09.01.1950
Neðri deild: 24. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1559 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

Slysfarir á sjó - minning

forseti (SB):

Enn hefur stórt skarð verið höggvið í raðir íslenzkrar sjómannastéttar. S. l. laugardag fórst vélskipið Helgi frá Vestmannaeyjum utan við mynni heimahafnar sinnar. Með honum fórst skipshöfn hans öll, 7 vaskir menn, og 3 farþegar, samtals 10 menn. Með þessu hörmulega slysi er ekki aðeins sár harmur kveðinn að Vestmannaeyingum, sem horfðu á atburðinn gerast við bæjarvegg sinn, öll hin íslenzka þjóð tregar hina látnu sjómenn og vottar ástvinum þeirra og byggðarlagi einlæga samhryggð sína.

Drottinn gefi dánum ró, hinum líkn, er lifa.

Vér vottum hinum látnu sjómönnum og öðrum, er þarna létu lífið, virðingu vora. Ég vil biðja háttv. alþingismenn að láta í ljós virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]