18.03.1950
Efri deild: 77. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að flytja eina skrifl. brtt. við 11. gr. frv., eins og það liggur fyrir á þskj. 453. Hún er um það, að síðasta málsgr. gr. falli niður, en sú málsgr. gerir ráð fyrir því, að lagt sé framleiðslugjald á allar síldarafurðir, aðrar en þær, sem fluttar eru út fullverkaðar í smápökkum til manneldis, og á þetta gjald að nema 8% af útflutningsverðmæti afurðanna. Nú er látið í veðri vaka, að tilgangurinn með frv. þessu sé að reisa við hag útvegsins. Það skýtur því nokkuð skökku við, að sett skuli vera inn í það ákvæði, sem íþyngja síldarútveginum. Þetta er því meiri fjarstæða, þar sem vitað er, að síldveiðarnar hafa brugðizt í fimm undanfarin ár, og öllum er kunnugt, að síldveiðaflotinn og útgerðarmenn, sem eiga hag sinn undir honum, eru sokknir yfir höfuð í skuldir. Alþ. er þetta einnig fullkunnugt, þar sem þurft hefur ár eftir ár að gera sérstakar samþykktir á Alþ. um aðstoð við síldarútveginn. Það virðist því á misskilningi byggt að leggja álögur á þessa atvinnugrein-, jafnvel þótt svo færi, að ekki yrði aflabrestur. Það væri sanngjarnara, ef góð vertíð kæmi og dálítill hagnaður yrði, að þeir útgerðarmenn, sem mest eru aðþrengdir, fengju tækifæri til þess að grynna á skuldunum og treysta grundvöll atvinnurekstrarins, áður en slík gjöld væru á þá lögð. Ég vil því vænta þess, að þessari till. minni verði vel tekið. Ég vil enn fremur benda á, að eins og gr. er orðuð, er stj. heimilt að lækka þetta gjald, ef aflinn er minni en 6.000 mál pr. skipshöfn að meðaltali, og fella það alveg niður, ef afli er minni en 4.000 mál. En ég er hræddur um, að þessi ákvæði komi ekki útvegsmönnum að miklu gagni. Eins og kunnugt er, er síldarverðið ákveðið áður en vertið hefst af stjórn síldarverksmiðjanna og síldarútvegsn. Það er ljóst, að þegar þessir aðilar ákveða verðið, þá reikna þeir með þessu gjaldi. Hvernig sem aflabrögð verða, kemur þetta því niður á þeim, sem síldina framleiða, en það eru. fyrst og fremst þeir, sem orðið hafa fyrir skakkaföllum s.l. ár. Það er því rangt að leggja þennan skatt á. Hvað togaraútgerðina snertir, hafa líka komið fram raddir um að fella niður framleiðslugjaldið, og var svo að heyra á ræðum manna í þessari hv. d. í gærkvöld, að tilhneiging væri til þess að verða við þeim óskum. Það hefur nú sýnt sig, að hv. meiri hl. n. hefur ekki getað fallizt á þetta, en það liggja fyrir till. í þessa átt, er ég tel réttmætar, og verði þær samþ., er því meiri ástæða til þess að létta þessu af síldarútveginum. Ég leyfi mér því að leggja fram skrifl. brtt. um, að siðasta málsgr. 11. gr. falli niður.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða frv. almennt, um það hafa þegar verið miklar umr., sérstaklega í Nd., og Sósfl. hefur þar gert skýra grein fyrir afstöðu sinni. Þá hefur hv. 1. landsk. gert grein fyrir afstöðu flokksins í þessari hv. d., og þarf ég ekki við það að bæta. Þó er það eitt atriði, sem mér sýnist ástæða til að minnast á, þar sem ég hef ekki orðið var við, að það kæmi fram í umr., þótt það sé atriði, er trúlegt er, að vakið hefði athygli á hvaða löggjafarsamkomu sem væri, nema þá hér hjá okkur. Flytjendur þessa máls leitast mjög við að sannfæra launastéttirnar um það, að ekki sé hér um að ræða árás á lífskjör þeirra. Í því sambandi er lögð áherzla á það, að áhrif gengislækkunarinnar á verðlagið verði tiltölulega lítil miðað við gengislækkunina. Hagfræðingarnir leggja mikla áherzlu á það að færa fram það, sem þeir kalla rök fyrir því, að verðhækkunin verði litil. Eitt af því, sem þeir segja, er, að verðlag á erlendum vörum sé hér miklu hærra en eðlilegt sé og þyrfti að vera. Á þetta leggja þeir mikla áherzlu í álitinu, sem stj. hefur gert að sínu. Á bls. 45 segja þeir, að verðlag á innfluttri vöru sé óeðlilega hátt innanlands, borið saman við innkaupsverð erlendis, og svo færa þeir ástæðurnar fyrir því, hvers vegna verðlagið sé svona óeðlilega hátt. Þeir slá þessu í raun og veru föstu, en orða það þó varlega. Það stendur svo hér, á bls. 44, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og málum er nú háttað, mundi borga sig fyrir innflytjendur, ef þeir gætu komið því við — þótt ólöglegt sé — að hafa eigin firmu erlendis, sem þeir svo keyptu af, firmu, sem legðu á vörurnar, áður en þau seldu þær hingað.“ — — Og svo áfram: „Ef svona verzlunarmáti á sér stað að nokkru ráði, mundi hann minnka við það, að rýmkaðist um verzlunina, og verða að hverfa, ef innflutningurinn yrði gefinn frjáls, þannig að ótakmarkað magn hverrar vöru mætti flytja inn.“

Þetta verða nú að teljast allmerkilegar hugleiðingar. Það hefur að vísu gengið almannarómur um það, að slíkir verzlunarhættir ættu sér stað, en auðvitað hefur verið reynt að berja þann almannaróm niður. En nú bregður svo við, að sjálfur viðskiptamálaráðherrann hæstvirtur, sem ber fram þetta frv., lætur fylgja grg., þar sem því er slegið föstu af hagfræðingum, að þessi viðskiptaháttur hafi verið viðhafður að svo miklu leyti, að það hafi haft veruleg áhrif til verðhækkunar hér innanlands, og ef komið verði í veg fyrir hann með því að gefa verzlunina frjálsa, muni það hafa í för með sér vörulækkun, sem muni vega mikið á móti gengisfallinu. Það verður að teljast merkilegur hlutur, að slíkt plagg skuli vera borið fram hér á Alþingi af sjálfum viðskmrh., og í tilefni af þessu vil ég leyfa mér að leggja fyrir hann nokkrar spurningar, því að mér skilst, að Alþingi eigi heimtingu á því, að hæstv. ráðh. geri fyrir þessu nánari grein.

Ég vil því í fyrsta lagi spyrja hæstv. viðskmrh., hvort honum hafi verið kunnugt um, að slíkir viðskiptahættir ættu sér stað, að fyrirtæki hafi haft skrifstofur erlendis og lagt á vörurnar þar, og hvort það hafi átt sér stað í svo stórum stíl, að það hafi haft verulega hækkun í för með sér á vöruverði innanlands, því að ella stæðust ekki rök hagfræðinganna.

Þá vil ég spyrja hann í annan stað, í því tilfelli, að honum hafi verið ókunnugt um þetta áður en hagfræðingar nú gáfu skýrslu sína, hvort hann, eftir að hafa séð þennan almannaróm staðfestan af þeim, hafi gert tilraun að fá að vita hið sanna í þessu efni.

Þá óska ég eftir því í þriðja lagi, að hæstv. ráðh. upplýsi það, ef hann hefur ekki gert neinar ráðstafanir, eftir að hafa séð skoðun hagfræðinganna, hvort hann telji þetta fyrirbæri viðskiptalífsins svo saklaust og sjálfsagt, að hann af þeim sökum hafi ekki skipt sér neitt af þessu né séð ástæðu til að vekja eftirtekt Alþingis á því.

Og í fjórða lagi: Ef þessu er þann veg farið, hefur það þá kannske verið svo, að jafnvel hans eigið innflutningsfyrirtæki hafi notað þessa verzlunaraðferð að meira eða minna leyti?

Hagfræðingarnir virðast árlíta, að þetta hafi átt sér stað í svo stórum stíl, að það hafi haft áhrif til verulegrar hækkunar á verðlagi innanlands; og ég tel þetta svo merkilegar upplýsingar, að Alþingi verði að fá að vita hið sanna, og vænti ég þess, að þótt hæstv. viðskmrh. hafi nú vikið af fundi um sinn, þá gefi hann við þessum spurningum skýlaus svör, og skal ég ekki fjölyrða meira um þetta að sinni.

Um aðrar till., sem hér liggja fyrir, skal ég heldur ekki fara mörgum orðum, aðeins vil ég minnast á brtt., sem meiri hl. fjhn. hefur lagt fram. Þær voru túlkaðar svo af hæstv. forsrh., að með þeim væri verið að mæta kröfum verkalýðsfélaganna. Fyrri till. er um það, að 2. gr. frv. skuli falla niður og valdið til að skrá gengið vera áfram í höndum Alþingis. Skal ég fúslega viðurkenna, að það er til bóta, að Alþingi haldi valdi sínu í þessu efni, en þó skiptir það ekki neinu höfuðmáli um hag launþega, því að ef til þess hefði komið að stofna til kapphlaups milli verkalýðssamtakanna og þeirra aðila, sem fara með gengisskráningarvaldið, þá hefði slíkt bitnað harðast á þeim, sem fjármuna eiga að gæta, en ekki á launþegunum.

Hin till., um það, að kaupuppbót sú, sem frv. gerir ráð fyrir til launþega, skuli fyrst koma til framkvæmda í apríl í stað maí, virðist fremur vera til að sýnast. Það er svo gengið frá um útreikning þessarar vísitölu, að það mun verða séð um, að hækkunin samkvæmt henni fari ekki yfir 5% í apríl, og það eru litlar líkur til, að sú verðhækkun, sem verður afleiðing af gengisbreytingunni, skelli svo snöggt yfir, að þetta hafi mikla þýðingu. Enn fremur skil ég ekki, hvernig hægt verður að framkvæma þetta, eins og hv. 4. þm. Reykv. sagði — að reikna út vísitöluna, svo að hægt verði að miða við hana 1. apríl. Og aðalatriðið er, að með þeirri aðferð, sem á að nota við útreikning vísitölunnar, þá er verið að ráðast að launþegum og hindra það, að þeir fái réttmæta hækkun launa sinna.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta frekar, en vænti svars hæstv. viðskmrh. við spurningum mínum.