20.03.1950
Neðri deild: 71. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

43. mál, jarðræktarlög

Jón Pálmason:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls lýsti ég nokkrum ágreiningi við meiri hl. hv. landbn. út af einu þýðingarmiklu atriði í þessum l., sem er um það að skipa verkfæran. og starfsmenn, sem í sambandi við það eru. Það fór svo við þá umr., að till. meiri hl. n. voru samþ. og eru í frv., eins og það liggur nú fyrir. En um það bil leyfði ég mér sem þáv. landbrh. að flytja brtt., sem er að finna á þskj. 406. Þessar brtt. byggjast á þeirri skoðun, sem ég lýsti við 2. umr., að ég tel enga ástæðu til að fara að breyta til í þessu efni á þá leið, sem hér er gert með frv., milli verkfæran. og Búnaðarfélags Íslands. Ég veit ekki til, að nokkur árekstur hafi um þetta orðið þar á milli, og ég álit miklu hyggilegra og betra að hafa eina verkfæran. en tvær. Að öðru leyti er það ákaflega undarleg aðferð, eins og er ráð fyrir gert í þessu frv., að sett sé vélan., sem skipuð á að vera af landbrh., en allir mennirnir eru frá Búnaðarfélagi Íslands. Það á að vera verkfæraráðunautur og jarðræktarráðunautur og svo þriðji maðurinn, sem kostaður er af búnaðarþinginu, sem í raun og veru er ekki nema aðalfundur Búnaðarfélags Íslands. Ekki einu sinni landbrh. má skipa einn manninn. Og auk þess er gert ráð fyrir, að sett sé ný verkfæran., sem á að annast verkfæratilraunir. Ég sé ekki, að þetta séu framfarir, heldur sýnist mér það vera afturför, en heppilegast sé að hafa þetta eins og það hefur verið, að það verði verkfæran. með framkvæmdastjórn og starfsmannalið, sem hafi það þýðingarmikla verkefni með höndum að annast útvegun á varahlutum í hinar mörgu og þýðingarmiklu jarðræktarvélar, sem til eru í landinu, og það mun ekki að neinu leyti bæta úr að breyta til í þessu efni. Auk þess er það svo, að eins og stendur og eins og hefur verið er enginn verkfæraráðunautur til hjá Búnaðarfélagi Íslands, svo að það er nýtt embætti, sem ætlazt er til, að stofnað verði samkvæmt lögum þessum.

Nú vildi ég vona, að hv. þm. athugi það, sem hér er ágreiningur um, því að þetta er ekki veigalítið atriði. Og ég vil leyfa mér að fara fram á það við hæstv. forseta, að hann láti ekki greiða atkv. um þessar till., nema d. sé fullskipuð. — Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu, nema sérstakt tilefni gefist, að fjölyrða meira um þetta mál.