06.03.1950
Neðri deild: 60. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

43. mál, jarðræktarlög

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af ræðu 1. þm. Skagf. (StgrSt). Hv. 1. þm. Skagf. taldi það ókost á minni brtt., hvernig sambandssvæðin ættu. að ákveðast. Þetta tel ég á misskilningi byggt. Að vísu geri ég ráð fyrir, að sambandssvæðin verði misstór, en til jöfnunar á því er lagt til, að stærri samböndin hafi auk ráðunauts mælingamann. Þá má segja, að Búnaðarsamband Suðurlands hafi nokkra sérstöðu vegna þess, hversu það er langstærst, en hitt má líka benda á um leið, að þar er leiðbeiningarstarfið miklu auðveldara en annars staðar. Annars getur það orkað tvímælis, hvort stóru samböndin eigi ekki að hafa tvo ráðunauta. Ég benti á það í n., en þá var því ekki gaumur gefinn. Hafi hins vegar vaknað áhugi fyrir því, þá er ég fús að ræða það mál nánar. Ég tel þetta samt ekkert aðalatriði. Það, sem ég á við, er, að hér er raunverulega ekki eingöngu um frjálsan félagsskap að ræða, heldur verða ráðunautarnir starfsmenn ríkisins. Hv. frsm. sagði, að í brtt. minni væri ruglað saman störfum jarðræktarráðunauts og framkvæmdastjórn búnaðarsambandanna, en það væri ekki hægt að fallast á vegna þess, að meiri hl. n. vildi halda sig við till. búnaðarþings. Ég veit, að það þyrfti að breyta búfjárræktarl., til þess að sum samböndin gætu fengið tvo ráðunauta, en væri horfið að því, þá tel ég heppilegast að skipa verkefnum þeirra þannig, að annar hefði t.d. jarðrækt og væri þá sérfróður í þeirri grein En stærsta atriðið í þessari skipan held ég að sé skiptingin og nauðsyn þess, að samböndin verði ekki klofin án þess að landfræðilegar ástæður liggi til þess. Ég tel t.d. fjarstæðu að hafa Húnavatnssýslu í tveimur samböndum og má líkja því við, að Skagafjarðarsýslu væri skipt í tvö sambönd, t.d. um Héraðsvötn. Ég geri ráð fyrir, að 1. þm. Skagf. dytti það ekki í hug, enda er það fjarstæða, og eins er með skiptingu Húnavatnssýslu. Þar á að vera eitt samband með tvo sérfræðinga, annan í búfjárrækt, en hinn í jarðrækt. Hins vegar geta verið landfræðilegar ástæður til nauðsynjar á skiptingu, t.d. þar sem samgöngur eru mjög erfiðar.

Þá fór hv. frsm. þeim orðum um 2. brtt. mína, að ég sé ekki ástæðu til að svara, því að hann gat þess til, að till. búnaðarþings réðu þeirri afstöðu. Um þriðju brtt. talaði frsm. lengst mál. Röksemdir hans varðandi þá till. eru ekki á rökum byggðar. Fyrst vil ég benda á, að skv. minni brtt. er verkfæranefnd þannig skipuð, að hún hefur samvinnu við Búnaðarfélag Íslands. Í öðru lagi tel ég hæpið, að það, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, að það þyrfti ekkert sérstakt skrifstofuhald vegna þessa, það mætti annast það á skrifstofu Búnaðarfélags Íslands, — ég skal játa, að ef þetta væri hægt, þá væri því vel farið, en ætli reyndin verði ekki önnur? Vil ég benda á, að í 9. brtt., sem 4 landbn.-menn standa að um vélanefnd ríkisins, er gert ráð fyrir þriggja manna nefnd, er landbrh. skipar. Síðan er sagt í 11. brtt., að til þess að annast þessi störf, skuli vélanefnd fá sér aðstoðarmenn og verkfæraráðunautur Búnaðarfélags Íslands er framkvæmdastjóri hennar. En nú hefur Búnaðarfélag Íslands engan verkfæraráðunaut. Kostnaður við framkvæmdastjórnina greiðist úr ríkissjóði. — Hv. 1. þm. Skagf. leggur mikið upp úr því, að það séu óskyld verkefni framkvæmdastjórn vélasjóðsins og verkfæratilraunirnar. Ég fæ ekki betur séð en sú nefnd, sem hefur það með höndum að kaupa inn tæki, svo sem skurðgröfur o.fl., og á að vinna að jarðræktartilraunum, hafi allskyld störf og framkvæmd vélasjóðsins. — Enn fremur um skipun n. er ég sammála hv. 1. þm. Skagf., að eitt verzlunarfyrirtæki eigi ekki að eiga neinn verzlunarfulltrúa í n. Ég legg til í mínum brtt., að þetta sé fellt burt og verkfæran. sé skipuð þannig, að Búnaðarfélag Íslands skipi eða kjósi einn mann, búnaðarþing kjósi einn og ráðherra skipi einn mann.

Ég held, að það hafi ekki verið fleira, sem ég þarf sérstaklega að taka fram nú.