafurðir og segjast geta selt meira. Ástæðan er bæði sú, að þeir verzla við sósíalistísku löndin og framleiða fjölbreyttari vöru. Þeir munu heldur ekki hafa skrifstofubákn, sem bannar mönnum svo gersamlega allar bjargir til að koma vörum sínum í verð eins og við eigum að búa við hér.

2. Flokkurinn hefur sýnt fram á, hvernig má stórlækka rekstrarkostnað útgerðarinnar og lækka vöruverð í landinu. Það er hægt að gera með því að gerbreyta verzlunarfyrirkomulaginu, þjóðnýta verzlunargróðann og annan gróða, sem skapast í skjóli verzlunareinokunarinnar, með því að lækka tolla og afla ríkinu meiri tekna með sköttum á stóreignamönnunum, auk beinnar fjáröflunar með ríkisrekstri, með því að spara útgjöld til hins hóflausa skrifstofubákns hins opinbera, með því að lækka vexti, sem er auðvelt, þegar þess er gætt, að gróði bankanna er um 30 millj. kr. á ári, og með lækkun vátryggingargjalda. Það er einnig hægt að lækka mjög rekstrarkostnað með aukinni tækni, betri og hagkvæmari skipulagningu og minni sóun verðmæta. Að því verður umfram allt að beina athyglinni, þegar einhver framleiðslugrein ber sig ekki.

3. Flokkurinn hefur sýnt fram á nauðsyn þess að beina athyglinni að því verkefni að koma upp nýjum atvinnugreinum með stórvirkum framleiðslutækjum á grundvelli þeirra náttúruauðæfa, sem landið býr yfir, og stefna þannig markvisst að því að losa okkur við það öryggisleysi, sem fylgir einhæfri framleiðslu. Það hefur verið sýnt fram á, að það er engan veginn óleysanlegt verkefni, heldur ekki hin fjárhagslega hlið.

Okkur ríður á að auka tækniþróunina, í stað þess að stöðva hana samkvæmt kenningum ,,hagfræðinganna“. Það er leiðin til að auka afköstin og bæta kjör almennings, í stað þess að rýra þau. Og það er sannanlegt mál, að slík tækniþróun er framkvæmanleg með viturlegri stjórn atvinnulífsins.

Til þess að framkvæma þessa stefnuskrá þarf vald. Til þess þarf Sósfl. að fá fulltingi fólksins. Það er eitt sannleikskorn í áliti hagfræðinganna. Það er ekki nóg fyrir verkalýðsfélögin að hækka kaupgjaldið að krónutali. Það þarf að koma í veg fyrir, að kjarabæturnar séu að engu gerðar.

Til þess að tryggja það, sem ávinnst, og skapa atvinnuöryggi þarf hið vinnandi fólk að fá hið pólitíska vald í hendur. Forsenda þess er skilningur og þar með ónæmi gegn blekkingum, jafnvel þótt þær séu klæddar í hagfræðilegan búning.