17.03.1950
Efri deild: 76. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég nokkrar ábendingar til fjhn. í sambandi við frv. Hv. frsm. hefur nú lýst yfir, að þetta sé til athugunar, og ég mun því láta mér nægja við þessa umr. þá yfirlýsingu, sem hann hefur gefið í sambandi við þær ábendingar, og ekki bera fram neinar brtt. við frv. á þessu stigi málsins. Mér þykir hins vegar rétt að benda n. á, að á þskj. 405 er m.a. birt bréf frá Útvegsbanka Íslands, þar sem bent er á nokkrar breyt., sem séu æskilegar á frv., og þætti mér ekki ólíklegt, að n. þætti sumar af þeim vera til bóta og tæki þær upp í frv., eins og það liggur fyrir nú, því að ég sé, að hv. Nd. hefur ekkert sinnt þessu erindi. Mér virðist sumar þessar till. þannig, að þær geti engan veginn annað en bætt frv. og geti ekki á nokkurn hátt spillt, hvorki tilgangi frv. né því samkomulagi, sem gert hefur verið um það. Þetta þótti mér rétt að láta koma fram við þessa umr.

Að öðru leyti skal ég ekki ræða frv. sjálft, en vildi aðeins svara nokkrum orðum því, sem hv. 6. landsk. þm. sagði. Hann hóf ræðu sína með því að segja, að það ástand, sem hefði skapazt í fjárhagsmálum þjóðarinnar, hefði skapazt á þeim tíma, sem Sjálfstfl. hefði farið með fjármálin, síðustu 11 árin. Ég veit ekki, hvort þetta er ásökun til flokksins sérstaklega, en ef það hefur átt að skilja það svo, þá vil ég biðja hann að athuga það, að á þeim tíma hefur hans ágæti flokksformaður verið forsrh. og stjórnað framkvæmdum, sem áttu mestan þátt í að koma þessu af stað, og ef hans ágæti flokkur hefði ekki staðið gegn því að bæta úr þessu máli, eins og margsinnis hefur verið bent á, þá væri ekki komið í það ástand, sem nú er. Ég hirði ekki að svara þeim ónotum, sem hann kastaði hér einnig til Sjálfstfl., um það, að þetta frv. hefði verið banabiti flokksstjórnar Sjálfstfl. Hann vissi vel, að sú ríkisstj. hafði ekki meiri hl. Alþ. að baki sér, en Sjálfstfl. tók að sér að stjórna, þegar enginn annar flokkur fékkst til þess, og það var meiri sómi en hjá flokki hv. 6. landsk., sem nú rekur enga pólitík í landinu og treystir sér ekki einu sinni til að halda sinni eigin stefnu. Mér þætti hins vegar fróðlegt að heyra frá hv. þm., af því að hann hefur viðurkennt, að þær byrðar, sem verið er að leggja á þjóðina, ættu að leggjast á alla, eftir því sem þeir geta, hvaða till. hann hugsar sér þá að bera fram til viðbótar við þær till., sem hann hefur nú borið fram, til þess að láta launafólkið í landinu bera byrðarnar, því ef þær till., sem koma nú frá 6. landsk. þm. og 4. þm. Reykv., verða samþ., þá er ljóst, að engar byrðar eru lagðar á launafólkið. Launafólk er fleira í landinu en fátækir verkamenn, það eru einnig til hátt launaðir embættismenn í landinu, en það er alveg sjáanlegt, að ef þessar till. yrðu allar samþ., þá er ekkert af byrðunum lagt á neinn launamann, þar sem allar verðhækkanir á að bæta upp samkvæmt till., og hverjar eru, þá fórnir launafólksins?

Ég skal ekki ræða mikið það kapp, sem lagt er á að afnema 2. gr. Ég get skilið það frá sjónarmiði verkalýðssamtakanna, það er í rauninni sá réttur, sem þau hafa beitt þannig, að það hefur stefnt beint út í þetta fjárhagsástand, og þegar hv. þm. talar um að taka af þeim réttinn til að ná launahækkun með frjálsum samningum, þá er það alveg rangt komizt að orði. Það hafa ekki í mörg ár verið frjálsir samningar milli þessara aðila, það hefur einmitt frá annarri hliðinni verið settur hnefinn í borðið og venjulega kallað til sáttasemjara ríkisins til að koma á sættum eftir margar vikur, það hefur því ekki verið um neina frjálsa samninga að ræða. Þetta veit hv. þm. vel, en þetta er ástand, sem hann vill viðhalda í þessum málum. — Um aths. hans við álit Benjamíns Eiríkssonar vil ég segja það, að þær eru gripnar úr lausu lofti, þar er allt tekið úr samhengi. Hann gleymir meginatriðinu, sem er undirstaðan hjá Benjamín, að af öllum byrðum, sem verði að leggja á fólkið, þá sé þessi byrði þó léttust. Hann kemst að þeirri niðurstöðu, að af öllum leiðum, sem hægt sé að fara, þá sé þetta réttasta leiðin fyrir launafólkið. Því las ekki hv. þm. það? Af því að það var honum í óhag. — Að öðru leyti skal ég ekki ræða frv. á þessu stigi.