01.02.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1560 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

Slysfarir á sjó - minning

forseti (StgrSt):

Nú er skammt voveiflegra tíðinda og stórra högga milli. Fyrir rúmum þremur vikum, eða 7. janúar, fórst vélbáturinn Helgi við hafnarmynni Vestmannaeyja með allri áhöfn — 10 vöskum mönnum. — Síðastliðið sunnudagskvöld varð annað stórslys alllangt út af Vestmannaeyjum, þegar botnvörpungurinn Vörður frá Patreksfirði fórst í rúmsjó á leið til Englands með fiskfarm. Af áhöfn Varðar — 19 manns — var 14 bjargað af botnvörpungnum Bjarna Ólafssyni. Mun þar hafa verið unnið eitthvert mesta björgunarafrek á sjó, — en 5 af skipverjum drukknuðu. Slík tíðindi vekja alltaf sorg og söknuð í brjósti allra Íslendinga. Hér fórust 5 úrvalsmenn úr hinni djörfu og dáðríku sjómannastétt þjóðar vorrar, menn, er voru að gegna skyldustörfum fyrir ættjörð sína. — Fjórir af þessum ágætu sonum þjóðarinnar voru frá Patreksfirði og einn úr næstu sveit við Patreksfjörð. Tapið er því mest og sárast fyrir þessi byggðarlög á allan hátt. Vér sendum þessum sveitum og öllum íbúum þeirra hlýjar hluttekningarkveðjur. Öllum aðstandendum hinna föllnu sjómanna vottum vér dýpstu samúð. Þótt ekkert geti bætt þeim harm þeirra og tap, er þó ávallt huggun að vita, að ástvinirnir hafa fallið sem hetjur og hafa staðið á verði til hinztu stundar fyrir land sitt og þjóð.

Ég bið alla háttvirta alþingismenn að rísa úr sætum og með því heiðra minningu hinna látnu sjómanna — um leið og vér vottum öllum, sem hlut eiga að máli, dýpstu samúð vora og hluttekningu. — [Þingmenn risu úr sætum.]