18.03.1950
Efri deild: 77. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður — né gefa tilefni til þess, að umræður spinnist út af því, sem ég segi.

Ég vil geta þess, auk þess sem við í meiri hl. n. höfum sagt um álit okkar á frv., að ég tel ákvæði 13. gr. einn af ljósu punktunum þar. En þar er sýndur litur á að bæta sparifjáreigendum tapið af gengisfallinu. Hversu miklar þær uppbætur verða, vitum við ekki, en það er þó nokkuð í húfi fyrir sparifjáreigendur, að vel takist til um að fylgja fram ákvæðum gr. Ég er þó ekki að öllu leyti ánægður með það fyrirkomulag, sem þar er gert ráð fyrir. Það er t.d. talað um yfirlýsingar skattanefnda, og á það við allar skattanefndir, en það mun koma til ríkisskattanefndar að gefa slíkar yfirlýsingar, þar eð allar skýrslur liggja í vörzlum hennar og þar þarf að fletta þeim og gefa vottorðin. — Ég verð þá einnig að segja, að mér þykja frestirnir of stuttir, sem ákveðnir eru um það, hvernig innstæðuféð eigi að berast milli sjóða. — Innanbæjar eru það tveir dagar, og læt ég það vera, en svo er aðeins gefinn hálfs mánaðar frestur til flutnings á milli landshluta. Ég hef þó ekki ástæðu til að flytja um þetta brtt., en vona, að þessu verði ekki hart framfylgt; enn fremur, að gefin verði sem hagstæðust fyrirmæli um það, hvernig á að athuga innstæður og reikna út skattinn, því að við vitum, að af því verður geysimikill kostnaður ella. Verður að treysta á hæstv. ríkisstj. um það, að hún hafi reglugerðina þannig, að kostnaður verði sem minnstur, og tryggt sé þó, að hlutur hinna lítilsigldari og framkvæmdaminni verði ekki fyrir borð borinn og hver fái sitt.

Í 12. gr. þykir mér ekki nógu skýrt ákveðið um það, af hvaða eignum hátekjuskatturinn á að greiðast. En ég tel, að um leið og framtal er ákveðið um áramót, þá verði skattarnir taldir sem hver önnur skuld, þótt þeir séu ekki fallnir í gjalddaga, því að þeir eiga að greiðast á sama missiri.

Ég skal ekki fjölyrða meira um þetta, en vona, að mér hafi tekizt að sneiða hjá því, sem kynni að vekja deilur.