20.03.1950
Neðri deild: 71. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (927)

43. mál, jarðræktarlög

Jón Pálmason:

Herra forseti. Út af andmælum þeim, er komið hafa fram gegn brtt. á þskj. 406, sé ég ástæðu til að segja fáein orð. Hv. 2. þm. Skagf. sagði, að það væru sömu till. og felldar hefðu verið við 2. umr. Ég undrast stórlega þessi ummæli hv. þm., því að þetta er rangt. Í fyrsta lagi flutti ég engar brtt. við 2. umr. Ef við eitthvað er miðað í þessu sambandi, er það því till. hv. 5. landsk., en sú till. er gagnólík till. á þskj. 406. Hann lagði til, að n. yrði skipuð þannig, að í henni ættu sæti verkfæraráðunautur Búnaðarfélags Íslands eða einn af jarðræktarráðunautum þess, einn maður kosinn af búnaðarþingi og einn tilnefndur af landbrh. Samkvæmt till. á þskj. 406 eiga hins vegar að eiga sæti í n. einn maður tilnefndur af búnaðarþingi, einn maður tilnefndur af nýbýlastjórn ríkisins og einn maður skipaður af landbrh. án tilnefningar. Það er því rangt, að till. hafi verið felld við 2. umr., nema átt sé við heitið á n., en það er í sjálfu sér þýðingarlítið atriði, hvort n. er kölluð vélanefnd eða verkfæranefnd. — Það er líka rangt hjá hv. 2. þm. Skagf., að með till. hv. landbn. sé ekki verið að stofna nýtt embætti, sem á að heita verkfæraráðunautur Búnaðarfélags Íslands. Því að þótt þetta hafi verið samþ. á búnaðarþingi, hefur sú samþykkt ekki verið framkvæmd og starfið því ekki verið til. Eins og kunnugt er, var Árni Eylands áður fyrr verkfæraráðunautur Búnaðarfélags Íslands, en síðan hann fór, hefur félagið ekki haft neinn verkfæraráðunaut, enda ekki verið ástæða til þess, þar sem verkfæran. hefur haft með þessi mál að gera. Það hafa því margir menn farið með þetta starf, sem einn maður — hafði áður með höndum, og ég hygg, að því verði ekki breytt samkvæmt frv., eins og það er nú. Ég legg því áherzlu á, að þessu verði haldið í svipuðu horfi og áður, og ég sé ekki, að till. landbn. gangi í betri átt. Það liggur við, að þær séu fáránlegar, þar sem verið er með n., sem landbrh. á að skipa, en er þó eingöngu skipuð af Búnaðarfélagi Íslands. Það eru starfsmenn félagsins, en það verður að engu leyti gert ráð fyrir, að þeir geti unnið betur en sú verkfæran., sem verið hefur undanfarið.