08.12.1949
Efri deild: 9. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

53. mál, eignakönnun

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég get vel skilið það, að einhverjum mönnum, þó ekki hæstv. fjmrh. fyrrv., þyki sárt, að þeir, sem mest hafa svikið undan, skuli nú lenda í skattinum samkvæmt 17. gr., og vilji nú draga úr honum með því að túlka gr. eins og gert er með þessari lagabreyt. En hann gleymir því, að þessum mönnum var gefinn kostur á að fá ríkisskuldabréf og koma sér undan þessum skatti. Það gátu þeir gert, ef þeir hefðu viljað. Þeir gerðu það ekki allir, heldur vonuðu, að þeir gætu svindlað sér í gegn öðruvísi. Þess vegna skil ég ekki, eins og fjárhag ríkisins er komið, þó að menn vorkenni þessum mönnum, sem mest hafa svikið undan skatti, að greiða þennan skatt, sem þeir eiga nú að greiða, þegar farið er að framkvæma l., — þá skil ég ekki, þegar fjárhagsástæður ríkissjóðs eru eins og þær eru, að það skuli nú eiga að fara að vilna þessum mönnum í. Ég mun ekki vera með þessu frv. Og það er engin þörf að breyta þessari gr. til að gera ljóst, við hvaða skatt þar er átt. Það er verið að tala um tekjuskatt í gr., og það er augljóst, að það er átt við hann. En ef það þykir ekki nógu skýrt, þá er hægt að setja orðið „tekjuskatti“ í stað orðsins „skatti“ í gr. Þá er hún auðskilin. En eftir fyrri hluta 17. gr. liggur ljóst fyrir, að skatturinn er tekjuskattur, sem átt er við, en ekki eignarskattur. Ég trúi því ekki, fyrr en ég tek á, að fjhn. þessarar d. og hv. þm. sjái ástæðu til þess, eins og málið horfir nú við, að gefa eftir verulegan hluta af þessum skatti, eins og ætlazt er til í þessum l. Þeir, sem ekki keyptu sér aflátsbréf, eru ekki of góðir til að borga, og þeir eiga að gera það.