17.04.1950
Neðri deild: 84. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

46. mál, sauðfjársjúkdómar

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það eru örfá orð út af þeim brtt., sem fyrir liggja. Ég tek undir ummæli hv. frsm. landbn., að nauðsyn beri til þess, að fjárskiptum verði hraðað til þess að fyrirbyggja hættu, á þeim stöðum, þar sem fjárskipti eru þegar komin á. Þess vegna er mikils til að vinna að greiða fyrir því, að þau verði sem hröðust. En þótt þessu sé nú þannig farið, þá held ég, að það geti orðið mörgum bændum óþægilegt, ef þeir eiga að taka miklar fúlgur í ríkisskuldabréfum, því að þau ganga ekki sem greiðslueyrir til fjárkaupa eða annarra nauðsynja. Það hefði því mátt vænta, að ekki yrðu gerðar ráðstafanir til þess að skylda bændur til að taka á móti fleiri bréfum, en gert er ráð fyrir í frv. nú á þskj. 175. En samkv. brtt. landbn. á þskj. 528 er bætt allmiklu við fyrri ákvörðun þingsins. Nú er bændum gert skylt að taka meiri hluta uppbótanna í skuldabréfum, en ákveðið var í frv. Þetta held ég, að geti valdið bændum miklu óhagræði. Hins vegar get ég viðurkennt, að ef um eitt af tvennu er að ræða, ef miklu munar á hraðanum, sem hægt er að framkvæma fjárskiptin með, ef bændur taka við skuldabréfum á þessa leið, kysu þeir það heldur, en að tafir yrðu á fjárskiptunum, þótt ég gangi þess ekki dulinn, að bændum muni veitast erfiðar að komast yfir fjárskiptin. Þetta held ég, að liggi ljóst fyrir, og þó hlýtur vaxtafóturinn að hafa hér nokkuð að segja. Hvort vextir eru 4% eða 6%, skiptir ekki ýkja miklu máli, því að fæstir bænda munu geta legið lengi með bréfin og notið vaxtanna. Hér er um tvær leiðir að ræða, annars vegar peningagreiðslur eða greiðslur í ríkisskuldabréfum. Fyrri leiðin er notadrýgri, ef nota skal peningana strax, en ég mæli ekki á móti brtt. á þskj. 529, og ég sé, að þm. hafa fest augun á þessum mikla mun. Hins vegar hefði ég vænzt þess, að bændur yrðu ekki skyldaðir til þess að taka meira af skuldabréfum, en felst í frv. á þskj. 175.