06.03.1950
Neðri deild: 60. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

43. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að minnast hér í örfáum orðu,m á þann ágreining, sem komið hefur fram í sambandi við þetta mál. Það er rétt, að ég er í aðalatriðum sammála 1. og 3. brtt. hv. 5. landsk., en hins vegar er ég 2. brtt. hans algerlega andvígur. Um ráðunautana hef ég það að segja, að ég tel bæði eðlilegt og rétt, að þeir hafi leiðbeiningar fyrir búnaðarsamböndin að öllu leyti, og séu þau ekki mjög stór, þá geti viðkomandi ráðunautur verið framkvæmdastjóri sambandsins um leið. Ég álít, að 10 ráðunautar muni nægja fyrir allt landið, og kæmi í því sambandi til greina, að færa þyrfti á milli sambandsfélaga, eftir því sem skiptingin nú er. Hitt atriðið tel ég þó meira um vert, en það er verkfæranefndin. Meiri hl. landbn. vill kljúfa þau störf, sem hér er um að ræða, og láta sérstaka nefnd annast prófun á nýjum verkfærum og gefa leiðbeiningar um þau, en að hinu leytinu hafa sérstaka ráðunauta eða nefnd til þess að sjá um rekstur vélasjóðs og þá aðallega þeirra véla, sem hann á. Þessu er ég mótfallinn og tel, að þetta eigi hvort tveggja að vera á einni hendi. Hv. frsm. sagði, að núverandi n. væri óeðlilega skipuð, þar sem eitt stærsta innflutningsfirma, sem annast innflutning landbúnaðarvéla, ætti þar fulltrúa, það er að segja S.Í.S. — Þetta kannast ég nú ekki við. Í þessari nefnd eiga sæti, eftir því sem ég veit bezt, landnámsstjóri, skólastjórinn á Hvanneyri og fyrrv. landbrh. (BÁ). (StgrSt: Hann er skipaður eftir tilnefningu S. Í. S.) Nú jæja, ég hélt að hann væri skipaður samkv. tilnefningu B.F.Í. Annars skiptir það ekki meginmáli, hvaða stofnanir hafa tilnefnt menn í þessa nefnd. Hitt er aðalatriðið, að í n. séu menn með tæknilega þekkingu á vélum og notkun þeirra.

Þá heldur hv. frsm. því fram, að öll leiðbeiningarstarfsemi varðandi jarðrækt eigi að vera undir einni stofnun og þá jafnvel undir verkfæran., ef fallizt verður á okkar sjónarmið í málinu. Þetta fæ ég ekki skilið, enda verður manni á að spyrja, hvernig standi þá á því, að B.F.Í. hefur ekki haft verkfæraráðunaut í sinni þjónustu í langan tíma. Ég sé ekki annað en það sé alveg óskylt að mæla fyrir jarðrækt og hitt, að sjá um, að verkfærin séu í lagi. Um verkfærin tel ég, að vélanefnd eigi að sjá, bæði að leiðbeina um, hvaða verkfæri séu bezt og heppilegust, og líka aðstoða búnaðarsamböndin við, að verkfærin séu í lagi og gangi. Þetta er tæknilegt starf og alveg óskylt mælingum þeim, sem ráðunautar B.F.Í. hafa haft með höndum.

Annars væri ég þakklátur frsm., ef hann vildi hlutast til um, að afgreiðslu málsins verði frestað, en með því ætti að gefast tækifæri til að ræða sérstaklega þau ágreiningsatriði, sem fram hafa komið milli mín og nefndarinnar.