05.12.1949
Sameinað þing: 7. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

Varamaður tekur þingsæti - rannsókn kjörbréfa

forseti (StgrSt) :

Mér hefur borizt svo hljóðandi bréf, dags. 2. des., frá hæstv. forseta Ed.: „Hannibal Valdimarsson, 6. landsk. þm., hefur í dag skrifað mér á þessa leið:

„Ég leyfi mér hér með að sækja um leyfi frá þingstörfum fyrst um sinn. Ástæðan er sú, að mér hefur enn eigi tekizt að ráðstafa á fullnægjandi hátt skólastjórastarfi mínu við Gagnfræðaskólann á Ísafirði. Ég tel rétt, að varamaður verði kallaður til starfa í minn stað, meðan ég verð fjarverandi.

Jafnframt því að tilkynna yður þetta, herra forseti, leyfi ég mér að óska þess, að á næsta fundi í sameinuðu þingi verði rannsakað kjörbréf þessa varaþingmanns, Guðmundar Í. Guðmundssonar.“

Þá hefur mér borizt annað bréf, dags. 5. þ. m., frá Guðmundi Í. Guðmundssyni, svo hljóðandi: „Í tilefni af því, að hv. alþingismaður Hannibal Valdimarsson hefur horfið af þingi um stund, vil ég sem fyrsti varamaður Alþýðuflokksins tjá yður, hr. forseti, að sökum mikilla embættisanna um þessar mundir get ég ekki fyrirvaralaust tekið sæti Hannibals á þingi fram að næstu áramótum. Óska ég eftir, að annar varamaður Alþýðuflokksins, hr. Erlendur Þorsteinsson, taki sæti Hannibals til áramóta, verði hann ekki kominn aftur fyrir þann tíma.“

Hér liggur fyrir kjörbréf Erlends Þorsteinssonar, og vil ég biðja kjörbréfanefnd að taka það til athugunar, og mun ég fresta fundi um 3–4 mínútur, á meðan n. ber saman ráð sín. ( Fundarhlé.]