01.03.1950
Efri deild: 66. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

53. mál, eignakönnun

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af brtt. 372. Mér virðist vera ósamræmi í þeirri brtt. eins og frv. liggur fyrir eftir 2. umr. á þskj. 365. Þar stendur í byrjun gr.: „Nú gerir skattgreiðandi ekki fulla grein fyrir“ o.s.frv., en í brtt.: „að sannist ekki ...“ Þetta er ekki fullkomið samræmi, og það sem verra er, að öll gr. .er skemmd með þessu. Svo er það sérstaklega seinast í brtt. 372, þar sem stendur: „skal skipta honum á árin 1936–1940.“ Það er ekkert sagt, hvernig eigi að fara um þá skiptingu, en aftur er sagt hér í upphaflega frv.: „skal skipta jafnt á skattárin 1942—1946“. Þegar það stendur á öðrum staðnum, að það eigi að skipta jafnt milli áranna, en ekki sagt orð um það á hinum staðnum, þá má draga þá ályktun af því, að jafnvel framtalsnefnd hafi þarna minna bundnar hendur til þess að skipta eftir því sem henni sýnist. Hvað brtt. snertir, er ekki samræmi í þessu, og þegar af þeirri ástæðu mun ég ekki greiða atkv. með henni, en þar að auki tel ég vafasamt, hvort eigi að ganga lengra, en gert hefur verið í till. fjhn., sem samþ. hefur verið við 2. umr.