20.03.1950
Neðri deild: 71. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

43. mál, jarðræktarlög

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér fyrir hönd landbn. að minnast hér á brtt., sem landbn. flutti við frv., þegar hún hafði það til meðferðar við 2. umr. Þá varð það að samkomulagi að taka aftur eina till. n., brtt. við 4. gr. Það var gert með það fyrir augum, að líklegt þótti, að samkomulag næðist um breytingu á þessu með því að breyta till. nokkuð. Nú hefur n. tekið þetta atriði til athugunar á fundi sínum og gert þá breytingu á, sem var nokkurt ágreiningsefni, það að binda framlag ríkissjóðs þannig, að það yrði þó aldrei krafizt meira en að ríkið greiddi sinn hluta af fullum launum 10 ráðunauta. Áður var það nokkuð óbundið á valdi stjórnar Búnaðarfélagsins og ráðh., hvað þeir samþykktu í þessu efni hverju sinni. N, væntir þess, að hv. d. geti á þetta fallizt og að samkomulag megi um þetta verða. Jafnframt notaði n. tækifærið til að skjóta þarna inn einu atriði eða ábendingu, sem er um það, að eitt af hlutverkum héraðsráðunautanna sé að veita bændum aðstoð við að gera ræktunaráætlanir viðkomandi bújörðum sínum. Eins og kunnugt er, leggja margir bændur árlega fram stórfé á okkar mælíkvarða í ræktunarframkvæmdir. Það er þess vegna full nauðsyn á því, að unnið sé að þessu með nokkurri fyrirhyggju. Nú orðið dettur engum í hug að byggja íbúðarhús, nema teikning sé gerð og áætlun um verkið. Jarðræktarframkvæmdir, eins og þær nú eru orðnar, krefjast mikils fjármagns, og þess vegna er það eitt af því, sem þarf að stefna að og verður að stefna að, að athuga gaumgæfilega, hvernig ræktun verður bezt komið fyrir á hverri jörð, og helzt áður en ráðizt er í stórfelldar framkvæmdir. Reynslan hefur stundum sýnt, að byrjað hefur verið á þeim, að kalla, á öfugum enda, sem hefur haft kostnað og óþægindi í för með sér. Þetta er sem sagt ábending um það, að hverju skuli stefnt í þessu sambandi. Ég vænti þess, að allir geti verið sammála um það, að ekki sé óhyggilegt, að á þetta sé bent í l.

Önnur brtt., sem n. flytur, er viðvíkjandi gaddavírsgirðingum, að við verði bætt, að þær skuli vera úr nýju og óskemmdu efni, og er þetta gert til þess að fyrirbyggja, að styrkur verði veittur út á girðingarefni, sem hefur verið tekið upp og flutt og sett niður á öðrum stað. Þó að þess megi vænta, að þetta yrði aðeins framkvæmt á þann hátt, að girðingar yrðu aðeins gerðar úr nýju og óskemmdu efni, þá taldi n. rétt að taka af öll tvímæli með því að taka þetta fram.

Ég hef svo ekkert frekar um þessar till. að segja fyrir n. hönd, og ég vænti þess, að um þær geti orðið samkomulag, en mun síðar ef til vill segja fáein orð um þær brtt. aðrar, sem hér liggja fyrir.