17.03.1950
Efri deild: 76. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Þegar hæstv. atvmrh. hélt framsöguræðu fyrir þessu frv. í dag, játaði hann, að það væri neyðarúrræði að gera þessar ráðstafanir, sem í frv. felast. Flestir, sem gert hafa frv. þetta að umræðu, hafa játað hið sama; hér í kvöld var hæstv. landbrh. að því síðast. Þetta er einnig tekið skýrt fram í nál. meiri hl. fjhn., að það verði með einhverju móti að ráða bót á þessu neyðarástandi. Hæstv. atvmrh., Ólafur Thors, taldi ekki rétt að vera að ræða um það, hverjum þetta væri að kenna. Ég tel það enga goðgá, þótt á það sé minnzt, að þetta neyðarástand hefur einmitt skapazt á sama tíma sem Sjálfstfl. hefur farið með fjármálastjórn íslenzka ríkisins í samfleytt 11 undanfarin ár. Ég held, að rétt sé að játa, að þetta sé ekki neyðarúrræði, heldur óyndisúrræði — eða úrræði, sem ekkert úrræði er. Aðalúrræðið, sem um er að ræða, er gengislækkun. — Ég hef hér fyrir framan mig mikla bók, sem útbýtt var meðal þm., en þetta mikla verk er hagfræðiálit, sem dr. Benjamín Eiríksson hefur samið að ráði fyrrv. ríkisstj., en þangað eru sótt neyðarúrræði lagafrv. þessa, eða réttara sagt óyndisúrræði þess. Á bls. 45 ræðir hann um áhrif gengislækkunarleiðarinnar, og þar segir hann meðal annars um gengislækkun, með leyfi hæstv. forseta:

„Gengislækkun án frekari ráðstafana mundi naumast leysa mörg vandamál, og mundi fljótt sækja í sama horfið og nú, þar sem þau öfl, sem skapað hafa núverandi ástand, héldu þá áfram að hafa þau áhrif, er menn nú þekkja, dýrtíð, hallarekstur og erfitt verzlunarástand. Gengislækkunin ein er í raun og veru engin lausn á aðalvandamálinu, sem er skortur á jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Hún mundi samræma innlent og erlent verðlag, en aðeins í bili. Gengislækkun bindur ekki endi á misvægið milli sparifjármyndunar og fjárfestingar. Gengislækkun, sem samfara er hækkun á öllum framleiðslukostnaði innanlands, bindur ekki endi á hallareksturinn hjá útgerðinni. Gengislækkunin ein mundi ekki leiða til afnáms verzlunarhaftanna, og henni mundi ekki fylgja neinn sá ávinningur eða ábati, sem fylgir frjálsri innflutningsverzlun. Það mundi meira að segja ekki nægja, þótt betra ástand skapaðist í utanríkisverzluninni, ef það ástand hefði í för með sér aðeins rýmkun á höftunum.“

Hér er dómur þess sérfræðings, sem hefur undirbúið þetta frv., sem í hálfgerðu gamni hefur verið nefnt pennastrikið, en í því á að felast eins konar lausnarorð, sem leysi allan vanda. Þó játar hagfræðingurinn, að hér sé um neyðarúrræði að ræða. Hann heldur því fram, og staðhæfir það, að gengislækkunarleiðin leysi engan þann vanda, sem þessu frv. er ætlað að leysa. En eru þá ekki einhverjar hliðarráðstafanir í frv. hæstv. ríkisstj., sem leysa vandann? Svo er víst, að í þeim umr., sem fram hafa farið um þetta mál, hefur hæstv. ríkisstj. ekki staðnæmzt við neinar hliðarráðstafanir né flutt þau rök í þessu mikla máli, að líklegt sé, að samþykkt þess komi jöfnuði á fjárhag þjóðarinnar. Þau áhrif, sem samþykkt þessa frv. mun hafa í för með sér, munu koma strax í ljós. Áhrifin munu koma fram á næstu mánuðum og missirum, og ég er óttasleginn yfir því, að þau áhrif muni ekki verða eins glæst á fjárhagsmál þjóðarinnar og atvinnulíf og flm. þessa máls gera sér vonir um. Þetta mál varð banabiti hæstv. fyrrv. ríkisstj., og er ef til vill hætt við því líka gagnvart þessari ríkisstj., sem framkvæma á lögin. Ef frv. þetta á að ná tilgangi sínum, á það að ráða bót á dýrtíðarvandanum meira en til bráðabirgða, en reynsla fyrri ráðstafana hefur ekki náð tilgangi sínum. Þetta mál á því að vera framtíðarlausnin í fjárhagsmálum þjóðarinnar. En þó að þetta mál eigi að lækna dýrtíðina í landinu, þá er allur þorri manna sannfærður um það, að samþykkt þessa máls muni leiða holskeflu nýrrar dýrtíðar yfir landslýð allan. Það hefði e.t.v. mátt ætla, að dýrtið af völdum gengisbreytingar kæmi ekki strax í ljós, eða ekki fyrr en vörur kæmu á markaðinn, sem keyptar hefðu verið eftir að gengislækkun hefði verið lögfest, en það er á annan veg. Dýrtíðin eykst í kjölfar þessa gengislækkunarfrv., og það sömu dagana og verið er að ræða málið hér á Alþingi. Það hringdi til mín skipstjóri í dag. Hann var staddur í dag á vörulager Landssambands íslenzkra útvegsmanna og ætlaði að festa kaup á bambusveiðarfæri. Hann hafði komið þar undanfarið og fest kaup á ýmsu, sem hann vanhagaði um. En nú vildi svo til, að bambusbúnt, sem kostaði fyrir nokkrum dögum 8 kr., var allt í einu stigið í verði. Sams konar búnt .kostaði nú 12 kr. Ný vara, segja afgreiðslumennirnir, en skipstjórinn fullyrti við mig, að þarna hefði verið um sömu bambusbúntin að ræða. Þannig virðist gengislækkunin nú þegar vera komin í framkvæmd. Það mætti sjálfsagt tína til mörg dæmi, sem svipar til þess, sem skipstjórinn varð fyrir, en ég vil ekki leiða til frekari umr. um þetta atriði. En heimildirnar eru ekki langt undan. Í Morgunblaðinu í dag er auglýsing frá kolaverzlunum í Reykjavík. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar eð eldri kolabirgðir eru, þrotnar, verða kolaverzlanir í Reykjavík að loka frá og með deginum í dag að telja, þar til verð fæst ákveðið á nýjum birgðum.

Kolaverzlanir í Reykjavík.“

Svo heppnar eru kolaverzlanir í Reykjavík, að þær verða allar kolalausar á einum degi og verða að loka, þar til ákveðið hefur verið nýtt verð á nýjar birgðir. Hér virðist sýnilegt vera, að það hafi verið skyndilega tekið fyrir sölu, til þess að komast undir ný verðlagsákvæði. Eftir gengislækkunina er talið að kolatonnið komist upp í 500 kr., en það hefur verið 300 kr. fram til þessa. Þetta er skýr vísbending, hvernig horfir með verðbólguna í landinu. Verðhækkana verður ekki lengi að bíða, sbr. auglýsinguna í Morgunblaðinu, sem birtist á sama tíma og verið er að ræða frv. á Alþingi. Það er fleira, sem benda mætti á og virðist miða í svipaða átt hvað verðlagið snertir, og það áður en gengislækkunarfrv. er orðið að lögum. Slíkt ástand, sem nú hefur skapazt, er tiltækilegt til þess að skapa gróða, á sama tíma sem bændum, verkamönnum og öllum efnaminni mönnum er stórlega íþyngt. Það er engin furða, þótt verkamenn og aðrir launþegar eigi erfitt með að sætta sig við slíka kjaraskerðingu, þegar svo á þetta bætist, að aðrar stéttir þjóðfélagsins fá aukna aðstöðu til að auka og bæta fjárhag sinn. Verkamenn og launþegar eru fúsir til þess að taka á sig byrðarnar að sínum hluta, þegar þjóðin er í vanda, en þeir eiga erfitt með að sætta sig við, að þær komi óréttlátt niður á herðar landsmanna. Ég held, því miður, að með þessu, frv. hafi ekki tekizt, eins og það er úr garði gert, að koma málum svo fyrir, að hver stétt beri réttlátar byrðar. — [Fundarhlé.] Herra forseti. Þegar frestað var umr. áðan og fundarhlé gefið, var ég kominn þar í ræðu minni að ræða um ákvæði frv. um kaupuppbæturnar vegna hugsanlegrar dýrtíðar, sem stafaði af gengislækkuninni. Samkv. ákvæðum frv. á þá fyrst að koma til kauphækkana, að verðhækkunin verði 5% eða meira, og skal sú hækkun fyrst koma til framkvæmda í maí. 5% hækkun á framfærslukostnaði þýðir 17–18 vísitölustig, og þá fyrst, ef verðlagið hækkar það mikið, á verkafólk að fá bætt það tjón, sem orðið hefur af völdum gengislækkunarinnar. Ég get nú ekki ímyndað mér annað, en það verði krafa alls verkalýðs, að hann fái uppbætur strax og verðhækkanirnar verða, mánaðarlega, og uppbæturnar verði miðaðar við réttan vísitöluútreikning. Það er öllum kunnugt, að verðlag úti um land er fyllilega eins hátt og hér í Reykjavík, og eftir að þetta frv. er orðið að lögum, mun dýrtíð ekki siður vaxa úti um landið. Nú er og vitað, að sum félög úti um land hafa ekki eins hátt kaupgjald og hið öfluga verkalýðsfélag Dagsbrún hér í Reykjavík, og mun fólkið þar ekki síður eiga erfitt með að standa undir dýrtiðinni. En í 7. gr. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Skilyrði launahækkunar samkv. þessari grein er, að launagreiðslur hækki ekki af öðrum ástæðum en lög þessi mæla, frá því sem þær voru 31. jan. 1950 eða samkv. siðasta gildum kjarasamningi fyrir þann dag.“ M.ö.o., ef verkalýðsfélag úti á landi, sem hefði lægra kaupgjald en Dagsbrún hér í Reykjavík, reyndi að rétta hlut sinn með kauphækkunum, þá yrði fólkið í því félagi útilokað frá uppbótum, sem það annars mundi fá, ef dýrtíð vex. Ég tel þetta ranglátt ákvæði, og ætti hæstv. ríkisstj. að skoða hug sinn tvisvar, áður en hún lætur samþ. þetta. Réttast væri að fella alveg burt 7. gr. frv., eða a.m.k. síðasta málslið, eða leyfa verkalýðsfélögunum að lagfæra kaup sitt til samræmis við kaup Dagsbrúnar. Í till. okkar hv. 4. þm. Reykv. er gert ráð fyrir, að þetta sé heimilt. Ég tel og alveg víst, að það mundi stórum bæta sambúð hæstv. ríkisstj. og alþýðusamtakanna, ef slík jöfnun væri heimiluð. — Að vísu skiptir það þó mestu máli og mundi mest bæta sambúð hæstv. ríkisstj. og verkalýðssamtakanna, ef hæstv. ríkisstj. sæi sér fært að fella niður 2. gr. frv. Sú grein er eins og steyttur hnefi framan í alþýðusamtökin. Ég skil vel, að slík grein væri höfð í frv., ef hæstv. ríkisstj. ætlaði sér í vægðarlaust stríð við verkalýðssamtökin og væri þar örugg með sigur, en slíkt hygg ég að sé ekki ætlun hæstv. ríkisstj. og að hún muni ekki ætla sér að beita valdi nema til neydd. Gæti ég því ímyndað mér, að hún vildi heldur fella niður 2. gr. og leysa málið með samningum við alþýðusamtökin síðar, frekar en slíkt stríð. Þessi grein þýðir alveg ótvírætt, að ef verðhækkanir hafa orðið svo miklar, að verkalýðsfélögin teldu sig ekki geta við unað og hækkuðu sitt kaup, þá eigi stjórn Landsbankans að taka til sérstakrar athugunar gengisskráningu íslenzkrar krónu og þá vitanlega með það fyrir augum, að ríkisstj. framkvæmi þá nýja gengislækkun. M.ö.o., þarna er búin til kvörn, til þess að mala í smátt gengi íslenzkrar krónu. Ég get ekki séð neina ástæðu fyrir hæstv. ríkisstj. að eiga slíka kvörn og hygg, að það sé ekki þannig tæki, sem hæstv. stj. þarf að búa til. Ég hygg, að betra sé að eiga ekki slíkt tæki, svo að ekki sé til þess gripið. Ég sé og ekki, að ef verkalýðsfélögin grípa til þess að hækka sitt grunnkaup, þá sé ekki hægt að láta Alþingi lækka gengið aftur, og get ég ekki komið auga á nauðsyn þess að setja það í vald ríkisstj. einnar að lækka gengið á einum ráðherrafundi, að vísu að fengnum till. Landsbankans. Ég hygg, að þjóðargæfan sé alveg jafnmikil, þótt það sé áfram í valdi Alþingis að ákveða um gengi krónunnar. Þetta ákvæði virðist vera sett til þess, að ef ríkisstj. lenti í stríði við verkalýðssamtökin, þá gæti hún, í hvert skipti sem verkalýðsfélögin hækkuðu sitt kaup, lækkað gengið sem því svarar. En með þessu get ég ekki séð annað en stefnt sé í beinan voða. Með þessu væri þá komið út á hálan ís, sem ég hygg að sé langt frá upphaflegu marki frv. Það hafa margsinnis verið borin fram tilmæli af samflokksmönnum mínum um að verða við þeim óskum að fella 2. gr. í burtu, sem okkur sýnist vera til ögrunar, ef hún verður látin haldast. Mér er nú ekki örgrannt um, að slíkar óskir verði nú teknar til vinsamlegrar athugunar, þar sem hæstv. landbrh. hefur óskað þess, að teknar verði aftur til 3. umr. brtt., sem við þá grein voru. Geri ég mér því vonir um, að orðið verði við þeim óskum að fella þessa grein burt úr frv. Verkalýðsstéttirnar horfa með ugg til framtíðarinnar og sjá nú fram á vaxandi dýrtið, kjaraskerðingu og jafnvel atvinnuleysi, og það er síður en svo, að það birti neitt yfir hjá þessum stéttum við þá tilhugsun, að þetta frv. verði að lögum. Það er látið í veðri vaka, að það sé sérstaklega gripið til þessarar lagasetningar til þess að rétta hlut sjómannastéttarinnar og útvegsins í heild, en jafnvel sjómenn hafa mótmælt þessu frv. og gera við það stórvægilegar aths., og frá útvegsmönnum koma líka háværar raddir um stórvægilegar breyt. á frv., og jafnvel láta þeir í ljós, að þeir geri sér litlar vonir um, að gengi útvegsins sé borgið við þessa lagasetningu. Iðnaðarmenn mótmæla þessu frv. og telja, að það verði ógerlegt að halda uppi ýmsum greinum iðnaðar, sem nú er í landinu, og sjá þannig ekki fram á, að þeirra hlutur verði réttur með frv., og ég hygg, að bændastéttin sjái fram á, að þessi löggjöf verði þung byrði á þeirra stétt, og virðist þá svo sem verzlunarstéttin sé eina stéttin í landinu, sem nokkurn veginn sé ánægð með þessa lausn á dýrtíðarmálinu. En ef það fer svo, að það verði verzlunarstéttin ein, sem hefur hag af því, að gengislækkun verði lögfest, og allar aðrar stéttir beri af því halla og verði að taka á sig þungar byrðar af því, þá skil ég ekki, hvernig það má verða, að þessi löggjöf leiði til aukins jafnvægis í þjóðfélaginu.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um frv., ég vil aðeins segja, að ég er andvígur gengislækkun sem frambúðarlausn í dýrtíðarmálunum og hefði miklu heldur kosið, að reyndar hefðu verið aðrar þær leiðir, sem þm. Alþfl. hafa bent á við þessar umr. og oft áður. Hv. 4. þm. Reykv. lýsti því rækilega hér í ræðu í dag, hvaða úrræði Alþfl. hefði borið fram á ýmsum tímum viðvíkjandi dýrtíðarmálunum; og meira að segja áður en dýrtíðarholskeflan skall yfir landið, þá bar Alþfl. fram frv. um það, hvernig ætti að koma í veg fyrir aukna verðbólgu og dýrtið. Á árinu 1942 lagði Alþfl. til, að gengi íslenzkrar krónu væri hækkað, til þess að koma í veg fyrir, að stórkostleg vandkvæði sköpuðust af þeirri dýrtíð, sem þá var sýnilega í uppsiglingu. Í sambandi við þetta, sem hv. 4. þm. Reykv. ræddi hér um í dag, þegar hann vitnaði til þessa frv. Alþfl., þykir mér gaman að vitna aftur í hinn hálærða hagfræðing, Benjamín Eiríksson, og gríp þá niður í hið merka álit hans frá s.l. sumri, á blaðsíðu 8. Þar ræðir hann um dýrtíðina, hvernig hún hafi þróazt hér á landi á stríðsárunum, og segir um það m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Hefði átt að koma í veg fyrir hækkun verðlags, þá hefði þurft að hækka gengi krónunnar til mikilla muna. Þetta var í fyrstu gert og gengið hækkað smám saman í 20 kr. sterlingspundið. En síðan var frá þessu horfið og gengið lækkað að nýju í kr. 26,22. Hið lága gengi veitti svo hinu háa útflutningsverðlagi inn í landið í mynd hárra tekna og hinu háa innflutningsverðlagi sem háu útsöluverði innanlands. Það hefði ef til vill ekki verið æskilegt að koma í veg fyrir alla verðhækkun, en það hefði verið auðvelt að koma í veg fyrir hækkun á erlendu verðlagi umfram það, sem varð í Bretlandi. Hefði gengið verið hækkað smám saman um allt að 100%, mundi útflutningsverðlagið samt hafa hækkað um 50% í íslenzkum krónum og því valdið hækkun á kaupgjaldi og tekjum. Það er því lággengi krónunnar þessi ár, sem veitir erlendum verðhækkunum og áhrifum hærri farmgjalda inn í landið og getur því á vissan hátt talizt höfuðorsök dýrtíðar styrjaldaráranna.“

Ég vil því segja eins og hv. 4. þm. Reykv. sagði í dag, að mér er nær að halda, að ef farið hefði verið eftir till. Alþfl. á árunum 1941–42, þá væri ekki komið sem komið er. Það mætti ef til vill á þessari stundu gera sér vonir um það, ef svo hefði verið að farið, að það hefði nægt að lækka gengi íslenzkrar krónu niður í það, sem krónan er nú, en ekki þurft að lækka hana niður fyrir það.

Um till. okkar hv. 4. þm. Reykv. skal ég ekki orðlengja, hann gerði grein fyrir þeim svo ýtarlega sem unnt var, og hef ég þar engu við að bæta, en vil geta þess, að samkvæmt ósk hæstv. landbrh. munum við taka aftur nokkrar af þessum till. til 3. umr. og væntum þess, að hæstv. ríkisstj. taki þær till. til yfirvegunar, og taki þær helzt að öllu leyti til greina.