17.03.1950
Efri deild: 76. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er vegna þess, að hæstv. forsrh. varð að víkja af fundi, að ég ber fram þá ósk fyrir hans hönd, að sumar og helzt allar brtt. á þskj. 460 verði teknar aftur til 3. umr. En fyrst ég stóð upp, ætla ég að segja nokkur orð um frv. það, sem hér liggur fyrir, og þær brtt., sem fram hafa komið.

Ég ætla þá fyrst að víkja að því, sem hæstv. atvmrh. sagði. Hann virtist hafa nokkurn beyg af þeim breytingum, sem þetta frv. hefur tekið frá því að það var lagt fram í upphafi, og einkum þó ákvæðunum um, hvernig ráðgert er að verja gengishagnaðinum og hluta af eignarskattinum. Vitanlega má deila um þessi atriði og ef til vill vafasamt að halda áfram mikilli fjárfestingu. Hitt held ég að allir hljóti að vera sammála um, að ekki dugir að stöðva allar framkvæmdir, og ég álít, að þær framkvæmdir, sem verja á þessu fé til, séu svo brýnar, að ekki verði hjá þeim komizt, en auk þess í hóf stillt, eftir því sem hægt er. Það gefur að skilja, að ekki dugir að leggja árar í bát, þó að í óefni sé komið, og enda þótt margt sé hægt að spara, þá verður að halda áfram nauðsynlegum framkvæmdum. Ég ætla svo ekki að ræða þetta atriði frekar.

Út af ræðu hv. 4. þm. Reykv. og þeim brtt., sem hann mælti fyrir, þá skal ég taka undir það atriði í ræðu hans, að nauðsyn sé á að gera ýmsar ráðstafanir í sambandi við þetta frv. Ég viðurkenni fúslega, að það þarf að styrkja verðlagseftirlitið, það þarf að bæta úr húsnæðisöngþveitinu, og það þarf að gera umbætur í verzlunarmálunum. Frv. hefur engin ákvæði um þessi mál, en Alþingi fær tækifæri til að taka ákvarðanir um þau, og ég verð að segja, að það skiptir jafnvel meginmáli, hvernig þessum málum verður ráðið til lykta.

Ég hef aldrei gert ráð fyrir, að ráðstafanir út úr því efnahagsöngþveiti, sem við erum nú í, verði gerðar án fórna. Þvert á móti hljóta allir landsmenn að verða að fórna einhverju. Það er vitanlega ekki hægt að taka fjármagn til útflutningsframleiðslunnar eða sjávarútvegsins, án þess að það sé tekið einhvers staðar. Hins vegar er aðalatriðið, að þessar fórnir eða byrðar verði ekki meiri, en nauðsynlegt er. Spurningin er því raunverulega sú, hvað þessar fórnir geti verið minnstar, til þess að þær nái tilætluðum árangri, þ.e.a.s. til þess að þær komi framleiðslunni á réttan kjöl. Framleiðslunni verður að bjarga, því að ekki verða fórnirnar minni, ef hún stöðvast. Það hafa eldri og reyndari þjóðir en við orðið að gripa til þess úrræðis, sem hér er lagt til nú. Það er ekki langt siðan Bretar gripu til þess úrræðis að fella gengi sitt til bjargar atvinnuvegunum. Ég skal ekki segja um, hvernig ástandið hefur verið hjá þeim, og get því ekki borið það saman við það, sem hér ríkir nú, en tæplega hefur það verið eins slæmt. Það er vitað mál, að 19 nýsköpunartogarar hafa nú þegar nálgazt stöðvun og sumir þeirra verið auglýstir á nauðungaruppboðum, enda dráttarvextir af lánum, sem hvíla á þeim, komizt upp í 12%, en vextirnir hækka mánaðarlega um 1/2 % að mig minnir. Sum bæjarfélögin eru alveg komin í þrot og riða á barmi gjaldþrots vegna útgerðar þessara skipa, enda dæmi um, að þau hafi neyðzt til að auglýsa skipin á nauðungaruppboði. Það er því ekkert nema biðin eftir þessu frv., sem hefur haldið skipunum úti eða komið í veg fyrir stöðvun þeirra. Þær eru því ekki að ástæðulausu, ráðstafanirnar, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég geng ekki fús til þess verks að þurfa að styðja að þeim fórnum, sem farið er fram á, en það verður ekki hjá því komizt, þegar blómlegustu og fullkomnustu tækin í íslenzku atvinnulífi, nýju togararnir, eru eins á vegi staddir og ég áður lýsti, enda geta menn af því leitt, hvernig önnur atvinnutæki munu á vegi stödd, eins og t.d. bátaútvegurinn. Og sannleikurinn um hann er sá, að það, sem komið hefur í veg fyrir, að flestir bátanna hafi verið seldir á nauðungaruppboði, er lögboðin frysting á skuldum þeirra.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta ástand, enda mun flestum um það kunnugt. Hitt vil ég drepa á, að sú leið út úr ógöngunum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, er eftir áliti okkar bezt menntuðu manna í þessu efni sú heppilegasta, sem völ er á, eins og nú er komið. Niðurfærsluleiðin svonefnda kom líka til álita, en við athugun kom í ljós, að hún mundi hafa í för með sér meiri og erfðari byrðar fyrir bændur og verkamenn, að minnsta kosti fyrst um sinn, auk þess sem hún var talin seinvirkari til úrbóta fyrir útveginn, nema mjög stór spor væru stigin. Um þá leið að þjóðnýta utanríkisverzlunina ætla ég ekki að ræða, enda ekki skilyrði fyrir, að hún yrði valin.

Um þær brtt., sem fram hafa komið, er það að segja, að flestar þeirra miða að því að gera þær fórnir, sem hér er um að ræða og ég kannast við, litlar og raunar engar, og þá um leið að ónýta þær aðgerðir, sem gert er ráð fyrir og nauðsynlegar eru. Ég tel því, að samþykkt þeirra flestra yrði til þess að skapa enn meira öngþveiti og færa okkur lengra niður í það fen, sem efnahagsmál okkar nú eru í, og þó getur það varla verra verið. Um 1. brtt. hv. 4. þm. Reykv., að 2. gr. falli niður, vil ég þó endurtaka óskir forsrh. um, að hún verði tekin aftur til 3. umr., þar sem það atriði mun vera í athugun hjá ríkisstj. og því óhentugt að láta fara fram atkvgr. um till. nú. — Í sambandi við brtt. um skiptinguna á gengishagnaðinum vil ég segja það, að ég er henni algerlega andvígur, en viðvíkjandi fyrirspurnum um, hvað sá hagnaður muni verða mikill, þá get ég upplýst, að það er gert ráð fyrir, að hann verði nálægt eða aðeins innan við 20 millj. Annars liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um þetta atriði enn. Hv. 4. þm. Reykv. taldi skiptinguna milli byggingarsjóðs verkamanna, byggingarsjóðs bænda og ræktunarsjóðs ósanngjarna eftir ákvæðum frv. og miðaði þar við fólksfjölda í bæjum og sveitum. Ég vil í þessu sambandi minna á, að lán úr ræktunarsjóði fara ef til vil] að stærri hluta til kaupstaða en sveita, því að ræktunarsjóður var á sínum híma skyldaður til að lána til frystihúsa, og er áreiðanlega ekki of sagt, að helmingur þess fjár, sem sjóðurinn hefur haft yfir að ráða, hafi farið til frystihúsanna. — Um 3. og 4. brtt., að niður falli vísitölubindingin, þarf ekki að fjölyrða. Þetta hefur verið þrautrætt í Nd. Hið sama er að segja um 5. brtt. - Það er rétt hjá hv. 4. þm. Reykv. að gera ráð fyrir þessari verðhækkun. Auðvitað verður hún tilfinnanleg, þegar þær vörur, sem nú eru á hafnarbakkanum, koma á næstu vikum í búðirnar, og það hefur verið rætt um fyrirkomulag greinarinnar og væri æskilegast að fresta þessari brtt. einnig þar til við 3. umr. Viðvíkjandi 6. brtt., að í stað 45% komi 25%, er það að segja, að eftir því sem nú horfir, er reyndin sú, að ríkissjóði veiti ekki af þessum peningum. Viðvíkjandi fyrirspurninni um það, hvort söluskatturinn verður felldur niður, er því til að svara, að hann verður felldur niður, þegar það er hægt, en fyrr ekki. — Nú vita menn, að tekjuþörf ríkissjóðs er mikil og það er grundvallaratriði, að fjárlög verði ekki afgreidd með tekjuhalla. Norðurlönd hafa a.m.k. 3 undanfarin ár afgr. fjárlög með stórkostlegum tekjuafgangi. Ef þetta frv. á að koma að einhverju gagni, er ekki hægt að afgreiða fjárlögin nema með jafnvægi milli tekna og gjalda.

Viðvíkjandi 7. brtt., við 11. gr. frv., um útflutningsgjald af saltfiski, óska ég, að sú brtt. verði dregin til baka þar til við 3. umr. Ég mun ekki ræða það atriði nánar, en benda má á, að í ljós hefur komið, að gömlu togararnir voru betur settir, en bátar til að veiða fisk og salta hann. Gera má þó ráð fyrir, að nýsköpunartogararnir standi enn betur að vígi. Nú hefur verið gerð sú breyting á frv. í Nd., að togararnir þurfi að selja fyrir 8.500 £ í 5 ferðum í röð, til að útflutningsgjalds sé krafizt. Ég er hræddur um, að ef þessi 10% verða felld niður, gæti orðið kapphlaup um að salta sem mest af fiski og það orðið til þess að skapa offramleiðslu. Þetta vil ég að menn athugi, og væri æskilegt að geyma þessa brtt. þar til við 3. umr. — Þá getur hér einnig verið álitamál, með hvaða tölu eigi að margfalda fasteignamatið. Það er vandasamt verk að ákveða þetta.

Viðvíkjandi 8. brtt., um það að fella niður eignaraukaskattinn, vil ég segja það, að ég var andvígur þeirri aðferð, en áleit réttara að leggja skattinn á eignir, sem til væru. Það er ekki nein ráðgáta, að margir þeirra manna, sem mest græddu í styrjöldinni og söfnuðu auði á því tímabili, sem eignaraukaskatturinn nær yfir, eiga nú lítið og sumir ekkert. Margir hafa tapað geysimiklu fé í útgerðinni á undanförnum árum. Hér má t.d. líta á bæjarútgerðir. Ein stór bæjarútgerð græddi t.d. svo mikið af peningum, að hún vissi ekki, hvað hún átti við þá að gera. En nú hefur þessi bæjarútgerð tapað mestu af sínu fé. Raunar þarf ekki að rekja dæmi um þetta, þau blasa alls staðar við. Þá má einnig deila um það, hver skattstiginn eigi að vera, og e.t.v. mætti leggja þessa skatta á samhliða, en er þó ekki viðfelldið. Hv. 4. þm. Reykv. viðurkenndi það líka, að skattarnir geta þannig í sumum tilfellum komið þungt niður, en í öðrum tilfellum létt. Annars ef eignaraukaskatturinn væri lagður á eignir, eins og þær voru þegar hann var ákveðinn, gæti svo farið, að maður, sem aukið hefur mjög mikið eignir sínar, væri eignalaus í dag. Ýmsir, sem rannsakað hafa þetta, lögðu til, að eignarskattstiginn væri hafður hærri, en álitu óframkvæmanlegt að hafa eignaraukaskattinn samhliða. Þeir, sem bezt hafa rannsakað þetta, hafa lagt til að leggja eignaraukaskattinn niður. Við skulum ekki vera blindir fyrir því, þótt fasteignir séu í háu verði í dag. Því miður er ég ekki viss um, hvort fasteignaverð muni haldast; sumir halda, að það muni hækka, en ég er ekki þeirrar skoðunar. Auðvitað má deila um skattstigann, en því verður ekki neitað, að það er orðin veruleg fórn fyrir þá menn, sem skatturinn er lagður á. En sannast að segja gengur mönnum treglega að skilja, hve eignir eru orðnar litlar, þótt þær nemi milljónum í íslenzkum krónum. 11/2 millj. kr., sem menn eiga nú, mun jafngilda því, sem áður var 300–400 þús. kr. Maður er alltaf að reka sig á, hvað krónan er orðin verðlítil. Og þetta staðfestir gengislækkunina, því að það er ekki hægt að breyta genginu nema aðeins af því, að það hefur þegar orðið gengislækkun. Annars mundi hinn erlendi gjaldeyrir ekki seljast fyrir það verð, sem hann er skráður á. — Þessi 25%, sem maður á að borga af 11/2 millj., verða þá 1/4 af verðmæti eigna hans. Hugsum okkur t.d. mann, sem á 2,3 millj. kr. Hann borgar 400 þús. kr., en það jafngildir 20 þús. kr. á ári í 20 ár með 4% vöxtum. Þá má einnig lita á það, að sumir þessara manna eiga fasteignir og leigja þær út í gamalli leigu. Hugsum okkur t.d. eign upp á 2,3 millj. kr. og tekjur af henni 60–70 þús. kr. og skattar 25 þús. kr. Við þurfum ekki að fara í neinar grafgötur með það, að þetta eru verulegar fórnir. Ég hef alltaf gengið út frá því, að þetta yrðu einnig fórnir fyrir verkamenn og bændur til að létta byrðinni af sjávarútveginum. Ég held, að það sé ekki fjarri lagi, hvernig þessum fórnum hefur verið niður deilt. Þeir, sem farið hafa allra hæst, hafa sett fram 35% í stað 25%. Ef gerðar yrðu þær ráðstafanir, sem hv. 4. þm. Reykv. kom með, til að draga úr þessu að öðru leyti, og ef það á að flytja í útgerðina um 80 millj. kr. á ári, sem við eigum lífsafkomu okkar undir, efast ég um, að það sé hægt að gera og hafa ég fulla vísitölu, eins og t.d. í till. hv. 4. þm. Reykv.: Ég geng út frá því, að það verði að jafna á milli þessara stétta. Ég get ekki annað en sagt við verkamenn og bændur í Strandasýslu, að þeir fórni miklu. Ef skilja ætti l. svo, að bændur ættu enga verðhækkun á mjólk að fá fyrir fóðurbætinn, sem þeir keyptu í fyrra upp á 14. millj. kr., er það ekki rétt, því að það á að reikna fóðurbætinn út í mjólkurverðinu. Viðvíkjandi síðustu brtt. hjá hv. 4. þm. Reykv. vil ég segja það, að það er verið að athuga hana, og forsrh. óskar, að henni sé frestað þar til við 3. umr.

Það hefur þá sérstaklega verið óskað eftir að draga eftirtaldar till. til baka, þar til við 3. umr.: 1. brtt., 5. brtt., 7. brtt. og 9. brtt. Mun ég svo ekki fjölyrða frekar um þetta.