17.03.1950
Efri deild: 76. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Eins og fram er tekið í nál. meiri hl., var það seint í dag eða kvöld, sem frv. var vísað til n., og hafði n. því, þar sem fundur var ákveðinn kl. 9, harla lítinn tíma til þess að athuga það gaumgæfilega. Hins er þó að geta, að málið hefur lengi verið til athugunar fyrir þm., svo að það út af fyrir sig, hvað höfuðatriði málsins snertir, kom ekki að sök. Hitt er annað mál, að fyrir n. lágu erindi og uppástungur um breyt. á fleiru en einu atriði, og vannst ekki tími til fyrir þessa umr. málsins að ganga í gegnum þær uppástungur svo gaumgæfilega, að hægt væri fyrir þessa umr. að segja af eða á um þær.

Eins og segir í nál. á þskj. 455, varð n. ekki sammála. Tveir hv. þm. í n. töldu sig ekki geta fylgt höfuðatriðum málsins, sem líka kemur fram í því, að þeir hafa gefið út sérstök nál.

Meiri hl. lítur svo á, að þótt þessi gengisbreyting, sem hér er um að ræða, sé neyðarúrræði, þá sé ekki annars kostur, eins og nú er komið málum, sérstaklega í útflutningsverzlun og afurðasölu, en að hallast að þeirri leið, sem farin er í frv. Leggur því meiri hl. til, að frv. verði samþ., en áskilur sér að sjálfsögðu rétt til þess að flytja brtt. við 3. umr., þó að þær liggi ekki fyrir nú.

Þau erindi, sem sérstaklega lágu fyrir n., var í fyrsta lagi símskeyti frá Félagi íslenzkra botnvörpuskipaeigenda,sem skorar á þingið að breyta 11. gr. frv., sem fjallar um framleiðslugjald af togurum o.fl., á þá leið, að sá skattur, sem þar er um að ræða, verði ekki innheimtur, ef um sannanlegan taprekstur er að ræða. Sams konar málaleitun hefur víst komið til ýmissa annarra hv. þdm. Hv. þm. Seyðf., sem er hér ekki mættur vegna lasleika, tilkynnti mér, að hann hefði fengið hraðskeyti frá umbjóðendum sínum á sömu leið. Sömu tilmæli hafa borizt frá mínu kjördæmi, og svo mun vera um fleiri. Nokkuð var rætt lauslega um þetta atriði á nefndarfundi, líka við þá nm., sem annars töldu sig ekki vera sammála meiri hl. n. í öðrum atriðum, og var það álit manna, að rétt væri að taka þetta atriði sérstaklega til athugunar milli 2. og 3. umr.

Þá var enn fremur erindi Fasteignaeigendafélags Reykjavíkur, sem lagði fyrir n. áskorun í fjórum liðum varðandi þetta mál, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Að lögbjóða ekki eignartöku af einstaklingum til greiðslu á rekstrarhalla ríkisbúsins, fyrr en gerðar eru ráðstafanir til þess að draga úr nefnda- og skrifstofufargani ríkisins og öðrum fjáraustri þess.

2. Að leggja ekki nýjar, stórfelldar álögur á eigendur íbúða og húsa, án þess fyrst að afnema þau höft, sem núgildandi húsaleigulög leggja á umráðarétt þeirra yfir eignum sínum.

3. Að lögfesta ekki svo ranglátan mismun á mati fasteigna eftir staðsetningu þeirra sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu og gengur svo langt, að í kaupstaðnum Reykjavík er fasteignamatið margfaldað með 6, en í kaupstöðunum Akranesi og Keflavík er fasteignamatið margfaldað með 3.

4. Að setja alla eigendur við sama borð við skattaálagninguna, hvort sem eigandinn er samvinnufélag, hlutafélag eða einstaklingur.

Fyrir utan þetta, sem ég hef nú lýst, hefur hv. þm. Barð. afhent form. n. minnisblað með ábendingu um það sama og félag botnvörpuskipaeigenda hafði þegar símað til Alþingis, og svo nokkrir aðrir fleiri, sem ég þarf ekki að lýsa hér, en n., eins og sakir stóðu, taldi ekki rétt að taka afstöðu til við þessa umr., þar sem tími var svo naumur sem ég hef áður lýst. Ég geri ráð fyrir, að ýmsar þessar ábendingar verði ræddar hér, samhliða því sem ræddar verða brtt. frá hv. þdm., hvar af sumar eru þegar fram lagðar, að mér virðist, nú við þessa 2. umr., því að vitaskuld er eðlilegt, að í svona stórmáli komi fram ýmsar till. til breyt., jafnvel frá þeim, sem eru annars samþykkir höfuðatriðum frv., og það hefur sýnt sig, að breyt. hafa verið gerðar í Nd. á frv., sem mér fyrir mitt leyti virðast sízt vera til bóta, heldur frekar stefna í öfuga átt, sumar hverjar.

Ég ætla ekki að þessu sinni að ræða miklu meira um þetta mál. Ég sé ekki ástæðu til þess. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ., en mun bera saman bækur sínar fyrir 3. umr., og mun þá koma í ljós, að hve miklu leyti sá meiri hluti getur orðið samferða um till. til breyt. á frv. eða hversu mikið tillit verður unnt að taka til þeirra óska, sem nú hafa fram komið um breyt. á frv., en erfitt mun verða að ganga svo frá frv., að ekki verði neinir vankantar þar á, sem þá þarf að athuga síðar meir, þegar betur sést, hvernig framkvæmdin fer úr hendi. Ég hef heyrt sagt, að það hafi raunar komið fram bréf frá stjórn Landsbankans, þar sem er gagnrýnt allmjög það tillitsleysi, sem till. bankans hafi orðið fyrir í Nd. varðandi framkvæmd á uppbótum sparifjár. Það má vel vera, að einnig á því sviði þurfi að gera einhverja breyt. á frv. við 3. umr.

Það er vitað mál, að sú tilraun, sem gerð er með þessu frv., getur því aðeins heppnazt, að fleira komi til, en gengisbreyt. ein, og á það hefur verið bent rækilega við umr. málsins í Nd. og enda í þessari d. líka, og þarf ég ekki frekar að fara út í þá sálma hér. Þessar ráðstafanir þurfa sérstaklega að haldast í hendur við afgreiðslu fjárl. og stefna að því, að það veikti ekki þá aðstöðu, sem þetta frv. á að veita til að koma þjóðarbúskapnum á réttan kjöl.

Ég ætla, að það, sem ég hef nú sagt, sé nægilegt til að hefja þær umr., sem hér fara fram um hinar ýmsu gr. frv., og vísa enn til þess, sem n. tekur fram í álitsgerð sinni, að meiri hl. áskilur sér rétt til að koma á síðara stigi fram með þær brtt., sem honum þykir rétt að gera við þetta frv.