17.03.1950
Efri deild: 75. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt við þessa 1. umr. að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa stóra máls og benda á nokkur atriði í frv., eins og það hefur verið afgr. frá hv. Nd. Þó að ég viti, að samið hefur verið um framgang málsins milli stuðningsmanna ríkisstj., þá er það kunnugt, að ekki mun verða bægt frá neinni till., sem miðar að því að bæta frv. og tryggja framgang höfuðtilgangs þess. Mér þykir því vænt um, að hæstv. forseti, sem er form. hv. fjhn., hlusti á mál mitt, því að mér þykir rétt að lýsa afstöðu minni til málsins og koma fram með till. mínar, sem eru ekki nema munnlegar ábendingar, áður en málið fer til hv. fjhn.

En áður en ég fer nú að ræða þessar till., vil ég gera ofurlitla grein fyrir afstöðu minni til málsins í heild. Ég fagna því, að meiri hluti alþingismanna skuli nú loksins hafa haft kjark í sér til þess að skipa sér um nauðsyn þess að viðurkenna fall íslenzku krónunnar. Þegar fyrst var tekið í lög ákvæði um ríkisábyrgð á fiski bátaútvegsins, benti ég mönnum á það með skýrum rökum, hve hættuleg braut það væri að fara út á, að taka ábyrgð á útflutningsafurðum, og að sá víxill, sem ríkið væri með því að skrifa upp á, yrði ekki greiddur nema með gengislækkun. Ég hef síðan stöðugt bent á þetta, í hvert sinn sem l. hafa verið framlengd og einnig í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Nú er hins vegar svo komið, að meiri hl. alþingismanna hefur fallizt á aðvörun mína, og er það að vísu gleðiefni fyrir mig, en hitt er rétt, að mikið tjón hefur orðið af því að viðurkenna ekki þessar staðreyndir fyrr, en betra er seint en aldrei. Gengisbreytingin er nú orðið atriði, sem þm. geta ekki lengur deilt um, því að gengisfall er í raun og veru komið á. Það má segja, að gengisfelling hafi orðið, þegar ákveðið var tvöfalt gengi, annars vegar með því að selja hluta af innfluttum vörum með hærra gengi og hins vegar með því að skattleggja ferðalög. Með því má segja að viðurkennd hafi verið gengisbreyting. Það er því ekki aðalatriðið núna, að gengislækkun sé viðurkennd almennt, heldur það, að samfara því séu, gerðar þær hliðarráðstafanir, sem mest veltur á, og að gengið verði svo frá frv., að það fái fylgi þjóðarinnar, því að það er einmitt það, sem allt veltur á, að hægt sé að skapa fylgi þjóðarinnar um þetta frv., eins og hæstv. atvmrh. var að biðja um í dag. En ef beðið er um fylgi þjóðarinnar, þá eiga alþm. heimtingu á því, að hv. fjhn. taki til athugunar þá agnúa, sem á frv. kunna að vera og hægt er að laga, ef það verður til þess að tryggja betur samhug fólksins með málinu. Þegar verkalýðsflokkarnir eru andvígir málinu, þá er það af því, að þeir hafa ekki fullan skilning á því, að atvinnuvegir landsins eru reknir með tapi. Fyrst hafa verið notaðir allir sjóðir góðæranna, og þegar þeir voru gengnir til þurrðar, þá var gripið til lánstrausts í bönkunum og að lokum til styrkja úr ríkissjóði, en nú er svo komið, að allt er að komast í þrot. En þetta vill ekki kaupstéttin viðurkenna og neitar að ræða þessa möguleika eða aðra, af því að hún vill ekki viðurkenna, að allt sé að komast í þrot. Meiri hl. alþm. hefur hins vegar orðið að viðurkenna þessa staðreynd, og að tilgangslaust sé að leggja þunga og síþyngjandi skatta á þjóðina og á þann hátt verði ekki hægt að tryggja örugga atvinnu hennar öllu lengur, eins og hv. 4. þm. Reykv. benti réttilega á og sagði megintilganginn.

Frá mínu sjónarmiði séð hefur frv. spillzt frá því, að það fyrst var lagt fram, en ég skal ekki fara langt út í það, þó að mér þyki rétt að geta þess lítillega. Mér finnst því vera spillt með því að veita sköttunum til nýrrar fjárfestingar, en upphaflega átti að draga úr fjárfestingunni, sem að áliti hagfræðinganna hefur verið ein af aðalorsökum dýrtíðar og verðbólgu í landinu, því að það er vitað, að hún dregur úr gjaldeyri til annarra þarfa. Hversu mikil þörf er þá til þessa víxlspors, að festa þetta fé í nýrri fjárfestingu? Þá tel ég, að það sé breyting til hins lakara að láta einstaklingana greiða skatta í stað félaganna, eins og áður var, og ég tel einnig, að breytingin í sambandi við eignamatið sé lakari og ranglátari, en það var fyrir og undrar mig, að hér skuli sett slík ákvæði, sem vitað er, að á engan hátt geta staðið í framtíðinni og munu skapa andúð á frv. meira en nauðsynlegt er. Það er líka mikil spilling á frv. að leggja á eignir, sem rýrna við gengislækkunina, en samkomulag hefur ekki náðst með öðru móti.

Ég tel nauðsynlegt, að gerðar séu eftirfarandi breytingar á frv., og vil beina því til hæstv. forseta, að það verði tekið til athugunar af hv. fjhn.:

Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að heimila endurgreiðslu á framleiðslugjöldum togaranna, ef það kemur fram, að um raunverulegt tap á rekstri þeirra sé að ræða. Þetta hefur þegar verið viðurkennt sem réttmætt með 11. gr. um síldarafla, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Ef sumarafli skipa, er veiða í snurpinót, er minni en 6.000 mál pr. skipshöfn að meðaltali, er ríkisstj. heimílt að lækka gjaldið. Ef afli er minni en 4.000 mál pr. skipshöfn að meðaltali, er ríkisstj. heimilt að fella það niður.“ Ég tel, að það verði að gefa sams konar heimild til togaranna, sem eiga að greiða framleiðslugjöld, hvort heldur sem þeir stunda ísfiskveiðar eða saltfiskveiðar, ef um raunverulegt rekstrartap er að ræða. Ef þetta yrði ekki gert, mundi frv. ekki aðeins mæta meiri andúð, heldur gæti það beinlínis orðið til þess, að menn vildu ekki taka að sér þennan rekstur, sem er mjög áhættusamur, ef ekki er tekið tillit til þessa. Þessi heimild er því nauðsynleg. Enn fremur þarf að taka það skýrt fram í frv., að þetta ákvæði taki ekki til þeirra togara, sem enn eru ókomnir til landsins. Ég vil benda á það, að þessir nýju togarar koma til með að kosta um 8 millj. kr. Vaxtabyrðin og vátryggingabyrðin af þeim skipum verður ekki minni, en ein millj. kr. á ári. Og það sýnir sig, að það er alveg útilokað, að hægt sé fyrir ríkissjóðinn að afsetja þessi skip til nokkurra aðila, ef á þeim á að hvíla sams konar kvöð eins og á togurunum, sem hér um ræðir. — Ég tel einnig, að nauðsynlegt sé, að tekið sé fram í frv., að reikna skuli vátryggingarverð skipa, sem tryggð eru í pundum, á núverandi gengi, þegar matið fer fram. Það er talað um, að vátryggingarverð skipa eigi að gilda um verðákvörðun skips til stóreignaskatts, nema sannað sé með mati, að söluverð þess sé annað. Ég tel alveg nauðsynlegt, að gengið sé tryggilega frá því viðkomandi þeim skipum, sem vátryggð eru í pundum — og langflest stærri skipin eru vátryggð í pundum —, að verð þeirra sé miðað við það, sem þau voru vátryggð fyrir um nýár s.l. í pundum, og sé þá miðað við gamla gengið á ísl. kr. Þetta tel ég að þurfi að athuga við afgreiðslu málsins. En ef þetta væri reiknað eftir nýja genginu, þá hækkaði það stórkostlega verð skipanna. — En ég tel, að það hefði í raun og veru aðeins átt að reikna verð skipanna eftir kaskótryggingu þeirra, vegna þess að í vátryggingu skipanna nú er venjulega innifalinn afli, veiðarfæri o.fl. En ég skal ekki gera það að neinu deiluatriði. Ég tel líka, að átt hefði að draga frá vátryggingariðgjöld eins árs, vegna þess að það er venjulega dregið frá, ef skip ferst. En ég ætla ekki að gera það að ágreiningsatriði. Ég tel einnig, að nauðsynlegt sé að setja inn í frv. ákvæði um, að þeir menn, sem á undanförnum árum, einkum síðustu árum, hafa selt fasteignir eða lánað fé og hafa sett það inn í sín skuldabréf, að skuldin samkv. þeim skuli hækka hlutfallslega á við það, sem gengi ísl. kr. félli, — ég tel nauðsynlegt að setja inn ákvæði um það, að þessir menn geti ekki innheimt skuldir sínar á þann veg, þó að þetta sé þannig tekið fram í skuldabréfunum, því að ef þeir mættu það, væri það til þess að gera þann sterka sterkari og þann veika veikari, ef t.d. maður, sem í dag lánar öðrum manni 100 kr., getur átt rétt á að krefja þennan skuldunaut sinn eftir nokkra daga um 174 eða 175 kr. sem greiðslu á þessari skuld. Mér hefur verið bent á, að e.t.v. stríði þetta gegn stjskr. En það er tekið upp í þetta frv., einnig eftir minni till., þó að það hafi ekki verið tekið upp í þessari hv. d., ákvæði í 7. gr.: „Þetta tekur þó ekki til launa, sem reiknuð eru á grundvelli verðmætis afurða, svo sem aflahlutar. Þó skulu laun, hluti launa eða aðrar greiðslur til skipverja á togurum og fiskflutningaskipum, sem miðaðar eru við hundraðshluta af afla, aðeins hækka í samræmi við hækkaða vísitölu samkv. þessari grein, en ekki hækka að öðru leyti að krónutali vegna gengisbreytingar samkvæmt lögum þessum.“ Það er sjáanlegt, að það er ekkert vit í því að láta hæstlaunuðu mennina næstum tvöfalda sínar tekjur, jafnvel þó að um það séu samningar. En um þetta standa samningar í dag á milli atvinnurekenda og atvinnuþiggjenda. Og þess vegna eru þeir upp hafnir með þessari gr. — En ég tel, að þetta, sem ég áður nefndi, séu svo mikil atriði, að frv. megi ekki fara út úr þinginu, nema þessi atriði séu lögfest. Ég vænti þess, að hæstv. forseti, sem er form. n., sem mun fá þetta frv. til athugunar, taki þetta til athugunar.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að Alþfl. hefði 1944 lagt til að taka sérstakan toll af ísfiski, til þess að halda niðri framfærsluvísitölunni. Þetta var gert á annan hátt 1944. Ég veit ekki annað en að mestur hlutinn af stríðsgróða togaraflotans hafi gengið í ríkissjóðinn beint, til þess að greiða niður bæði verðlag innanlands og til að halda niðri vísitölunni. Þetta var að vísu ekki tekið á þann hátt að setja það í sérstakan sjóð. En það kemur eins út. Milljónir af þessu fé voru teknar af togurunum — nema hjá bæjarútgerðum. Það voru einu togararnir, sem gerðir voru skattfrjálsir á þessu sviði. Og þar getur hv. 4. þm. Reykv. kljáðst við sína eigin menn, því að það munaði 500 þús. kr. fyrir hvern togara, sem tilheyrði bæjarútgerð, að þeir ekki greiddu þetta fé í ríkissjóðinn. En allir aðrir togarar greiddu þennan skatt, sem Alþfl. lagði til að greiddur væri, en skaut bæjartogurunum undan.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að árið 1941 hefði Alþfl. lagt til að leggja á útflutningstoll og greiða niður vörur innanlands með honum. Þetta hefur líka verið gert, en í öðru formi. Það hefur verið tekinn allur þessi gróði, til þess að greiða niður vörur innanlands og til þess að standa undir verði á þeirri útflutningsvöru, sem aðrir aðilar, en togaraeigendur, öfluðu og til þess að afla gjaldeyris inn í landið. — Hv. þm. sagði líka, að Alþfl. hefði lagt til 1942, að gengi kr. væri hækkað í kr. 22,15 sterlingspundið. Þetta hefur ekki verið gert. En er hv. 4. þm. Reykv. alveg viss um, að þetta hefði bætt úr? Hann segir: Þá hefðu menn ekki farið að kaupa allt mögulegt, nauðsynlegt og ónauðsynlegt, í landinu. Ég er ekki viss um, að þetta sé rökrétt hugsun í þessu máli. Ég skal ekki dæma um, hvernig þetta hefði verkað. En inn á þessa till. var ekki gengið. En hvaða trú hafði Alþfl. þá á sterlingspundinu? Hann hafði þá trú á því, að hann vildi láta lækka pundið, en hækka krónuna.

Gerðardómslögin segir hv. 4. þm. Reykv. að hafi verið sett á og framkvæmd hækkun landbúnaðarvara. En sannleikurinn er sá, að það voru ekki þessi mál, sem sprengdu langmest dýrtíðarhömlurnar á þeim árum, heldur var það hin gífurlega eftirspurn frá setuliðinu eftir vinnuaflinu. Það var ameríski dollarinn, sem velt var hér inn í stríðum straumum þá. Og það var eftirspurnin eftir vinnunni, sem greidd var í dollurum, sem var það, sem sprengdi dýrtíðarskorðurnar hér á landi, svo að þess vegna var ómögulegt að halda niðri dýrtiðinni, þannig að þó að gerðardómslögin væru sett og síðar upp hafin, þá voru þau ekki nein orsök dýrtíðarinnar hér hjá okkur.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að 1943 hefði hann lagt til, að bætt yrði upp sparifé og myndaður miðlunarsjóður húsaleigu. Ég viðurkenni, að sparifé var ekki bætt upp. En það var gert annað. Stríðsgróðanum, sem hefði kannske átt og a.m.k. að áliti sumra hefði átt að lenda hjá ríkissjóði, eða hjá einstökum aðilum og bindast þar, honum var dreift út á meðal alþýðunnar, vegna þess að það þótti ekki stætt á því að láta alþýðuna ekki geta bætt sín kjör, jafnléleg og þau voru fyrir stríð. Þess vegna var stríðsgróðanum dreift út á meðal almennings, en hann hlaut þá einnig að skapa þá dýrtíð, sem er í landinu.

Þá sagði hv. 4. þm. Reykv., að Bretar hefðu bjargað öllu við hjá sér með landsverzlun á stríðsárunum. Og það áttu að vera rök hjá hv. þm. fyrir því, að hér ætti að vera hægt að bjarga öllu við með landsverzlun og þess vegna þyrfti ekki þessar ráðstafanir, sem hér er verið að gera. En væri þá hv. 4. þm. Reykv. ánægður með þau lífskjör, sem brezkum verkamönnum voru sköpuð á þessu tímabili? Eða heldur hann, að einmitt þetta atriði hafi ekki haft nein áhrif á afkomu brezku þjóðarinnar, að verkamenn þar höfðu ekki meira að lífa af, en svo sem hálf laun á móts við það, sem íslenzkir verkamenn höfðu? Þau kjör eru þannig, að enginn íslenzkur verkamaður í dag mundi líta við þeim. Og ég vil segja það, að ef landsverzlun Breta hefur orðið til þess að skapa slík lífskjör í Bretlandi, eins og þau eru í dag, þá er ekki æskilegt að fara inn á hana hér, til þess að koma hér á sömu lífskjörum eða lakari. Það ætti sízt að vera baráttumál alþýðunnar á Íslandi að berjast fyrir slíku máli. Og er hv. 4. þm. Reykv. alveg ókunnugt um, hvernig útkoman hefur verið á rekstri sérleyfisbifreiða undir stjórn Alþfl.-ráðh., eða iðnfyrirtækja þess opinbera í hans stjórnartið? Og ef það ætti að vera sá mælikvarði, sem mætti áætla eftir, hvernig landsverzlun mundi fara úr hendi undir stjórn hinna sömu manna, þá mundi það áreiðanlega ekki geta verið til neinna úrbóta að setja hér upp landsverzlun. Á beztu sérleyfisleiðinni, þar sem flutt hefur verið ein millj. manna á ári, milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, eftir beztu vegum landsins, hefur reksturinn verið með hundraða þús. kr. tapi á ári. Þetta hefur verið undir stjórn Alþfl. Og það hefur gengið svo langt, að Alþfl. tók í leyfisleysi fé úr póstsjóði, orlofsfé verkamanna, til þess að standa undir þessum rekstrarhalla. Er það þetta, sem við að áliti sumra hv. þm. eigum að óska eftir að fá hér í sambandi við landsverslun? Ég held, að verkalýðurinn mundi ekki þakka mikið fyrir slíkar gjafir, þó að þær kæmu frá hans eigin flokki. Og hvernig er það með Silfurtún og Landssmiðjuna? Það er staðreynd, að á Landssmiðjunni er ríkið búið að tapa stórfé. (Forseti: Það væri æskilegt, að hv. þm. talaði um frv.) Að sjálfsögðu, herra forseti. En ég hef tekið þetta fram í sambandi við það, sem komið hefur fram hér í umr. um frv. Það er höfuðtakmark Alþfl., eftir því sem hv. 4. þm. Reykv. sagði, að allir hafi nægilega og örugga atvinnu og sæmileg lífskjör, en ekki hitt, hvort verzlunin er frjáls í landinu. Það hefur verið höfuðtakmark allra ríkisstjórna undanfarið, eftir því sem þær sjálfar hafa skýrt frá, að ná þessu takmarki, að allir í landinu hefðu örugga atvinnu við sæmileg lífskjör. Og það er einmitt vegna þess, að það á að reyna að ná þessu takmarki og halda því við, sem þar með næst, að þetta frv. hefur verið borið hér fram. Hinu er svo ekki hægt að neita, að hversu góðar sem tekjur manna eru á hverjum tíma, þá mundu þær alveg gleypast af óhagstæðu gengi og ranglátri verzlun í landinu. — Svo mikið hafa Íslendingar fengið að reyna af einokun í þessu landi, að það verða víst ekki margir, fyrir utan forvígismenn Alþfl., sem óska eftir, að slík bönd verði reyrð að Íslendingum á ný. Og það er vitanlega eitt af aðalatriðunum, sem skapa velmegun í þjóðfélaginu, ekki aðeins að verzlunin sé frjáls, heldur að allt athafnalífið í landinu sé frjálst. Og að því miðar þetta frv., ekki aðeins að gera verzlunina frjálsa, heldur að hverfa frá styrkjaleiðinni og frá þeim böndum, sem lögð hafa verið á framtak einstaklinganna í landinu, og gera atvinnulífið allt frjálst aftur, til þess að reyna að koma nýju lífi í atvinnuvegina og finna nýja möguleika til öflunar gjaldeyris og tryggja sem öruggasta atvinnu sem flestra manna í landinu við sæmileg lífskjör.

Ég vil enn vænta þess, að hv. n. taki þetta, sem ég hef bent á, til athugunar, einmitt fyrir 2. umr. málsins.