03.03.1950
Neðri deild: 59. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

43. mál, jarðræktarlög

Frsm,. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra íorseti. Þetta frv. til jarðræktarlaga á þskj. 58 er búið að vera lengi hjá landbn., og hefur n. starfað mikið að frv. og rætt það við sérfróða. menn, bæði n. í heild og einstakir nm. Það liggur fyrir nál. á þskj. 360 og brtt. frá n. á þskj. 361. Ekki náðist alveg fullt samkomulag innan n., eins og brtt. hv. 5. landsk. bera með sér á þskj. 389, en um meginhlutann af brtt. á 361 er samkomulag, svo að segja má, að ekki sé ágreiningur um meginstefnu frv. Þetta vildi ég taka fram um störf n. almennt, en brtt. á þskj. 389 mun ég ekki ræða fyrr en hv. flm. hefur mælt fyrir þeim. Enda þótt málið sé nú hér til 2. umr., vona ég, að hæstv. forseti amist ekki við því, þótt ég leyfi mér að ræða nokkuð jarðræktarlögin almennt, enda var það ekki gert við 1. umr., en brtt. n. eru einmitt tengdar þróun þessara mála frá fyrstu tíð, og er því eðlilegt, að farið sé nokkrum orðum um lögin og áhrif þeirra frá upphafi.

Jarðræktarlögin voru sett árið 1923, og má segja, að með setningu þeirra hafi hafizt ræktunaröld á Íslandi. Fyrir þann tíma var enginn teljandi styrkur frá hinu opinbera veittur til jarðræktar og möguleikar bænda í þeim efnum ákaflega litlir allt fram til ársins 1923. Túnstærð á öllu landinu var þá talin 22 þús. ha, en aðelns 1/4 þessa lands var véltækur; hitt var þýft tún og grýtt, svo að segja má, að raunar hafi ræktað land þá ekki verið meira en 5–6 þús. ha, eða minna en 1 ha á býli. Töðufallið var á árunum 1920–1924 talið um 600 þús. hestar, eða um 28 hestar af hverjum ha. Áburðargeymslur rúmuðu þá um 22 þús. teningsmetra, eða 8–10% af því áburðarmagni, sem kemur frá nautgripum. Þannig var sem sagt ástandíð, áður en jarðræktarlögin voru sett. Nú er túnstærðin hins vegar talin, eða fyrir ári síðan, 42 þús. ha, en af gömlu túnunum hafði verið ræktað upp um 12 þús. ha, svo að segja má, að túnræktin frá 1923 sé um 56 þús. ha, því að það munar litlu að rækta upp gömul tún eða vinna nýrækt. Töðufallið er nú 1 milljón og 600 þús. hestar, eða 39 hestar af ha, en það er 11 hestum meira af ha en var á árunum eftir 1920. Það er þó ekki ástæða til þess að vera sérlega hreykinn af þessu magni, því að við teljum ekki, að um góða ræktun sé að ræða fyrr en 40–50 hestar fást af hverjum ha, en töluvert hefur þetta þó lagazt. Um 1920 voru um 1.100.000 hestar af heyi sóttir á útengi, eða nær tvöfalt meira, en töðumagnið. Nú er tá heyskapur kominn ofan í 500–600 þúsund hesta, og af því munu um 200 þús. hestar vera sóttir á áveituengjar eða aðrar véltækar engjar, svo að raunverulegur útheyskapur er kominn ofan í 300–400 þús. hesta. Það hefur því saxazt mjög á útengjaslægjurnar, sem vera ber, því að engjar, sem ekki eru véltækar, eru ekki þess virði að kaupa fólk til að nytja þær. — Um áburðargeymslurnar er það að segja, að síðan 1923 hafa verið byggðar áburðargeymslur, sem rúma 270 þús. teningsmetra og ættu því að taka á móti 70–75% af því áburðarmagni, sem kemur frá nautgripum. Þess ber þó að gæta, að eitthvað af þessu kann að vera úr sér gengið, en mikið hefur áunnizt í þessu efni.

Þær tölur, sem ég nú hef lesið, sýna bezt, hvers virði jarðræktarlögin hafa verið ræktuninni. Framsókn og dugnaður bænda á auðvitað sinn mikla þátt í þróuninni, en án aðstoðar ríkisvaldsins hefðu þeir aldrei náð eins langt og raun ber vitni, og hefðu þessar ráðstafanir ekki verið gerðar, þá er mér nær að halda, að allmargar sveitir væru farnar í eyði, þar sem nú er margt fólk við arðvænlegan búskap.

Þessu næst liggur fyrir að spyrja, hvað jarðræktarl. kosti ríkissjóð, og er því skjótt til að svara, að frá 1923 hefur ríkissjóður greitt 25,4 millj. kr. í jarðabótastyrk. Fram til 1940 var hann á ári hverju um 1/2 millj. kr., en síðan dróst hann saman, svo að 1941 var hann aðeins 186 þús. kr., en þá var farið að greiða á hann verðlagsuppbót. Nú á síðustu árum hefur hann aftur á móti verið um 4 millj. kr. á ári hverju. Þetta er framlag ríkisins í aldarfjórðung. Mér ógnar það ekki. Samt hefur það verið myndarlegur stuðningur við landbúnaðinn, og verður að telja, að mikið hafi líka áunnizt. Erfitt er eð segja með víssu, hve mikið fé hefur farið til ræktunarinnar á þessum aldarfjórðungi, en það mun láta nærri, að 100 milljónir séu rétt tala og jarðræktarstyrkurinn 1/4 af því og 75% kostnaðar lagt fram af bændunum sjálfum. Skal ég svo ekki hafa þessi almennu orð fleiri, en snúa mér að frv. sjálfu.

Síðan jarðræktarlögin voru sett, hefur þeim oft verið breytt, víst einum 5 sinnum. Kom nauðsyn þess af sjálfu sér vegna þess, hve allar aðstæður breyttust óðfluga frá því, sem var við setningu l. Þá þekktust aðeins einföldustu og frumstæðustu jarðræktarverkfæri, eins og þúfnabaninn og hestarekan, og þær geysilegu byltingar, sem síðan hafa orðið á verkfærakostinum, leiddu til þess, að reglurnar um úttekt jarðabóta og styrki til þeirra hlutu að breytast.

Þetta frv. hefur fengið rækilegan undirbúning. Á árinu 1947 skipaði þáv. landbrh. 5 manna nefnd til að endurskoða jarðræktarlögin, og skilaði hún tillögum sínum í lok ársins. Síðan voru þær sendar Búnaðarfélagi Íslands, og lagði það til, að búnaðarþing fjallaði um málið, og var mælt með því af landbrh. Var frv. lagt fyrir búnaðarþing 1949, sem gerði á því allmiklar breyt. og sendi landbrn. Þáverandi landbrh. lagði svo frv. fyrir Alþingi að mestu leyti í því formi, sem það hafði fengið á búnaðarþingi. Í þessu sambandi vil ég taka það fram, að tillögur búnaðarþings ber að skoða sem fyllstu kröfur hvað snertir styrkveitingarnar til ræktunarinnar, fyllstu kröfur bændastéttarinnar, sem á sína fulltrúa á búnaðarþingi, til ríkisvaldsins.

Þá vil ég taka það fram, að helztu breyt. frá gildandi lögum, sem gert er ráð fyrir í frv., eru þessar:

Í fyrsta lagi er tekið upp ákvæðið um héraðsráðunautana, til aukins eftirlits með og leiðbeininga í jarðræktarframkvæmdum og aukins samstarfs með bændum og búnaðarsamböndunum. — Í öðru lagi eru í brott numin öll hámarksákvæði um styrk til jarðabóta, en þau voru áður tvö, og var annað árshámark. Enginn gat fengið meira en 600 kr. í grunnstyrk árlega til jarðabóta, eða með verðlagsuppbót á síðustu árum um 1.800 kr. Það var áður enginn vinningur við að rífa niður stór svæði á ári, og því var þetta hámark sett, og gat ekki talizt óeðlilegt, að stutt væri að því, að jörðin væri unnin sem bezt, en minna tekið fyrir í einu, á meðan einkum var unnið með hestverkfærum. Auk þess setti svo Alþingi tiltölulega fljótt bremsu við háum styrkjum til einstakra manna. Nú hafa aðstæður allar gerbreytzt. Með þeim stórvirku tækjum, sem landbúnaðurinn ræður nú yfir, verður oft að taka fyrir stór svæði í einu, t.d. í sambandi við félagsbýli, og hefur orðið samkomulag um það alls staðar, þar sem þetta hefur verið rætt, að fella þetta hámark niður. — Hitt hámarkið er heildarhámark á hverja jörð, þannig, að þegar einhver jörð var búin að fá ákveðið hámark í styrk, þá átti að hætta að veita þar fé til ræktunarframkvæmda. Hins vegar var svo veittur aukastyrkur til þeirra býla, sem skemmst voru komin í ræktun. Þetta ákvæði er nú fellt niður, og varð samkomulag um það á búnaðarþingi.

Þá er þriðja meginbreytingin sú, að verkfærakaupasjóður hefur verið afnuminn. Hann hefur verið sérstakur kafli í l., og lengst af hafa verið greiddar 80 þús. kr. í sjóðinn úr ríkissjóði til að styrkja bændur til vélakaupa. En nú hefur ríkið ekki greitt neitt til sjóðsins í s.l. tvö ár. Hafa lögin þannig verið brotin. En þessi upphæð var aðeins orðin 2–3% af kostnaðarverði vélanna og dró engan, og Búnaðarfélagið gat því ekki verið að ganga hart eftir því, að ríkið uppfyllti þessa skyldu. Var nú gagnvart þessu um tvennt að ræða: Í fyrsta lagi að stórauka framlagið, eða í öðru lagi að fella það niður, eins og nú er lagt til, enda horfir þetta nú þannig við, að eftirsóknin eftir vélunum er svo mikil, að 10–20 manns eru um hverja, og virðist ekki eðlilegt að verðlauna þá sérstaklega, sem happið hljóta.

Þetta tel ég meginbreyt. frá því, sem er í gildandi l., og vil ég þá leyfa mér að taka hér til meðferðar brtt. landbn. á þskj. 361 og gera grein fyrir þeim í eins stuttu máli og ég sé mér fært.

Fyrsta brtt. er við 3. gr., og er hún orðuð um og skýrar kveðið á um það, sem þar er átt við.

Næsta brtt. er við 4. gr. og hefur n. lagt til, að hún væri algerlega orðuð um og það ákveðið, að héraðsráðunautar í jarðrækt skuli vera svo margir sem nauðsyn krefur, að dómi Búnaðarfélags Íslands, enda sé ráðning þeirra lögð undir úrskurð ráðherra í hvert sinn og þær starfsreglur, sem þeim eru settar. — Þá er enn fremur tekið upp það nýmæli í 2. málsgrein, að heimilt sé að fela sama manni að gegna ráðunautarstarfi bæði við jarðrækt og búfjárrækt. Samkvæmt búfjárræktarl. greiðir ríkið 2/5 af launum hans. Reynslan hefur orðið sú, að það hefur komið í ljós, að ýmis búnaðarsambönd vilja ráða til sín einn mann til hvors tveggja starfans og óska þess fremur að fá einn heilan starfsmann, heldur en tvo hálfa af stærri svæðum. — Hv. 5. landsk. ber fram brtt. um skipun héraðsráðunautanna, en hinir nm. voru því samþykkir að hafa þetta þannig, og ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um, að þetta fyrirkomulag er hentugra á meðan búnaðarsamböndin eru svona smá. Nú þegar hafa verið ráðnir 1–2 menn upp á þessi býti og hafa fengið dálitlar greiðslur frá Búnaðarfélagi Íslands, af því að þetta frv. er ekki orðið að lögum. — Þá er það einnig gert að skyldu„ að héraðsráðunautarnir skuli vera framkvæmdastjórar búnaðarsambandanna, en í frv. er það lagt á vald stjórna búnaðarsambandanna. Að öðru leyti er aðeins um umorðun að ræða á greininni.

Þá er 3. brtt. við 5. gr., en 1. málsgr. hennar hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Kostnaður Búnaðarfélags Íslands við framkvæmd laga þessara greiðist úr ríkissjóði eftir reikningi, er landbúnaðarráðherra samþykkir.“ Samkvæmt þessu virðist Búnaðarfélag Íslands geta sent reikninga til ráðuneytisins fyrir allt skrifstofuhald. Við töldum þetta ekki hafa verið tilgang þeirra, sem sömdu gr., heldur hitt, að kostnaður við framkvæmd þessara laga greiðist úr ríkissjóði, og lögðum við því til að fella niður orðin „Búnaðarfélags Íslands“. — Þá leggur n. einnig til, að laun héraðsráðunauta séu greidd að 2/5 hlutum úr ríkissjóði, en 3/5 af héraðssamböndunum, en í frv. er gert ráð fyrir, að launin greiðist að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu af hlutaðeigandi héraðssamböndum. Töldum við vonlítið að gera till. um hærri hlutfallslega greiðslu úr ríkissjóði; svo mikið var um þetta þráttað á sínum tíma á Alþingi, að okkur þótti tilgangslaust að taka þá deilu, upp aftur. Enn fremur fellum við niður ákvæði um greiðslu úr ríkissjóði á ferðakostnaði ráðunautanna af sömu ástæðum. Ég skal geta þess, að kostnaður ríkisins af ráðunautum héraðssambandanna getur orðið nokkuð mikill, en með því að fella niður það, sem ríkið greiddi áður í verkfærakaupasjóð, er svo hamlað þar á móti, að um langt árabil munu greiðslurnar til ráðunautanna ekki fara fram úr því gjaldi.

4. brtt. n. er við 6. gr. Lagt er til, að orðið „aðeins“ í 1. málsgr. falli niður, og fannst n. það eðlilegra.

5. brtt. er við 10. gr. og mjög smávægileg. Í 2. tölulið 10. gr. stendur innan sviga, þar sem ræðir um vegakostnað vegna jarðræktarframkvæmda, „ríki eða sýslu“, og leggjum við til, að þar standi: ríki, sýslu eða hreppi, — því að til eru þó líka hreppavegir hér á landi.

Er þá lokið að skýra frá brtt. við I. kafla l., og kem ég þá að II. kaflanum, en þungamiðja hans er að ákveða um styrki til jarðræktar og húsabóta. Við þennan lið hefur n. gert allmiklar breyt., sumar lítilvægar, aðrar meiri háttar, og skal ég nú rekja þær nokkuð. Fyrsti kafli þessa bálks er um styrki til áburðargeymslna, og hefur verið lagt til hjá okkur að lækka styrk til safnþróa úr kr. 10.00 í kr. 9.00 pr. rúmmetra og til áburðarhúsa úr kr. 7.00 í kr. 5.00, en styrkur til haugstæða haldist óbreyttur. Á þetta er lögð, samkvæmt till. búnaðarþings, byggingarvísitala, og mun hún vera um 470. Það þykir kannske ekki skörulegt af landbn. að lækka þetta frá því, sem gert var ráð fyrir í till. búnaðarþings. En við gerðum þetta vegna þess, að við lögðum meira kapp á að fá styrki til annarra framkvæmda. Þó er sá styrkur, sem við lögðum til, svipaður og sá, sem áður var. Talsverð lækkun er þó á styrknum til áburðarhúsa, og er það af þeim sökum, að sú stefna fær æ meira fylgi, að óskynsamlegt sé að reisa steinsteyptar hvelfingar fyrir saurinn, heldur sé meginatriði að hafa steyptar þrær fyrir þvagið og sérstök haugstæði. Við leggjum til, að sama vísitala sé lögð á áburðargeymslur og aðrar jarðræktarframkvæmdir, og er þá styrkurinn lítt breyttur.

Við næsta tölulið höfum við gert ýmsar miklar breyt., en þar ræðir um framræslu á landi, og viljum við orða upphaf liðsins svo: „Framræsla vegna túna-, akur- eða engjaræktar (handgröftur)....“ Ræðir þá eingöngu um handgrafna skurði í II. lið, þannig að liðurinn verður aðeins um handgrafna skurði eða þá framræslu, sem ein hefur tíðkazt hér um langt árabil. Hér er því um að ræða mikla hækkun til þessarar framræslu, sem sést bezt, ef athuguð eru gildandi jarðræktarlög, sem gera ráð fyrir, að styrkur vegna skurða, sem eru einn metri að dýpt og grynnri, skuli nema kr. 1.50 pr. rúmmetra, en hér er gert ráð fyrir styrkjum vegna skurða handgrafinna, sem nema einni krónu pr. rúmmetra. Hér er því um allt að tífalda hækkun að ræða. En að n. leggur þetta til, á sínar orsakir, eins og allt annað. Nú hafa skurðgröfurnar komið til sögunnar og gerbreyta öllum aðstæðum til þurrkunar landsins. Þetta gerir það að verkum, að þeir bændur, sem ekki geta fengið þessi mikilvirku tæki - og þeir eru því miður nokkuð margir —, verða að fá miklu hærri styrki vegna framræslu á sínu landi, því að ef þeir fengju það ekki, væri dæmd til dauða öll framræsla, nema með skurðgröfum. Okkur telst svo til, að þessir styrkir muni nema allt að 1/3 af kostnaði við skurðlagninguna. Það er af þessum ástæðum, sem við teljum, að þessi hækkun sé réttmæt, sem og áður hefur verið gert bæði af mþn. í þessum málum og síðar af búnaðarþingi.

Þá er það í sambandi við II. c-lið, um hnausræsi. Framræsla með hnausræsum er litið notuð nú orðið, og teljum við, að styrkur til slíkra framkvæmda sé nægilega hátt ákveðinn kr. 0.75 pr. rúmmetra. Hér er því um að ræða lækkun frá því, sem er í frv. — Eins höfum við gert till. um að lækka ýmsa aðra liði, sem ég sé ekki ástæðu til að nefna.

Þá er ég kominn að kílræsunum. Í frv. er gert ráð fyrir styrkveitingum til hinna svonefndu kílræsa, en það eru skurðir, sem myndast, eins og hv. þm. vita, en þó kannske ekki allir, þegar þungur kíll er dreginn eftir jörðinni. Samkv. brtt. n. er ætlunin að leggja styrkveitingar til slíkra skurða alveg niður, en ég get sagt það sem mína skoðun, að ég held, að þessi liður ætti að haldast, en á þá skoðun gat meiri hl. n. ekki fallizt. Þetta er og raunar ekki stórt atriði.

Þá er það h-liðurinn í brtt. n. Þar er ráðgert, að á eftir II. e. komi nýr liður, sem orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Framræsla vegna túna-, akur-, engja- og hagaræktar (vélgrafnir skurðir): Helmingur rekstrarkostnaðar við gröft skurðanna, en hann telst þessi:

Leiga greidd vélasjóði eða öðrum aðila, viðgerðarkostnaður (sem ekki er innifalinn í leigunni), vírar, hlerar og olíur, og mannahald, eftir því sem það er ákveðið eða samþ. af stjórnendum vélasjóðs.“

Árið 1962 var gerð breyting á jarðræktarl. og þá einungis í sambandi við vélasjóð. Um það leyti voru skurðgröfur fyrst að þekkjast hjá okkur, og gera þau l. ráð fyrir, að ríkissjóður greiði 1/3 af rekstrarkostnaði skurðgrafanna. Hér er aftur á móti lagt til, að ríkissjóður greiði helming rekstrarkostnaðarins, og er það í samræmi við till. mþn. og síðar búnaðarþings. Sem rökstuðning fyrir þessari hækkun mætti benda á, hve mikið nauðsynjamál það er að þurrka landið sem bezt, því að það gerbreytir því til hins betra og búskaparskilyrði verða allt önnur og betri. Það er með þetta höfuðauðsynjamál í huga, sem n. hefur lagt til, að ýmsir aðrir liðir verði lækkaðir frá því, sem er í till. búnaðarþings, og gerir þá jafnframt ráð fyrir, að þetta nái fram að ganga. Þó er því ekki að neita, að nokkur kostnaðarauki verður af þessu fyrir ríkissjóð. Ef miðað er við síðastliðið ár, þá varð þessi kostnaðarliður um það bil 1/2 millj. eða vel það. Ég skal taka það fram, að ekki er því lýst í frv., hvað skuli teljast rekstrarkostnaður, en við töldum rétt að taka það skýrt fram.

Þá er það i-liðurinn í 6. brtt. okkar, sem á við V. í frv., en sá liður er þar í tveim hlutum. Eftir brtt. okkar verður þetta nú VI, og höfum við orðað þennan lið um og gerum ráð fyrir, að hann verði óskiptur. Í þessari brtt. okkar leggjum við til, að girðingar verði teknar út í einu lagi og verði styrkur veittur til þeirra kr. 0.30 pr. m.

Þá er ég nú kominn að VI, sem er um heyhlöður. Þar höfum við ekki gert neinar brtt. við a-liðinn, en aftur á móti leggur n. til, að b-liðurinn, um súgþurrkunarkerfi í hlöður, steyptar með járnþaki, falli burt. Þetta finnst mönnum nú kannske einkennilegt, því að súgþurrkun hefur nokkuð verið reynd hér á landi og gefizt vel. En n. fannst, að sá styrkur, sem í frv. er ætlað að veita til þessara framkvæmda, væri svo lítill miðað við kostnaðinn af þessum framkvæmdum, að ekki tæki því að hafa hann. Einnig var n. á þeirri skoðun, að með þessum l. ætti fyrst og fremst að veita styrki til undirstöðuatriða búskaparins, en ekki vera að skipta styrkveitingunum niður til sem flestra framkvæmda. Ég veit svo ekki, hvað súgþurrkunartækin muni reynast vel, er til lengdar lætur, og endast í hlöðum landsins.

Þá er það e-liðurinn. Þann lið höfum við orðað um, en höfum styrkveitinguna þá sömu. Aftur á móti höfum við tekið undir þennan lið fleiri byggingarefnistegundir, en áður voru. Hins vegar hefur n. orðið sammála um að fella burt d liðinn, „Þurrheyshlöður úr öðru efni“, því að það eru jú aðeins torfhlöður, en þær eru nú orðið ekki byggðar nema sem viðgerð á eldri hlöðum. Um þetta var n., eins og áður er sagt, alveg sammála.

Síðan eru það votheyshlöðurnar. Í frv. er gert ráð fyrir tveim tegundum af votheyshlöðum, votheyshlöðum með járnþaki, hringlaga, og af annarri lögun með járnþaki, og er mismunandi styrkur til þessara tegunda. Í frv. er gert ráð fyrir hærri styrk til hinna hringlöguðu, en n. gat eigi fallizt á þetta og leggur til, að styrkurinn sé ákveðinn kr. 4.50 pr. rúmmetra. Hér er því um að ræða hækkun frá því, sem er í frv., ef tekið er meðaltal af styrkveitingunum, sem þar eru ákveðnar, en þessa upphæð ákváðum við með hliðsjón af hinni miklu þörf íslenzks landbúnaðar á að koma upp votheyshlöðum.

Þá er ég kominn að VII. í frv., sem er um búvélageymslur og grænmetisgeymslur. Leggjum við til, að þessi liður falli burt, og er nú rétt að gera nokkra grein fyrir ástæðunum til þess. Þetta er nýr liður, sem ekki hefur verið áður í jarðræktarlögum, og út frá þeirri grundvallarreglu, sem ég nefndi áðan, að vera ekki að teygja styrkina út til of margra og mismunandi framkvæmda, þá vildum við ekki fallast á þessa styrki. Þar að auki töldum við, að hér væri um að ræða svo mikinn kostnaðarauka, kannske yfir 1/2 millj. kr.

Ég hef nú hér að framan skýrt frá þeim brtt., sem n. hefur gert um styrkveitingar til hinna einstöku framkvæmda. Nú mun eðlilega verða spurt, hver áhrif þær muni hafa, ef samþ. verða, á greiðslur ríkissjóðs til þessara mála. N. hefur að nokkru reynt að gera sér þetta ljóst, þótt mjög erfitt hafi verið. Jarðræktarstyrkurinn 1948, sem greiddur var út 1949, nam um það bil 41/2 milljón kr. Samkvæmt frv., eins og það var lagt fyrir Alþingi, þá er reiknað með, að styrkurinn verði eitthvað í kringum 51/2 millj. kr., en þó kannske tæplega, en í þá tölu er ekki tekið með, hver áhrif það muni hafa að afnema árshámarkið. Ef nú brtt. n. verða samþ., þá munu þessar greiðslur nema eitthvað í kringum 4.9 millj. kr. Þetta eru nú þær upplýsingar, sem við getum gefið varðandi upphæðir styrkjanna, og hefur n. lagt í það mikla vinnu að fá þetta sem nákvæmast.

Síðan er það þá 7. brtt., sem er við 12. gr. og er í rauninni aðeins afleiðing af þeim brtt., sem búið er að lýsa hér að framan. Hér er þess vegna því til samræmis lagt til, að greidd verði vísitala framfærslukostnaðar, en ekki byggingarkostnaðar.

Ég hef þá lokið að gera grein fyrir þeim brtt., sem n. leggur til, að gerðar verði við II. kafla laganna. Er ég nú kominn að vélasjóðnum. Þykir mér rétt að gera fyrst almennt dálitla grein fyrir honum. Vélasjóður hefur verið efldur til kaupa á skurðgröfum og leigt þær síðan út um sveitir landsins. Þessi breyt. var gerð á l. 1942, en þá var til n., sem stofnuð hafði verið með l. frá 1940 og átti að hafa með höndum athugun á vélum og verkfærum, svonefnd verkfæranefnd. Slík stöðug athugun hefur að sjálfsögðu mikið að segja fyrir okkur. En með breyt., sem gerð var á l. 1942, var verkfæranefndinni falið að fara einnig með stjórn vélasjóðs. Verkfæranefnd hefur sérstaka skrifstofu fyrir sína starfsemi og hefur ekki neitt samráð við Búnaðarfélag Íslands. Segi ég þetta henni, síður en svo til lasts. En af þessu hefur leitt tvískiptingu, því að Búnaðarfélagið hefur með höndum mælingu og fleira í sambandi við skurðina, en verkfæranefndin leigir skurðgröfurnar út. Þessi tvískipting hefur ýmsar óheppilegar hlíðar. Við skulum t.d. segja, að mælingamaður frá Búnaðarfélaginu fari út á land til þess að mæla fyrir skurðunum, en hefur svo ekki nein áhrif á það, hvort skurðgröfurnar koma nokkurn tíma á suma þessara staða. Þetta getur því hæglega orðið til þess að sóa stórkostlegum verðmætum. Að verkfæranefndinni var falið að hafa með höndum stjórn vélasjóðs, hefur svo einnig það í för með sér, að hún getur ekki sinnt sínu eiginlega starfi, þ.e. að hafa eftirlit með verkfærunum, því að hún hefur nóg að hugsa um skurðgröfurnar Það hefur því lengi verið mín skoðun, að hér eigi ekki að skera í milli og Búnaðarfélag Íslands eigi að hafa með skurðgröfurnar að gera eins og annað það, sem tilgreint er í jarðræktarl. En um þetta atriði varð ekki samkomulag í n., eins og sést á brtt. hv. 5. landsk., en hann leggur þar til aðra skipan þessara mála. Það, sem við hinir nm. leggjum til í sambandi við þetta mál, felst í 9. brtt. við 17. gr. og að vísu einnig í brtt. við 16. gr. Ég ætla þó sérstaklega að minnast á 9. brtt. við 17. gr. Samkv. henni á landbrh. að skipa þriggja manna nefnd, sem nefnist vélanefnd ríkísins. Nefndin á að vera skipuð verkfæraráðunaut Búnaðarfélags Íslands, jarðræktarráðunaut Búnaðarfélags Íslands og einum manni tilnefndum af búnaðarþingi. Með þessari skipan vildum við tengja þetta starfi búræktarráðunauta Búnaðarfélagsins. Um það var nokkur meiningarmunur, hvort skipa ætti þessa nefnd eða leggja hana beint undir Búnaðarfélag Íslands. En þetta varð nú samt niðurstaðan, og hefur landbrh. eftir henni nokkru frjálsari hendur en ella.

Og hinar breyt. við þennan kafla eru í raun og veru afleiðing af þessu. Ég fyrir mitt leyti álít, að með þessari skipan sé komið fastara formi á framkvæmdir þessara mála, og það hljóti frekar að verða til góðs fyrir alla, og svo í sambandi við það þurfum við að byggja upp þannig starfsskilyrði fyrir verkfæranefndina, að hún geti hér eftir sérstaklega einbeitt sér að því verkefni, að annast prófun véla og verkfæra. Og landbn. þessarar hv. d., eða a.m.k. meiri hl. hennar, mun síðar, ef þessar brtt. við III. kafla frv. verða samþ., bera fram frv. til l. um breyt. á l. um tilraunir og rannsóknir í þágu landbúnaðarins, er leggi til, að breyt. verði á starfstilhögun n. Í þeim l. eiga ákvæði um þá n. heima, og er eðlilegt að marka henni starfsskilyrði í þeim l. En þetta vildum við ekki gera, fyrr en við sæjum, hvernig þessu máli reiddi af hér í þessari hv. deild.

Við höfum breytt 16. gr., en þar er ekki um verulega efnisbreyt. að ræða. Við leggjum til, að 4. liðurinn í 16. gr. verði felldur niður. Okkur þykir ekki nauðsynlegt að hafa ákvæði þess liðar í þessum l., því að landnám ríkisins hefur í raun og veru þetta hlutverk með höndum að annast slíkar framkvæmdir fyrir ríkið. Þess vegna fannst okkur óeðlilegt að hafa þetta á þennan hátt í l.

Ég skal reyna að fara að stytta mál mitt. En þetta er nú það mikið mál, að það er ekki þægilegt að komast frá því í mjög stuttu máli.

IV. kaflinn er um búferlaflutning. — V. kafli er um erfðaleigulönd, og við þann kafla hefur n. engar breyt. gert, heldur bara leiðréttingu á 29. gr., en ekki efnisbreyt.

Þá kem ég að bráðabirgðaákvæðum frv. Við höfum gert þar tvær brtt. Við 1. málsgr., þar sem gert er ráð fyrir, að ef ekki sé völ á nægilega mörgum búfræðingum með sömu eða meiri menntun, en gert er ráð fyrir í framhaldsdeild bændaskóláns á Hvanneyri til að gegna héraðsráðunautsstörfum, þá megi til bráðabirgða og með samþykki Búnaðarfélags Íslands ráða til þessa starfa búfræðinga með venjulegri búfræðimenntun, þar komi á eftir orðunum „til bráðabirgða“ orðin „til eins árs í senn“ inn í ákvæðið. Við vildum takmarka þetta meir en gert er ráð fyrir í frv. N. telur, að stefna eigi að því, að þessir menn hafi góða undirbúningsmenntun, og við viljum alls ekki, að þetta sé gert, sem í ákvæðinu er til tekið, nema út úr ýtrustu neyð og þá aðeins um eitt ár í senn, ef þannig eru ráðnir menn til þessara hluta. Svo er það hér síðasta málsgr. í ákvæðunum til bráðabirgða, um að til ársloka 1959 skuli þau býli, er eigi hafa 10 ha tún, njóta 300 kr. styrks á ha til jarðræktar að viðbættri verðlagsuppbót. Þetta er 100 kr. meira að grunnstyrk á hvern ha en ákveðið er í 11. gr. og á að koma í staðinn fyrir uppbót, sem veitt var með 30% uppbót samkv. gildandi l. Þetta er að mínum dómi mjög nauðsynlegt ákvæði. Styrkurinn á jarðræktina, eftír frv. eins og það liggur fyrir, er dálítið lækkaður frá því, sem er í gildandi l., og það hafa allir aðilar og búnaðarþing líka álítið, að væri sjálfsagt, enda verður sú tækni, sem fram hefur komið í ræktunarmálum á síðustu árum, að sýna sig í því, að hægt sé að lækka ræktunarkostnaðinn að einhverju leyti. En svo er ástatt, að það eru sorglega mörg býli, þar sem segja má, að ekkert sé byrjað á ræktunarmálum enn, og þeim verður þungur fjötur um fót með að koma ár sinni svo vel fyrir borð, að vel megi við una. Þeim héruðum, þar sem svo er ástatt um jarðir, er mest hætta búin af fólksstraumi til kaupstaðanna, og þar sem svo er ástatt, tel ég ekkert vit í öðru, en að veita þeim aðilum einhver fríðindi fram yfir það venjulega. Og þetta eru þau býli, sem oft er erfiðast að fá stórvirkar vélar til þess að koma við á, svo sem dráttarvélar. Ég tel því, að ekkert vit sé í öðru, en að veita þeim býlum meiri styrk til framkvæmdanna. Einn hængur er á þessu. Við vitum ekki um stærð túnanna. Það þyrfti að mæla upp öll tún landsins, og um þetta er ekki hægt að ákveða, nema með því að fá skyndimat á túnunum, um það, hver þeirra og hvenær þau séu orðin 10 ha. En vonandi verður að þessu unnið á næstu árum, að þetta verði gert. Með fleiri héraðsráðunautum og slíku skapast meiri möguleikar til þess að mæla upp túnin, og þess vegna er mér held ég óhætt að segja, að n. öll sé sammála um að leggja áherzlu á það, að einmitt þetta ákvæði í l. til bráðabirgða verði lögfest og með því rýmkað nokkuð um, til hagnaðar fyrir þessi verr settu býli. — Þá höfum við breytt ártalinu í þessu síðasta ákvæði til bráðabirgða. Í frv. stendur 1959, og er þetta hugsað sem tíu ára ákvæði, þar sem frv. var borið fram 1949. Við viljum hér tiltaka árið 1960, ef frv. skyldi verða lögfest á þessu ári.

Ég held, að ég hafi þá gert grein fyrir brtt. landbn. Eins og ég tók fram í upphafi, er n. sammála um flestar þessar brtt., sem hér liggja fyrir. En hv. 5. landsk. þm. hefur sérstöðu um nokkrar þeirra og hefur borið hér fram sérstakar brtt. varðandi þau atriði.