18.03.1950
Neðri deild: 70. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Það eru aðeins örfá orð. Ég vildi leyfa mér að mælast til þess og tala þar í umboði allrar ríkisstj., að samþ. yrði 1. brtt. hv. 2. þm. Reykv. (EOI) á þskj. 467, þ. e. í stað orðanna „1. janúar 1950“ komi: 17. marz 1950. Hann færði sjálfur réttar ástæður fyrir því, að þessi breyt. yrði gerð. Hann var með nokkurn smávægilegan skæting, en það var rétt hjá honum, að það kunna að vera félög, sem hafa samið um kauphækkun frá áramótum og til þess tíma, og náttúrlega væri ekki eðlilegt að svipta þau félög rétti til kauphækkunar, enda viðurkenni ég fúslega, að þetta var rætt í ríkisstj., og það var mín yfirsjón að hafa ekki sjálfur munað eftir þessu, því að ég man vel, að ég beitti mér gegn því, að ákvæðið yrði öðruvísi, en það er í frv., og var ástæðan sú, að ég áleit, að strax og frv. væri lagt fram, gæfi það félögunum visst aðhald um að vera ekki að fara fram á kauphækkun, en ég gat þess við hagfræðingana, að ef engar kauphækkanir hefðu orðið, mætti á síðustu stundu breyta ákvæðunum þannig, að þau, næðu fram á þennan dag.

Ég ætla ekki nú við þessa umr. frekar en áður að taka upp deilur við andstæðinga frv. um einstök atriði. Ég hef lagt mikla áherzlu á, að þetta mál gæti haft sem skjótastan gang gegnum þingið. Við erum allir svo mælskir, að ef við förum að deila á annað borð um það, sem á milli ber, mætti það æra óstöðugan. Ég vil þó aðeins út af ræðu hv. 3. landsk. (GÞG) segja það, að það er ekki rétt hjá honum, ef hann hyggur, að fyrri brtt. hafi ekki verið hugsuð eða rædd af hagfræðingum ríkisstj. og henni sjálfri. En hagfræðingar okkar lögðu, mjög mikla áherzlu á, að það yrði nokkurt tímabil þarna, sem þetta gæti leitað jafnvægis, eins og þeir komust að orði, og voru þess vegna á öðru máli en hv. þm. um áhrif slíkrar breyt., sem hann ber fram, á höfuðtilgang málsins. Ég tel mig ekki vera mann til þess að staðhæfa meira í þeim efnum, en kom fram í umræðunum milli mín og annarra ráðh. og hagfræðinganna, en skýri aðeins frá þessu. Ég get vel játað, að ég og við allir höfðum vissa löngun til þess að aðhyllast brtt. eins og þessa, en höfum þó ekki þorað út á þá braut. Það væri að mörgu leyti sanngjarnt að gera þetta, að þau félög, sem hafa lægra kaup, fengju leyfi til að hækka eitthvað sitt kaup, án þess að þau misstu þau fríðindi, sem 7. gr. frv. mælir fyrir um. En ég veit líka, að hv. þm. skilur það, að ríkisstj., sem ber fram þetta frv. til þess að reyna að lagfæra það, sem úr skorðum hefur gengið vegna hins ógiftusamlega kapphlaups milli kaupgjalds og afurðaverðs í landinu, hún hikar við að bera sjálf fram framt að því fyrirmæli um kauphækkun, því að ef þessi till. væri samþ., — og ég viðurkenni, að ég hef vissa löngun til þess og við allir ráðh. að gera það, þó að við höfum ekki viljað fallast á það að athuguðu máli, — þýddi það í raun og veru sama og fyrirmæli um kauphækkun. Það kann að vera, að á einum af þessum stöðum, sem um er að ræða, væru menn svo sanngjarnir, að þrátt fyrir þessa bendingu frá löggjafarvaldinu um kauphækkun hækkuðu þeir samt sem áður ekki kaupið. En almenna reglan yrði sú, að öll þessi félög mundu neyta réttar síns, og ég mundi ekki þora að taka á mig ábyrgðina af því að gerast þess hvetjandi, að almenningur í landinu hækki sitt kaup vegna ákvæða þessa frv. Það er bjargföst sannfæring okkar í ríkisstj., að ef þetta frv. fær ekki að meginefni staðizt dóm reynslunnar, blasi hrein ógæfa við. Eina meginhættan, sem vofir yfir frv., er sú, að kauphækkanir í landinu stöðvist ekki. Og ég veit, að þeir, sem skoða þetta með sanngirni, skilja, að þrátt fyrir visst réttmæti þeirra óska, sem þarna eru fram bornar, er þess varla að vænta, að ríkisstj., sem tekur á sig þá ábyrgð að framkvæma þetta mál, þori að eiga nokkurn hlut í því að hrinda skriðunni á stað. Ég hef áður átt þátttöku í ríkisstj., sem leyfði kaupbreytingu til samræmingar. Það gekk mikið úr skorðum hjá þeirri ríkisstj. vegna kauphækkana til samræmingar og lagfæringar, og þeirri stjórn, sem tók við á eftir, mistókst kannske í enn ríkari mæli, en minni stjórn að stöðva í þessum efnum. Mig brestur þess vegna kjark til þess að fylgja þessari till., því að ég tel, að með henni væri frv. stefnt í nokkurn vanda, svo að þótt ég, eins og ég áður sagði, hefði haft víssa löngun til að fylgja henni, sé ég mér ekki annað fært en að beita mér gegn henni.