18.03.1950
Neðri deild: 70. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég sé, að málið hefur frekar litlum breyt. tekið til bóta í Ed. Þó hefur verið felld niður 2. gr., sem var svo vitlaus annars vegar, að varla hefði nokkur banki treyst sér til að framkvæma hana, og hins vegar óþarfa ógnun gagnvart verkalýðssamtökunum, sem hefði þurft óvenjulega vitlausa fjármálastjórn til að beita. Þetta frv. er þó eftir sem áður jafnharðvítug árás á verkalýðssamtökin og lífskjör allra vinnandi stétta í landinu. Það mál hefur verið rætt svo ýtarlega við þrjár umr. í hvorri d., að ekki þýðir að fara að bæta þar við. En á hinu vil ég vekja athygli, að mér virðist, að við þessar sex umr. hafi alltaf farið minna og minna fyrir því, að forsvarsmenn frv. hafi vitnað til hagfræðingagreinargerðarinnar fyrir þessu frv. Þvert á móti hefur nú ríkisstj. orðið að falla frá einni ályktuninni á fætur annarri, sem þessir svokölluðu hagfræðingar hafa sett sem undirstöðu undir þessu frv., þannig að það stendur nú varla steinn yfir steini í uppbyggingu þess. Af sjálfum hagfræðingunum er það að segja, að annar þeirra er stunginn af til Ameríku, en hinn sýndi sig á einum fundi í n. Þetta minnir mjög á ævintýri Andersens um nýju fötin keisarans, þegar tveir menn voru fengnir til að vefa ákaflega fínan vefnað, sem keisarinn átti að bera í mikilli skrúðgöngu. Þeir voru látnir fá dýrindis vefstóla og hátt kaup náttúrlega og dýrt efni. En eins og allir muna, lyktaði því svo, að vefararnir stungu af með allt kaupið og gull og silfur, en keisarinn gekk ber eftir götunni. Mér sýnist vera svipað komið með þennan vefnað hjá þessum tveimur hagfræðingum, sem áttu að vefa utan um sjávarútveginn klæði, sem hann gæti gengið í. Mér virðist það ætla að verða þannig eftir samþykkt þessa frv., að það, sem nú liggur fyrir, er, að togaraútgerðin og bátaútvegurinn eigi að stöðvast við framkvæmd þessa frv. Þannig virðist meiri hl. Alþingis ætla að skilja við sjávarútveginn. Þegar hagfræðingarnir eru búnir að vefa þennan vef, eru þeir horfnir, annar til Ameríku, láta ekki sjá sig meir og standa ekki fyrir neinu, sem þeir hafa sagt. Þó er það því verra hjá þessum góðu hagfræðingum, en hjá vefurunum, sem áttu að vefa handa keisaranum, að í ævintýrinu hafði enginn illt af því, þó að þeir styngju af, en hér verða hagfræðingarnir og þeirra till. til bölvunar öllum vinnandi stéttum í landinu. Það hefur verið reiknað út, að þessi aðferð sviptir verkalýðinn upp undir 100 millj. kr. í versnandi kjörum, enda fór að bera á því fljótt, að hin gífurlega verðhækkun kæmi í ljós. Það væri gaman að fá upplýsingar um, hvort það væri rétt, að kolin í Keflavík væru nú seld á 450 krónur tonnið, en voru áður 240 krónur.

Ég álít, að fyrst Ed. sýndi lit á því að taka sönsum um eina gr. í þessu máli, þá sé það fyrir neðan virðingu þessarar d. að skilja svo við þetta frv., að ekki sé reynt að bæta eitthvað ofurlítið úr þeim göllum, sem mundu verða til að stöðva útveginn. Ég ætla ekki að koma með neina brtt. um aðalatriði frv. Þar erum við búnir að bera fram svo margar brtt., Sósfl. og Alþfl., að það væri ekki nema orðaleikur að bera þær aftur fram nú, þannig að það teldust ekki sömu till. og gætu þannig komizt að samkv. þingsköpum. En ég ætla að freista, hvort hægt er að fá samþ.brtt., sem mundi að öllum líkindum valda því, að togaraútgerðin og bátaútvegurinn gætu haldið áfram. Það er í fyrsta lagi, að við 11. gr. í frv., eins og það er nú, bætist svo hljóðandi málsgr., með leyfi hæstv. forseta: „Framleiðslugjald skal innheimta árlega fyrir næsta skattár á undan, en þó því aðeins, að hagnaður hafi orðið á rekstri viðkomandi togara umfram lögleyfðar afskriftir.“

Þetta er í fyrsta lagi ákaflega sanngjarnt mál, sanngjarnt þegar það er flutt fram sem rök fyrir þessu frv., að það sé gert til að bjarga sjávarútveginum og hann gangi ekki með taprekstri, að það sé tryggt, að það gjald, sem lagt er á togaraútgerðina, sé ekki lagt á, nema þegar ekki er um taprekstur að ræða. Ég hef áður vakið eftirtekt á því, hvaða þýðingu það hefði fyrir bátaútgerðina í landinu, að þetta gjald sé ekki innheimt. Það er beinlínis árás á þær útgerðir, sem menn af litlum efnum hafa verið að koma sér upp út um land, að samþ. þetta 10% gjald, og einnig árás á bátaútgerðina og togaraútgerðina í Reykjavík. Ég veit, að bæjarútgerðin í Reykjavík hefur sent þm. Reykv. svo hljóðandi skeyti út af þessari gr., sem ég vil lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef 10% framleiðslutollurinn í 11. gr. frumvarpsins um gengisskráningu verður samþykktur þannig að hann sé tekinn af taprekstri, þá álitum við, að slíkur tollur gæti stöðvað rekstur. Skorum því á yður sem þingmann Reykjavíkur, að þér sjáið um, að frumvarpinu verði breytt þannig, að ekki komi til innheimtu á honum, ef um taprekstur er að ræða.

Bæjarútgerð Reykjavíkur.“

Og svo framarlega sem bæjarútgerðin í Reykjavík kemur út með tapi, þá veit maður, hvernig bláfátæk bæjarfélög standa. Það er því bein árás á viðleitni fólksins að reyna að skapa góð atvinnutæki að samþ. þetta 10% gjald, svo framarlega sem það á að innheimtast af taprekstri, og það væri óréttmætt að gera það, þó að bæjarfélögin hefðu þessi 10% í ágóða. Bæjarfélögin úti um land standa ekki svo vel í þeirri kreppu og atvinnuleysi, sem yfirvöldin í Reykjavík eru að skipuleggja á fólkið, að þeim veiti af þessu. Ég vil vara Alþingi við því hvað snertir áhrifin út á við að samþ. svona gjald. Við vitum vel, að við höfum verið að berjast árum saman fyrir að fá afnuminn 10% toll, ranglátan, svívirðilegan toll, sem lagður hefur verið á fiskinn í Englandi. Hver eru okkar rök fyrir að flytja það fram við brezku ríkisstj. að létta þessum tolli af okkur, svo framarlega sem ríkið, sjálft íslenzka ríkið leggur 10% toll á fiskinn, sem hér er lagður á land? Þá erum við að gera það sama og við kvörtum yfir, að brezka stjórnin geri. Ef við samþ. þetta 10% gjald, þá er það uppörvun til fleiri þjóða að fara að dæmi Englendinga í þessu efni. Þess vegna væri sóknin erfiðari út á við um að fá slíkan toll afnuminn, ef við leggjum á það gjald, sem hér er um að ræða. En þar sem ég hef áður komið með brtt. um að afnema hann, þá treysti ég mér ekki til að flytja hana nú, svo að hún gæti skoðazt lögleg, og tek ég þess vegna þessa till. til að freista samkvæmt áskorun bæjarútgerðarinnar, sem ég þykist vita, að fleiri hv. þm. hafi fengið, hvort er hægt að fá hana fram.

Ég vil minna á, að við 3. umr. var fellt ákvæði um 93 aura lágmarksverð á fiski bátaútvegsins. Það er sama verð og hagfræðingarnir gengu út frá að bátaútvegurinn þyrfti að fá. Ég álít nauðsynlegt, að Alþingi gangi svo frá þessum málum og ríkisstj. á eftir, og henni ber skylda til þess, að setja lágmarksverð á fiskinn til hraðfrystihúsanna og til söltunar, til að bátaútvegurinn geti haldið áfram að ganga. Með þeirri samþykkt, sem meiri hl. Alþingis hefur gert, er fiskábyrgðinni kippt burt, og þar með er bátaútgerðinni kastað út í öryggisleysi og arðrán. Ríkisstj. verður að fá vald til að setja lágmarksverð á fiskinn. Þess vegna legg ég til, að eftir 11. gr. komi ný grein, svo hljóðandi: „Eftir gildistöku þessara laga skal ríkisstjórnin ákveða með auglýsingu lágmarksverð á fiski bátaútvegsins.“ Það er það mikil hefð um, hvernig slíkt skuli framkvæmt, að það þarf ekki að taka það fram. Það er 3–4 ára hefð, hvernig það er gert, svo að það er ekki nauðsynlegt að taka það fram.

Þá vil ég flytja eina litla brtt., sem er nánast leiðrétting, að síðasta málsgr. 6. gr. breytist svo, að í stað orðanna „31. janúar 1950“ komi: 19. marz 1950. Ég hef áður lagt til, að þessi málsgr. félli niður, svo að ég ber hana ekki fram aftur. Ég vil, að í staðinn fyrir 31. jan. komi 17. marz, en samkv. frv., eins og það er nú, mundu engin verkalýðsfélög, sem hefðu samið eftir 31. jan. 1950, fá rétt til þeirrar uppbótar, sem um er rætt í þessum l. Verkalýðsfélögin hafa haldið áfram sinni venjulegu starfsemi, þó að búið sé að segja upp. Verkamenn og atvinnurekendur hafa samið. Það verður að miða við, að þeir, sem hafa samið fyrir 17. marz eða 18. marz, skuli verða þessara hlunninda aðnjótandi, sem þar er um að ræða. Ég þykist vita, að Benjamín Eiríksson muni hafa gengið frá frv. 1. febrúar. Ég álít, að Alþingi þurfi ekki að vera svo svínbeygt undir skrifstofumenn amerískra banka, að það þurfi að teljast óhæfa, þó að þetta pennafeil sé leiðrétt. Ég held, að okkur sé alveg óhætt að leiðrétta þetta og setja þarna 17. eða 18. marz og láta þau verkalýðsfélög, sem hafa samið á þessum tíma, fá sama rétt og aðrir. Það er ómögulegt að straffa verkalýðsfélögum, þó að þau viti ekki, hvað Benjamín Eiríksson hugsaði 1. febrúar. Ég vona sem sagt, að d. vilji með góðu samþ. þessar brtt. Ég legg mest upp úr þeim, sem ég nefndi fyrst. Hins vegar skil ég ekki í öðru en d. vilji a.m.k. samþ. þá síðustu.