28.02.1950
Efri deild: 65. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

53. mál, eignakönnun

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég tók það skýrt fram við 2. umr., að ég mundi ekki ræða neitt verulega, hvort rétt væri að hækka skattinn vegna skattsvika eða l. sjálfra. Nú hefur hv. frsm. fjhn. farið inn á að ræða þetta atriði, og skal ekki standa á mér að ræða það, en ég vil taka það fram, að á bak við mínar till. lá allt annað en þetta. En það, sem kemur hv. þm. til að fara inn á þetta, er hans fyrri og auðheyranlega núverandi endemisstefna í skattamálum. Samkvæmt henni er það og víst, að skattalögin hefðu fengið annan og verri svip, ef hans stefna hefði fengið að ráða, er þau voru sett.

Hæstv. forseti sagðist ekki lengur geta orða bundizt yfir þeim misskilningi, sem fram hefði komið í sambandi við þetta mál. En ég vil lýsa því yfir, að hjá mér er ekki um neinn misskilning að ræða. Ég tók skýrt fram, að ég teldi óeðlilegt og óheppilegt að raska skattalögunum, eins og nú hefur verið samþ. í þessari hv. deild. Hæstv. forseti og hv. frsm. hafa báðir lagt á það ríka áherzlu, að ráðh. og framtalsn. hefðu ekki löggjafarvald, og er það auðvitað alveg rétt. En vita þeir ekki, að mjög oft fer einmitt löggjafarsamkoman eftir tillögum slíkra manna sem þessara, er hafa til að bera mikla þekkingu á þessum málum? Ég skal benda á eitt dæmi af mörgum. Um daginn var til umr. í Sþ. þáltill. um að yfirtaka læknisbústaðinn á Reykhólum. Það var þá talin goðgá að senda till. ekki til umsagnar landlæknis, og var það auðvitað gert. Er það þá nokkur goðgá að senda þetta frv. til umsagnar framtalsn. og fara síðan eftir till. hennar í þessu máli, en í henni eiga sæti menn, sem hafa kynnt sér málin til hlítar og þekkja þetta miklu betur, en báðir hv. síðustu ræðumenn til samans? Nei, sannleikurinn er sá, að ef ekki á að samþykkja frv. eins og það kom frá hæstv. ráðh., þá er miklu betra að fella það. Hv. frsm. talaði um, að Nd. hefði fellt málið í fyrra. Hæstv. ráðh. upplýsti nú, hvers vegna það hefði verið gert, eða vegna lítillar athugunar á málinu. Og nú verð ég að spyrja, hvort hv. fjhn. hefur rætt þessa hækkun við framtalsnefndarmennina og hvort þeir hafa þar verið hv. n. sammála. Ef svo hefur ekki verið, þá finnst mér það vera mjög undarlegt og vildi þá fara fram á það við hæstv. forseta, að hann frestaði umr. og hv. fjhn. ræddi við framtalsnefndina um málið, því að með allri virðingu fyrir þekkingu þeirra tveggja hv. þm., sem töluðu hér næst á undan mér, á skattamálum, þá held ég, að framtalsnefndin hafi þar mun meiri þekkingu til að bera. Ég vænti því, að hæstv. forseti sjái sér fært að fresta umr. nú og hv. fjhn. ræði þetta mál við framtalsnefndina og athugi um leið, hvort framtalsn. þyki ekki mínar till. eðlilegar. Í sambandi við þetta þætti mér gaman að spyrja þessa tvo hv. þm., hvort þeim væri kunnugt um hið gífurlega misrétti, sem skattþegnarnir eru beittir, og þá baráttu, sem þeir þurfa að standa í til þess að fá rétt sinn. Það er alveg dæmalaust að hugsa sér það, að fyrir öll önnur mál fjárhagslegs eðlis en skattamál skuli vera tvö dómstig og þegnarnir hafa rétt til þess að verja sig með rökum og forsjá beztu manna bæði fyrir undirrétti og siðan hæstarétti. En þegar til skattamála tekur, er farið svo með hundruð þúsunda, að þegnarnir hafa þar engan rétt. Þar er það ríkisskattanefnd, sem er bæði undirréttur og hæstiréttur og hefur engar skyldur í þá átt að svara bréfum eða öðrum fyrirspurnum, sem til hennar berast viðvíkjandi hinum ýmsu málum, og svo þegar til úrskurðarins kemur, þá er hann látinn falla án nokkurra forsendna og án þess að menn hafi nokkurn rétt til að koma við vörnum. Ég þekki þetta sjálfur af eigin reynd, því að ég hef orðið að standa í málaferlum út af úrskurði ríkisskattan., en ómögulegt var að fá n. til að ræða málið né hlusta á rök, sem færð voru fram. Eftir að þetta hafði staðið yfir í fjögur ár, þá var með samþykki ríkisskattan. gengið inn á, að allt, sem hún hafði gert, hefði verið tóm vitleysa, svo að skakkaði um fleiri hundruð þúsund krónur á niðurstöðum. Það er sannarlega tímabært að lagfæra þessi mál, þannig að skattþegnarnir hafi einhvern rétt, svo að þeir geti varið sig, — rétt, sem ekki er til í dag. Það er engin furða, þó að menn kveinki sér, þegar verið er að setja taumlaus skattákvæði í skattal., þegar ástandið er þannig í skattamálunum. Hv. 1. þm. Eyf. (BSt) sagði, að skattþegninn ætti rétt á að sanna eignaraukninguna. Hann á það eftir l. eins og þau eru. (HG: Ekki eins og frv. er lagt fram frá stj. í byrjun.) Það er alveg vafasamt, og það er þess vegna, sem þetta er gert, hv. frsm., að það þótti vafasamt og þurfti að leita úrskurðar dómstólanna um það, hvernig ætti að skilja l. Hv. fjhn. og hv. frsm. hefur fundizt þetta of lágt í l., eins og þau voru frá fyrstu hendi, og þess vegna kemur fram hjá hv. frsm. tilhneiging til að taka allt, af því að hann fékk ekki tækifæri til þess, þegar þetta var samþ. hér á Alþ. Hefði hann átt sæti á Alþ., þegar l. voru sett, þá hefði hann viljað fara dýpra í vasa þessara manna, en gert var. Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að benda hv. þm. á það, að áður en eignakönnunarl. voru samþ., var barátta háð milli skattþegnanna annars vegar og ríkissjóðs hins vegar. Og hver varð undir í þeirri baráttu? Ríkissjóður varð undir í þeirri baráttu, þrátt fyrir það misrétti, sem skattþegnarnir eru beittir. Sannleikurinn er sá, að margir skattþegnar í þessu landi tóku sér rétt, sem þeir gátu ekki fengið öðruvísi. Þess vegna er gengið inn á það af meiri hl. Alþ. að gefa þessum mönnum tækifæri til að telja rétt fram. Það var viðurkenning þess, að skattal. væru röng og að leikurinn hafði tapazt, sem m.a. þessi hv. þm. hafði árum saman verið að gera sem hagkvæmastan fyrir ríkissjóð. Það er því ekki verið að verðlauna þessa menn hér né veikja skattal., eins og hv. þm. sagði. Það var gert þegar eignakönnunarl. voru samþ. Það var gert, svo að menn gætu staðið undir þeim byrðum, sem á þá voru lagðar, svo að t.d. tryggingarnar yrðu ekki að taka við fólkinu og til þess að ekki yrði atvinnuleysi í þessu landi. Þetta hefur hv. 4. þm. Reykv. ekki viljað skilja. En lífið kenndi þeim mönnum, sem hér áttu hlut að máli, að það var búið að ganga svo langt, að það voru orðin föðurlandssvik að svíkja ekki undan skatti í þessu landi, af því að ómögulegt var að búa undir skattal. eins og þau voru. Það hlaut að skapast stórkostlegt hrun og atvinnuleysi, ef menn áttu að búa undir skattal. eins og þau voru, og þetta var viðurkennt með eignakönnunarl. Þetta veit hv. 4. þm. Reykv. Það er því ekkert frekar verið að verðlauna þessa menn nú en var þá, nema síður sé. Hitt er annað mál, að þrátt fyrir þetta hafa engin l. á Íslandi gert þjóðinni eins mikið tjón og l. um eignakönnunina. Þau kipptu í burt öllu jafnvægi út úr fjárhagskerfi Íslendinga, kipptu því gersamlega í burt, og það var allt vegna þess, að m.a. þessi hv. þm. hafði gengið allt of langt í ákvæðum skattal. undanfarin ár. Ég hafði ekki óskað neitt eftir því að ræða þessa hlið málsins, því að till. mínar voru ekki byggðar upp á því að breyta prósentupphæðinni, heldur allt öðru. En fyrst hv. 4. þm. Reykv. lagði til að heyra sannleikann í þessu máli, má hann sannarlega fá að heyra hann.

Ég skal nú rétt aðeins minnast á það til að friða hv. frsm. fjhn., af því að hann var að tala um, að hér væri ekki um það að ræða að skapa gamla fólkinu nein fríðindi né álögur, — getur hv. frsm. ekki hugsað sér það, að yfirlýsing hæstv. ráðh. muni vera eitthvað á rökum byggð, að framkvæmd eignakönnunarl. hafi snert meira þá fátæku en ríku, gæti hann ekki hugsað sér, að margir ríkir hefðu talið rétt fram og margir fátækir hefðu ekki talið rétt fram? Nei, hann getur ekki hugsað sér það, hann getur ekki hugsað sér, að efnaðir menn græði á neinu öðru, en að svíkja undan skatti.

Ég skal segja hv. 4. þm. Reykv. frá einu dæmi í sambandi við framkvæmd eignakönnunarl. Fjögur gamalmenni höfðu sameiginlegt bú, hjón og tvö önnur gamalmenni. Hið yngsta þeirra var komið undir áttrætt, og þau höfðu búið saman í 20 ár. Þegar eignakönnunin kom til framkvæmda, var öll eign þessara gamalmenna á nafni bóndans. Hann fékk því eignakönnunarskatt, sem hann hafði aldrei búizt við að fá og skildi ekki neitt í, að hann ætti að borga. Ég skal viðurkenna það til lofs framtalsn., að þetta var síðar tekið til greina og leiðrétt, og var viðurkennt, að svona ætti ekki að framkvæma þetta, en samkv. l. átti að gera það. Ég hugsa, að það sé alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að í mörgu,m tilfellum hafi þessi skattur lent á fólki, sem átti ekki miklar eignir. Hv. 4. þm. Reykv. spurði um það, hvaða vit væri í því að setja þessa menn í 14 þús. kr. skattstiga. Það er nákvæmlega sama vit í því og að gefa þessum mönnum fríðindi, þegar l. voru sett. Það var byggt á nákvæmlega sömu hugsun og þegar mönnum voru í eignakönnunarl. veitt fríðindi fyrir það að telja fram upp í 45 þús. kr., og þess vegna þarf enginn að furða sig á því, þó að þetta sé sett þannig fram nú. Ég sé svo ekki ástæðu til að halda frekar áfram þessum umr. nú, því að ég gaf engin tilefni til að ræða málið frá þessari hlið, en úr því að tveir hv. nm. óskuðu eftir því, vildi ég taka þetta fram.

Ég held till. mínum fast fram, m.a. vegna þess, að ég sé engan veginn, að rétt sé eða skynsamlegt að raska þeim úrskurði, sem var gerður á sínum tíma með samþykki ráðuneytis, sem hafði hvorki meira né minna en yfir 40 þm. bak við sig í þessu, og þess utan var gerður eftir till. frá þeim mönnum, sem mesta þekkingu höfðu á þessu máli. Ég tel mjög óheppilegt að raska þeim úrskurði, en hins vegar er ég ekki að bera fyrir brjósti þá menn, sem eiga að greiða það, sem hér um ræðir. Mér er nákvæmlega sama um þá einstaklinga. En ég tel, að það að breyta þessu sé heldur til að veikja það traust, sem almenningur á að bera til ríkisstj. og þessara stofnana og ekki hvað sízt til Alþ. Ég legg því til, að till. mínar verði samþ. Ég vænti þess, að hv. n. fallist á það og láti víkja til hliðar það sjónarmið að ná fé af þessum mönnum. Sú tilhneiging deyr ekki út hjá hv. 4. þm. Reykv. að ná inn sköttum af anönnum. Hún er honum í blóð borin og því útilokað að bólusetja gegn þeim sjúkdómi. Það en engin hætta á, að hann fái ekki tækifæri til að koma því annars staðar að, en í þessu frv., síður en svo. En það er varla sæmandi hv. fjhn. eða Alþ. að gera þær breyt., sem hér er lagt til að gera í sambandi við þetta mál.