20.03.1950
Neðri deild: 71. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

43. mál, jarðræktarlög

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala langt mál um þetta. Ég hef fylgzt með umr. um málið, og því hefur verið lýst, að frv. um þetta, sem flutt var af hæstv. ríkisstj., hafi verið óskalisti frá búnaðarþingi. Því var lýst yfir, að það væri flutt eftir kröfum, sem gerðar hefðu verið af búnaðarþingi hvað jarðrækt í landinu snertir.

Þetta frv. var samið á síðasta ári, áður en dýrtiðin hækkaði svo sem hún hefur gert síðan, og sýnist hún ætla að gera það í enn ríkara mæli. Þegar búnaðarþing gerði till. sínar á síðasta ári. gerði sú n., sem samdi frv., áætlun um það, hver kostnaður væri við það að rækta hvern hektara lands, hvað það kostaði á hvern teningsmetra að grafa skurði, og gerði einnig áætlun um, hvað kostaði að byggja þurrheyshlöður og votheysgryfjur og safngryfjur og hvað það kostaði að girða tún með girðingum, sem styrktar eru samkv. l. En nú hefur þetta allt breytzt og kemur til með að breytast meira frá því sem var, þegar búnaðarþing gerði sínar till. Samt sem áður hefur hv. landbn. breytt frv. búnaðarþings til muna og lækkað styrkinn, sem þar var farið fram á. Það er því sýnilegt, að það frv., sem nú liggur fyrir, í þeirri mynd sem það hefur nú, eftir 2. umr. hér í hv. d., er langt fyrir neðan það að vera fyllstu kröfur fyrir hönd bændastéttarinnar frá hendi ríkisvaldsins viðkomandi ræktunarmálunum. Og þegar á þetta allt er litið, er vitanlega stigið aftur á bak, frá því sem áður var, vegna þess að styrkurinn til framkvæmdanna beinlínis minnkar eftir frv. hlutfallslega, miðað við aðstæður, frá því sem hann var eftir gömlu l., þegar miðað er við allar slíkar framkvæmdir, sem styrktar hafa verið af ríkinu. Við getum ímyndað okkur, hversu miklu meira það muni kosta nú, eftir að gengisbreyt. er komin í gegn, að rækta en áður var, hve áburðurinn verður miklu dýrari, en hann var t.d. í fyrra, og hve grasfræ og aðrar sáðvörur, sem nauðsynlegar eru til þessara framkvæmda, verða dýrari, hve olía og benzín, sem notað er á dráttarvélar, verður einnig miklu dýrara. Sama máli gegnir vitanlega um byggingarnar. Þær verða miklu dýrari, en þær áður voru. Og það er hætt við, að það verði að mun að draga úr þeim, ekki aðeins vegna þess, að byggingarefni verði takmarkað, heldur einnig vegna þess, að bændur hafa ekki fjármagn til þess að ráðast í þessar framkvæmdir.

Ég bendi á þetta hér, til þess að menn geri sér grein fyrir því yfirleitt, hvernig sakir standa í þessum efnum, og til þess að þeir, sem talið hafa jarðræktarstyrkinn eftir og styrkinn til húsabóta í sveitum, geri það jafnvel síður nú en áður, eftir að þeir hafa gert sér grein fyrir því, að styrkurinn er raunverulega stórlækkaður.

Ég hef ekki flutt hér brtt. til hækkunar á jarðræktarstyrknum eða húsabótastyrknum, vegna þess að ég hef talið, að þeir hafi rétt fyrir sér, sem sagt hafa hér í hv. d. og víðar, að ríkissjóður hafi yfir mjög takmörkuðu fé að ráða og hafi í mörg horn að líta. Hef ég því ekki séð mér fært að flytja hækkunartill. í þessu efni, þó að ég telji á því vera mikla nauðsyn.

Þegar á allt þetta er litið, aðstöðu bændastéttarinnar til byggingarmála og ræktunarmála, og þegar litið er á það, hve skammt við erum á veg komnir í þessum efnum, þá finnst mér vera fjarstæða að vera að viðhalda þessu gamla hámarksákvæði í l. viðkomandi styrknum. Að vísu er þessu ekki við haldið í þeirri mynd sem áður var, að takmarka hámarkið árlega, heldur er hér komin fram till. á þskj. 413, þar sem til er tekið, að hámarkið skuli ekki fara fram úr 30 þús. kr. á býli. Ég held nú, satt að segja, eins og ástandið er, þá sé alveg ástæðulaust að vera að flytja svona brtt. nú. Ég held því miður, að þeir bændur verði fáir, sem hafa efni á því að ráðast í það miklar framkvæmdir á jörðum sínum, að styrkurinn fari fram úr 30 þús. kr. í heild á býli, með þeim styrkstiga, sem ætlað er að láta verða í þessum l. Ég held, að það væri þakkarvert, ef einhverjir bændur gætu sýnt svo mikinn dugnað og hefðu efni á að fórna svo miklum fjármunum í ræktunar- og byggingarframkvæmdir, þannig að það ætti ekki að refsa þeim mönnum með því að taka af þeim styrkinn. Þetta land er í dag lítt numið land, og það, sem okkur fyrst og fremst vantar, er að geta ræktað landið í stórauknum mæli. Og ef menn rækta vel jörðina, þó að í stórum stíl sé, kemur það til hagnaðar ekki aðeins þeim, sem það gera, heldur komandi kynslóðum. Það er því nokkuð hart, þegar menn koma með till. um það beinlínis að refsa þessum mönnum. Og eftir því sem meira er lagt í ræktun á einni jörð, eftir því kemur þar betri aðstaða til þess að skipta þeirri jörð í fleiri býli. Og þannig er ástatt víða hér á landi, að þegar börnin eldast, þá vilja foreldrarnir skipta jörðum sínum milli þeirra. En það er því aðeins hægt, ef bóndinn fær tækifæri til þess að bæta jörð sína í tæka tíð, sem venjulega er framkvæmanlegast meðan börnin eru að alast upp heima. Ef nú styrkurinn er tekinn af slíkum bónda, sem hefur kraft til þess að rækta mikið meðan börnin eru að alast upp, þá má gera ráð fyrir, að ræktunin stöðvíst og aðstaða verði ekki til þess að skipta jörðinni niður í tvö eða þrjú býll á milli systkinanna, ef þau vilja og ætla að hafa þarna búskap.

Ég held, að það sé nauðsynlegt að hafa það alveg opið, að þeir menn, sem hafa yfir miklu fjármagni að ráða og vilja leggja það í ræktunarframkvæmdir, geti gert það og notið áfram þess styrks, sem lög heimila, án hámarkstakmarkana, því að, eins og ég áðan lýsti, með þeim mikla aukna kostnaði við ræktun, sem aukizt hefur vegna aukinnar dýrtíðar, þá er styrkurinn ekki nema lítið brot af öllum ræktunarkostnaðinum. Það er dugnaður mannsins, sem verður að koma til greina, ef hann ætlar að rækta í stórum stíl, og ræktunin kemur ekki aðeins honum sjálfum að notum, heldur þeim, sem eftir hann koma á jörðina. Og það kemur þjóðinni allri til nota, ef landið er ræktað, og því betur sem það er gert meira.