21.04.1950
Efri deild: 92. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

43. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki eyða löngum tíma í þessa framsögu, enda skilst mér, að ekki sé ætlazt til, að þetta þing standi lengi úr þessu. Ég skal þess vegna ekkert rekja gang þessa máls og undirbúning þann, sem það hefur fengið, en vil geta þess, að þeir aðilar, sem um málið hafa fjallað, hafa verið sammála um að hækka framlag til framræslu og lækka yfirleitt allt annað framlag frá ríkinu til jarðabóta, en neðri deild sá ekki fært annað, en lækka þetta þó nokkuð frá því, sem búnaðanþing hafði lagt til, og hingað til d. kom frv. þess vegna með miklu lægri framlögum, bæði að því er snertir einstaka liði og eins í heild, en það var lagt fram á Alþ., því fyrir þingið kom það mjög líkt því sem búnaðarþing hafði frá því gengið eða mþn. þess. Landbn. þessarar d. hefur yfirfarið frv. og rætt það allýtarlega á nokkuð mörgum fundum og leggur til, að gerðar verði á því breyt., sem allflestar eru smávægilegar.

Fyrsta brtt. á þskj. 569 er við 2. gr. og er nánast orðalagsbreyt. til þess að fyrirbyggja misskilning. Tvær síðustu mgr. gr. gætu orsakað misskilning eins og þær eru í frv., og er þessi breyt. gerð til þess að fyrirbyggja, að slíkur misskilningur geti átt sér stað. Það er engin breyting að efni til, en aðeins gert til þess að fyrirbyggja misskilning, sem okkur a.m.k. fannst, að gæti skotið upp kollinum, ef gr. væri orðið eins og hún er nú. Nánar skal ég ekki út í það fara.

Við 4. gr. eru smábreyt., sem allt eru líka ákaflega litlar efnisbreyt. Í gr. er talað um, að héraðsráðunautar veiti bændum aðstoð við að gera ræktunaráætlanir, en auðvitað ber einnig að veita þeim mönnum, sem eru í búnaðarfélögum, jafna aðstoð, þó að þeir hafi ekki þá aðstöðu að geta kallazt bændur, og þess vegna er lagt til, að á eftir orðunum „að veita bændum“ bætist: og öðrum. — Með því er átt við þá, sem ekki búa á jörðum í þeirri lagalegu merkingu orðsins, heldur búa á minni býlum, og auðvitað þurfa þeir á sömu aðstoð að halda. Og eins er hugsanlegt, að menn vilji fá umbætur á jarðeignum, sem þeir eiga, en hafa af einhverjum ástæðum leigt og ábúendurnir kæra sig ekki um að bæta. Þess vegna hefur n. á eftir orðunum „fyrir ábúðarjarðir“ bætt inn: eða eignarjarðir. — Enn fremur bætist þarna inn, að ef héraðsráðunautur hefur hér fleiri sýslur, nái þau ákvæði til ákveðins starfssvæðis hans. Er þetta nánast til skýringar.

Þá er brtt. við 6. gr. Hún er smávægileg, það er bara gengið út frá því sem gefnu, að Búnaðarfélag Íslands fái skýrslur frá samböndunum um allar mælingar og vinni úr þeim, en það hefur láðst að geta þess í frv., og þess vegna höfum við tekið það upp. Það er sjálfsagður hlutur.

Þá er brtt. við 8. gr. Það gengur eins og rauður þráður gegnum jarðræktarl., að ekki sé ætlazt til að ráðast í ræktunarframkvæmdir á lóðum, sem ákveðið er að nota sem byggingarlóðir, en það getur ekki átt sér stað, að innan skipulagsuppdrátta kaupstaða, sem búið er að gera, sé ætlazt til, að séu býli, og þótti því rétt að setja þarna inn í stað orðanna „skipulagssvæða kaupstaða, kauptúna og sjávar- og sveitaþorpa“: skipulagssvæða byggingarlóða í kaupstöðum, kauptúnum og sjávar- og sveitarþorpum. — Það er þá mögulegt að styrkja býli, þó að þau séu innan skipulagsins, ef ætlazt er til, að það séu áframhaldandi býli, og þess vegna hefur n. skotið þessu inn með brtt., sem er sjálfsagt.

Þá er hér brtt. við 11. gr., um að hækka styrkinn, því við teljum allir í landbn., að það sé alveg nauðsynlegt að ýta sérstaklega undir það, að menn verki sem mestan hluta af heyfeng sínum sem vothey.

Þá er brtt. við 16. gr. Nefndin var ekki sammála um það til að byrja með, en ég held, að við stöndum allir saman um það eins og það er nú. Í frv., eins og það kom til þessarar d., var 1. tölul. 16. gr. orðaður dálítið öðruvísi, en við gerum, og það orðalag hefur farið fram hjá n: í Nd., án þess að þeir hafi veitt því almennilega athygli. Það hefur aldrei verið meiningin að fara að kaupa þarna jarðræktarvélar, aðrar en skurðgröfur, og því síður að gera tilraunir með þær, því að það er annarri nefnd með ákveðnum lögum ætlað að gera, sem heitir verkfærakaupanefnd. Hins vegar hafa slæðzt inn í ræktunarvélar líka, og þá kom fram þarf sjónarmið hjá einstöku mönnum, að ástæða gæti verið til þess, að vélasjóður ætti ræktunarvélarnar og ræki þær, þar sem viðkomandi búnaðarsambönd ættu miklu óhægra með að gera það, og þess vegna er orðaður þannig hjá okkur fyrsti liðurinn, að þetta væri ekki útilokað, „ef nauðsyn þykir.“ Ég hef enga trú á því, að vélasjóður fari að taka þetta starf af ræktunarsamböndunum. Ræktunarsambönd eru alls staðar komin upp. Og ég hef ekki heldur trú á, að ræktunarsamböndin kæri sig nokkuð um að láta sjá um reksturinn fyrir sig. Hins vegar gerir brtt. við 16. gr., b-liður, það auðvelt, enda þótt viðkomandi aðilar eigi vélarnar, ef slíkt þykir í einhverjum tilfellum betur henta.

Þá er brtt. n. við 17. gr., og er með henni lagt til, að breytt verði um skipun vélanefndar þannig, að landbrh. skipi einn mann í n. án tilnefningar, sem skal vera formaður hennar, annan á að skipa eftir tilnefningu B.F.Í., og sá þriðji skal vera verkfæraráðunautur B.F.Í, en hafi það engan slíkan í þjónustu sinni, skal skipa einn af jarðræktarráðunautum félagsins eftirtilnefningu stjórnar þess. Það þótti eðlilegt eftir atvikum, að ráðh. hefði nokkru meiri íhlutunarrétt í þessari n. en frv. gerir ráð fyrir, þar sem vélasjóðurinn er eign ríkisins og rekstur hans styrktur af opinbert fé. Það þótti líka rétt að slá varnagla í sambandi við skipun verkfæraráðunautar B.F.Í. í n., þar sem hann er enginn eins og stendur, enda þótt samþykkt hafi verið á síðasta búnaðarþingi að ráða slíkan ráðunaut. Það má að vísu gera ráð fyrir, að fljótlega verði ráðinn maður í þetta. starf, en varla verður það búið, þegar þetta frv. verður að l. Það var því valin sú leið áð láta ráðh. skipa einn jarðræktarráðunaut félagsins eftir tilnefningu þess, meðan málum væri svona háttað sem ég hef nú lýst.

Þá er brtt. við 33. gr. og lagt til, að 36. gr. falli niður. Breyt. er fólgin í því að heimila ekki sölu þeirra réttinda, sem um er að ræða; heldur skuli gilda um þau sömu ákvæði og jarðir í erfðafestu, og er þetta lagt til með hliðsjón af þeim viðskiptum, sem átt hafa sér stað í sambandi við þessi lönd, þar sem dagsláttan hefur verið leigð kannske fyrir 5 kr. en seld svo á allt að því 10 þús. kr., þveröfugt, við tilgang þess ákvæðis, sem um þetta hefur gilt. Það kom til mála í n. að gera um þetta fleiri ráðstafanir, t.d. láta sveitirnar hafa forkaupsrétt að þessum leigulöndum, en frá því var þó horfið að svo stöddu.

Ég vil svo að lokum geta þess, að við afgreiðslu málsins í n. náðist ekki í einn nm., 2. þm. Árn. (EE), en eftir viðræðum við hann um þessar breyt. held ég, að ekki sé um neinn ágreining að ræða, enda þótt ég kynni ekki við að setja nafn hans undir nál. Annars kemur það fram nú við þessa umr., ef um skoðanamun er að ræða, þar sem þessi hv. þm. er nú staddur hér í d. — Ég orðlengi þetta svo ekki frekar, en vil leyfa mér að óska eftir, að þetta frv. fái skjóta afgreiðslu. Það er mikið talað um, að bráðlega verði farið að slíta þessu þingi, og þess vegna vil ég leyfa mér að biðja hæstv. forseta að koma í veg fyrir, að þetta mál dagi uppi.