28.02.1950
Efri deild: 65. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

53. mál, eignakönnun

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef borið fram brtt. á þskj. 369 um breyt. á prósentupphæðinni frá því, sem reiknað er með í till. fjhn. Eins og frv. fyrst kom fram, var gert ráð fyrir 15% skatti af eignarauka fram yfir 45 þús. kr., en það er sú prósenttala, sem ég miða við í brtt. mínum. Í aths. við frv. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þriðja sjónarmiðið var að skipta umframeigninni jafnt niður á fimm ár, í líkingu við ákvæði 10. gr. laga nr. 20 20. maí 1942, og bæta henni við skattskyldar tekjur og eignir áranna 1942–1946, að báðum árunum meðtöldum. Þó þykir eðlilegt, að skattur af þeirri upphæð verði ekki undir 15% að meðaltali, þar sem greiða skal þann hundraðshluta af 35–45 þús. kr. undandreginni eign. Þessa síðastnefndu leið hefur framtalsnefnd valið með samþykki fjmrn. og úrskurðað skatt samkvæmt þeim skilningi, þar sem þessi tilvík hafa komið fyrir. En með því að þessi óvissa hefur verið um skilning á umræddri lagagrein og margs konar óþægindi, málaferli, kostnaður og tafir gætu hlotizt af, bæði fyrir ríkissjóð og einstaklinga, ef gleggri skýringarákvæði yrðu ekki sett, þykir rétt, að ~sá skilningur, sem framtalsnefndin hefur til þessa farið eftir, verði lögfestur.“

Hér er því um samkomulag að ræða milli framtalsnefndarinnar og fjmrn., sem n. hefur algerlega rofið. Nú er þetta frv. borið fram til að fá þennan skilning, sem ákveðinn er í frv., lögfestan, og því alveg furðulegt, að fjhn. skuli fara að bylta ákvæðum, sem samkomulag hefur náðst um. Ég hef ekki heldur heyrt nein rök, sem mæla með þessari breyt., og vil því leyfa mér að bera fram brtt. þá, sem birt er á þskj. 369, og halda með því áður gerðu samkomulagi í þessu máli. Ég vænti því, að alþm. styðji brtt. mína og málið fái með því þá lausn, sem gert var ráð fyrir í upphafi.