27.04.1950
Efri deild: 94. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

43. mál, jarðræktarlög

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Ég var nú ekki á nefndarfundi, þegar lokið var við afgreiðslu á máli þessu, og hef því ekki skrifað undir nál. Ég vildi aðeins láta þess getið, að í öllum meginatriðum er ég því samþykkur og álít það í verulegum atriðum standa til bóta. Um brtt. get ég verið fáorður, þar sem um þær var rætt, þegar ég var á nefndarfundi. Af brtt. n. tel ég eina skipta verulegu máli, og er það till. um hækkun á framlaginu til súrheysgryfjanna. Þetta er ákaflega þýðingarmikið, því að í mörgum tilfellum stendur og fellur slátturinn með því, að til séu slík hús. Því er mjög mikilsvert, að menn séu hvattir til að auka þessar byggingar. Þessari till. er ég því algerlega samþykkur.

Ég skal ekki eyða orðum að fleiri brtt. Ég er með sumum, en móti öðrum, sem fram hafa verið bornar. Mér finnst satt að segja sumar till. bera allt of mikinn keim af vísindum. En um afstöðu mína til till. læt ég atkv. mitt skera úr, þegar þar að kemur. Ég vildi sem sagt aðeins láta þess getið, að ég er í höfuðatriðum frv. samþykkur. Get ég svo látið máli mínu þar með lokið.