28.02.1950
Efri deild: 65. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

53. mál, eignakönnun

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Forseti. Hæstv. forseti, sem er form. fjhn., hefur nú drepið á nokkuð af því, sem ég vildi sagt hafa viðvíkjandi ræðu hæstv. ráðh., svo að ég get stytt mál mitt nokkuð.

Á þskj. 372 flytur hv. 1. þm. N-M. (PZ) brtt. um, að ákvæði frv. skuli einnig gilda um eignarauka, sem hefur orðið til fyrir 1. jan. 1940, en þó þannig, að sannist ekki, hvaða ár tekjuundandrátturinn, sem myndað hefur eignaraukann, hefur átt sér stað, skuli skipta honum á árin 1936–40. Ég hefði nú haldið, að slík brtt. væri ekki nauðsynleg, því að í fyrsta lagi eru litlar líkur til, að um slík tilfelli sé að ræða, og í öðru lagi vegna þess, að þótt um slíkt væri að ræða, mætti „analogisera“ það undir tímabilið eftir 1940. Svo virðist og, að hæstv. ríkisstj. hafi verið sama sinnis og gert ráð fyrir þessu í upprunalega frv. En ég fæ ekki séð, að það breyti miklu, þótt þessi till. verði samþ., og get því vel greitt henni atkv.

Um brtt. hv. þm. Barð. (GJ) á þskj. 369, sem kveður á um að halda skattprósentunni hinni sömu, hefur verið nokkuð rætt, og get ég vísað í því efni til þess, sem ég sagði við 2. umr. málsins. Uppástungur hv. þm., sem fram koma í þessari brtt., eru á misskilningi byggðar, og vænti ég þess, að hann leiðrétti þetta, eftir að hafa hlýtt á ræðu hæstv. forseta áðan, sem sýndi, að hér er ekki um að ræða neina refsingu. Hins vegar vil ég undirstrika það, sem kom fram í ræðu hæstv. forseta, að það er fjarri öllu lagi að telja hæstv. ráðh. og framtalsnefndina geta gert eitthvert samkomulag, sem Alþingi ætlaði nú að rjúfa. Gleggsta sönnun þess er ræða hæstv. atvmrh. áðan, en hann hefur sem kunnugt er lengst af verið fjmrh. Hann segist hafa lagt frv. fyrir hv. Nd. í fyrra, en hún hafi fellt það, og þess vegna sé það flutt nú. Þetta er viðurkenning hæstv. ráðh. á því, að hann getur ekki gert neitt bindandi samkomulag við framtalsnefnd, sem komi í stað laga eða breyti þeim. Það er því nauðsynlegt að hafa glöggt ákvæði um þetta í l., og er það reynt með þessu frv. Hv. Nd. er búin að fella þessi 15%, sem í frv. voru, og áleit markið of lágt, og það hefur þessi hv. d. einnig álitið með atkvgr. Mér virðist líka auðsætt, að þessi 15% séu hrein fjarstæða, því að með þeim er beinlínis verið að ívilna þeim, sem dregið hafa undan skatti. Samkv. skattal. frá 1942 skal hver maður, sem hefur yfir 14.000 kr. árstekjur, greiða 15% í skatt. En ef brtt. hv. þm. Barð. yrðu samþ., þá þýddi það, að allir þeir, sem dregið hafa undan skatti 45.000 kr. eða meira, ættu að fara í sama skattstiga og þeir, sem hafa 14.000 kr. árstekjur. Hvaða vit halda menn svo, að sé í þessu? Nei, það væri miklu nær, að í till. okkar sé allt of skammt gengið. Þegar komið er yfir 45.000 kr. tekjur, á maður eftir skattal. að greiða í tekjuskatt 21% og í stríðsgróðaskatt 3%, eða samtals 24%, en það er 9% hærra, en þetta frv. fór fram á. Hér hefði því beinlínis verið um að ræða að verðlauna menn fyrir að draga undan skatti. Það furðar mig því stórlega, að hv. þm. skuli leyfa sér að bera fram slíkar till. og hér er gert. Ég hygg, að það, sem helzt mætti finna till. n. til foráttu, væri það, að þær gengju of skammt. Hæstv. ráðh. lýsti því alveg réttilega í sinni ræðu, að það væri ekki meiningin eftir eignakönnunarl. að refsa mönnum, svo framarlega sem þeir teldu rétt fram við eignakönnunina. En það var heldur aldrei meiningin hjá löggjafanum að verðlauna þá, sem svíkja undan skatti, því að þá gæti orðið erfitt að framkvæma skattalögin svo, að nokkurt vit væri í. — Hæstv. ráðh. talaði um það klökkur, að margt gamalt fólk hefði haft tilhneigingu til að fela gamlar og gulnaðar sparisjóðsbækur sínar, til þess kannske að komast undan því að greiða skattinn. Ég hygg nú, að þetta frv. sé sízt til þess fallið að níðast á gömlu fólki, og ég er ekki viss um, að það sé stærsti liðurinn í þeirra augum, sem hallmæla því í núverandi mynd sinni. Þetta frv. gerir ráð fyrir skattskyldum eignarauka, sem nemur um 225.000 kr., og ég fæ ekki varizt þeirri hugsun, að hæstv. ráðh. hafi ekki gert sér rétta grein fyrir hinum gulnuðu sparisjóðsbókum gamla fólksins, þegar hann talar um, að það sé það, sem safnað hafi svona miklu fé. Mig furðar stórlega á því, að talað sé í svona tóntegundum, er verið er að ræða um þá, sem stolið hafa 225.000 kr. eða meiru undan skatti á fimm árum. Mér blöskrar, að málið skuli vera fært á þetta stig. Hæstv. ráðh. tók þannig til orða í ræðu sinni, að það virtist, að eignakönnunarlögin hefðu ekki komið verr við hina svonefndu ríku, en hina fátæku. Þetta þykir mér hörmuleg yfirlýsing af hendi þess fjmrh., sem með framkvæmd l. hefur farið. Ég fullyrði, að þetta var alls ekki ætlun löggjafans. En hitt skal játað, að framkvæmd l., sem þetta frv. er bundið við, hefur verið þannig, að þeir, sem dregið hafa undan skatti 225.000 kr. eða meira, hafa ekki orðið harðar úti, en þeir, sem hafa 14.000 kr. árstekjur, og er það mikil linkind við þá, sem sízt eiga hana skilið. Til þess að komast eftir þessu frv. í 20% skatt af eignaraukanum, þurfa menn að hafa safnað 225 þús. kr., og til þess að komast í 25% skattinn 300 þús., en þetta er 3% minna, en menn með 60 þús. kr. árstekjur þurfa að greiða í skatta eftir réttum skattalögum. Hér er því ekki um að ræða refsingu, heldur ívilnun, sem í og með er gerð til þess að rétta grundvöllinn undir framkvæmd skattalöggjafarinnar í framtíðinni.

Hæstv. ráðh. er nú farinn úr d., en mig hefði langað til að spyrja hann, hvort ekki yrði bráðlega farið að birta yfirlit yfir eignakönnunina, sérstaklega hvernig hún skiptist niður, bæði eftir landshlutum og á annan hátt. Þetta skiptir miklu máli fyrir grundvöllinn að skattalöggjöf okkar í framtíðinni, því að nú þegar er orðið nauðsynlegt að endurskoða hann.