24.02.1950
Efri deild: 60. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

53. mál, eignakönnun

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Út af ummælum hv. 1. þm. N-M. (PZ) vildi ég taka fram varðandi þau sérákvæði, sem í lögum gilda um eignaraukningu fyrir 1. jan. 1940, að þá hafa engin sérákvæði verið sett inn í þetta frv. um þetta. Það kann að vera rétt hjá þessum hv. þm., að þetta séu upphæðir, sem máli skipta, en ég held þó ekki. Það er framteljandans að sanna, að eignaraukningin hafi orðið til fyrir 1940, og ef það reynist, fer um hana eftir fyrri dögum.

Hvað snertir hér ræðu hv. þm. Barð. (GJ), þá er það að vísu rétt, að víða er búið að reikna út skattinn utan Reykjavíkur með 15%, og vissulegs er heldur leiðinlegt að koma með eftirreikninga. Hins vegar er að áliti nm. andstætt tilgangi laganna að fella niður skatthækkun við 45 þús. kr. mark. Mismunandi skoðana gætti um það, hve hátt ætti að fara í þessu, en niðurstaðan var sú, sem þskj. 350 ber með sér. Og þegar litið er á, hve skattstigi okkar er hár, verð ég að segja, að þetta sé ívilnun til skattgreiðenda miðað við ákvæði tekjuskattslaganna, því að menn þurfa ekki að hafa háar tekjur til að komast upp í 15% skatti. Hér er um bein fríðindi til skattgreiðenda að ræða, er ég hræddur um, og það er þeirra að sanna, hvenær tekju- eða eignaraukningin hefur orðið til.

Ég tek því ekki undir orð hv. þm. Barð. um að láta 15% skattinn haldast og breyta ekki því ákvæði, en um það er þó hægt að flytja brtt. við 3. umr., ef svo vill verkast.