07.02.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1558 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

Minning látinna fyrrv. þingmanna

forseti (StgrSt):

Háttv. alþm. Klukkan tíu í morgun andaðist að heimili sínu hér í bænum gagnmerkur maður og fyrrv. þingmaður, Jóhannes Jóhannesson fyrrum bæjarfógeti, 84 ára að aldri.

Jóhannes Jóhannesson fæddist 17. janúar 1866 í Hjarðarholti í Stafholtstungum, sonur Jóhannesar sýslumanns Guðmundssonar og konu hans, Marenar Lárusdóttur sýslumanns Thorarensens í Enni. Hann lauk stúdentsprófi í Reykjavík 1886 og lagaprófi í Kaupmannahöfn 5 árum síðar, 1891. Að loknu því prófi gerðist hann aðstoðarmaður í stjórnarráði Íslands í Kaupmannahöfn og gegndi því starfi í rúm þrjú ár. Næstu 3 ár þar á eftir var hann settur sýslumaður í Húnavatnssýslu, en 1897 var hann skipaður sýslumaður í Norður-Múlasýslu og bæjarfógeti á Seyðisfirði og hafði það embætti á hendi í 21 ár. 1918 var honum veitt bæjarfógetaembættið í Reykjavík, og því embætti gegndi hann, þar til það var lagt niður frá árslokum 1928. Hann átti sæti á Alþingi sem þingmaður Norðmýlinga 1901–1913 og sem þingmaður Seyðfirðinga 1916–31 og var forseti sameinaðs Alþingis 1918–21 og 1924–26.

Auk þessa hafði hann á hendi fjölmörg trúnaðarstörf í þarfir alþjóðar. Hann var forseti amtráðs Austuramtsins 1904–07, átti sæti í samninganefnd við Dani 1907–08 og 1918, í dansk-íslenzkri ráðgjafarnefnd 1918–35, í bankaráði Landsbankans 1927–36 og mörg ár í orðunefnd. Hann var formaður undirbúningsnefndar alþingishátíðar 1930, kosinn 1926.

Með Jóhannesi bæjarfógeta er til moldar hniginn einn hinna minnisstæðustu embættismanna landsins. Öll hin umsvifamiklu störf, er hann hafði á hendi, rækti hann með röggsemi, var greiður og reglusamur í embættisrekstri, glöggskyggn á kjarna hvers máls og mannúðlegur við alþýðu manna. Var sérstaklega orð á því gert, hve góður dómari hann þótti og réttlátur. Á Alþingi lét hann ekki mjög til sín taka sem ræðumaður í þingsal, en var hins vegar drjúgvirkur og tillögugóður í þingnefndum. Hann var hverjum manni fríðari og glæsilegri, prúður og háttvís í framgöngu og gat sér því hvarvetna miklar vinsældir.

Ég vil biðja hv. þingmenn að votta minningu þessa sæmdarmanns virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]