18.03.1950
Neðri deild: 70. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Finnur Jónsson:

Ég held, að atvmrh. mikli fyrir sér þá áhættu um almenna kauphækkun í landinu, sem yrði því samfara að samþ. till. okkar þremenninganna. Hér er aðeins um að ræða kauphækkun til þess að ná meðaltali þess kaupgjalds, sem greitt er í öllum verkalýðsfélögum á landinu, og upp fyrir það gæti það ekki farið, nema viðkomandi félög misstu þá rétt til uppbóta. Þegar nýsköpunarstjórnin samþykkti kauphækkanir til lagfæringar og samræmingar, þá var um annað að ræða, en í brtt. okkar. Í henni er þetta allt miklu bundnara. Í sambandi við þetta mál vil ég geta þess, út af því, að oft er talað um léleg störf og lítinn árangur af vinnu okkar þm., að ef borin eru saman frv. frá utanþingsmönnum, sem sérfræðingar eru kallaðir, og frv. samin af þm., þá held ég, að samanburðurinn verði þm. mjög í hag, því að t.d. eru á þessu frv. frá hagfræðingunum ýmsir gallar, sem hæpið er, að þingvanir menn létu frá sér, m.a. 2. gr., sem hæstv. ríkisstj. hefur nú fallizt á að nema burtu. Ég hygg, að engum þingvönum manni hefði dulizt það, að alþýða manna mundi aldrei sætta sig við það, að ríkisstj. og Landsbankinn yrðu einhvers konar gerðardómur í kaupgjaldsmálum, eins og til var stefnt með frv., og þar sem kunnugt er, hve verkalýðsfélögin veittu gerðardómslögunum harða mótspyrnu, þá er alveg furðulegt, að slík till. skuli nú koma fram á Alþingi. Á þetta var bent við 2. umr., og lögðu þm. Alþfl. fram brtt. um að fella 2. gr. niður. Hæstv. ríkisstj. hefur nú tekið þessa till. upp, og ber að fagna því. Eins og hv. 3. landsk. þm. gat um, hafa margar tilraunir verið gerðar til þess að reyna að bæta frv., eins og vel mætti gera, en í sambandi við það, sem rætt var hér, t.d. lágmarksverð á fiski til bátaútvegsins, bæði af hv. 2. þm. Reykv., hv. 3. landsk. og hæstv. viðskmrh., má benda á, að hæstv. ríkisstj. getur í þessu sýnt trú sína á mætti þessa frv. með því að ákveða lágmarksverð á fiski til bátaútvegsins skv. heimild í l. um útflutning á íslenzkum afurðum. Ég minnist þess ekki, að breytt hafi verið því ákvæði, sem sett var á stríðsárunum, að til þess að mega flytja út vöru þurfi leyfi ríkisstj. eða stofnana, sem starfa undir henni, og ríkisstj. getur sett hvaða skilyrði sem er fyrir því. Þessi heimild hefur oft verið notuð, svo að samkv. lögum og venju gæti hæstv. ríkisstj. sett það skilyrði fyrir útflutningi, að ákveðið lágmarksverð á fiski yrði til bátaútvegsins. Ef þetta ákvæði er enn í gildi, sem ég held áreiðanlega, þá er einfalt fyrir hæstv. ríkisstj., ef hún fær þetta frv. samþ., að nota sér þessa heimild og setja lágmarksverð á bátafiski sem skilyrði fyrir útflutningsleyfi skv. þeim útreikningi, sem í frv. hæstv. ríkisstj. er. Geri hún þetta ekki, þá ber það ekki vott um, að hún trúi á það, að eftir að frv. verði samþ., þá verði hægt að fá 93 aura fyrir bátaflskinn. — Ég skal nú ekki vera langorður, en vildi með örfáum orðum gera grein fyrir brtt., sem ég ætla að flytja við 11. gr., sem síðustu tilraun til þess að sníða ágalla af frv. Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá hefur verið alger aflabrestur á síldveiðum fyrir Norðurlandi í 5 vertíðir, svo að bátaflotinn hefur verið rekinn með miklum halla, en skipverjar á síld fyrir norðan varla verið matvinnungar og margir þeirra, er þar voru á síld s.l. sumar, ekki fengið greidda kauptryggingu fyrir vinnu sína. Í þessum rekstri hefur því verið um hreint hallærissstand að ræða í 5 ár, en þó á skv. frv. að taka 8% framleiðslugjald af síldarafurðum á næsta sumri. Af öllu því fáránlega í þessu frv. er þetta það fáránlegasta, að ætlast til, að síldarútvegurinn geti borgað 8% framleiðslugjald eftir 5 ára hallæri. Að vísu er gert ráð fyrir því, að ef sumaraflinn verði minni en 6.000 mál að meðaltali, þá sé ríkisstj. heimílt að hækka gjaldið, en ef hann verður undir 4.000 mál að meðaltali, þá að fella gjaldið niður. En með frv. er gert ráð fyrir því í öllum tilfellum að byrja að innheimta gjaldið. Það á að sýna sig, hvort ekki sé hægt að kroppa eitthvað af þeim atvinnuvegi, sem rekinn hefur verið með stórtapi í 5 sumur, svo að þar hefur verið beinlínis um hallæri að ræða. Það má segja, að ef einhverjir nýir aðilar fari á stað með síldveiðar, þá megi með nokkurri sanngirni taka eitthvert gjald af þeim, ef vel veiðist. Hitt nær engri átt, að taka 8% gjald af atvinnurekstri, sem er eins á vegi staddur og bátaútvegurinn, sem stundað hefur síldveiðar, er nú. Ég vil því freista þess á síðustu stundu að fá þessi óréttlátu ákvæði niður felld, með því að leggja til, að þeir, sem stundað hafa síldveiðar með tapi 3 ár eða lengur, þurfi ekki að greiða þetta gjald. Ég leyfi mér því að flytja svo hljóðandi brtt. við 11. gr., 4. málslið:

„Á eftir orðunum „Ef afli er minni en 4.000 mál pr. skipshöfn að meðaltali, er ríkisstjórninni heimílt að fella það niður“ komi: Eigi skal framleiðslugjald innheimt af síldarafla veiðiskipa útgerðarmanna þeirra, er stundað hafa síldveiðar fyrir Norðurlandi s.l. þrjú ár eða lengur, né heldur af aflahlut skipverja þeirra, er ráðnir hafa verið á síldarskip sama tíma.“