18.04.1950
Neðri deild: 85. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (964)

46. mál, sauðfjársjúkdómar

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Við þm. Skagf. og hv. 2. þm. Eyf. flytjum brtt. við frv. á þskj. 529, sem mér þykir hlýða að gera grein fyrir. Hv. frsm. n. hefur gert grein fyrir málinu í heild, og mun ég ekki víkja mikið að því, enda er ég till. n. yfirleitt samþykkur. En í sambandi við till. okkar verð ég að gera nokkra grein fyrir aðdraganda þessa máls.

Lögunum var breytt árið 1947, og síðan hefur verið unnið að fjárskiptum og fé lógað árlega samkvæmt l. Það var svo komið haustið 1948, að farið höfðu fram fjárskipti í Dalasýslu, Strandasýslu, Húnavatnssýslu og í Skagafirði að Héraðsvötnum. Sömuleiðis hafa fjárskipti farið fram austan frá, svo að búið er að lóga fé alla leið að Eyjafjarðargirðingu,. Svæðið milli Eyjafjarðargirðingar og Héraðsvatna er hins vegar eftir. Á þessu svæði er margt fé, og er uggur í mönnum, að óhöpp kunni að leiða af þessu sýkta svæði, þar sem hætta er á því, að sýkt fé brjótist yfir varnarlínurnar og sýki fjárstofninn á hinum heilbrigðu svæðum. Það var því mikið kapp lagt á það að fá bændur á þessu svæði til að samþykkja fjárskipti, svo að svæðið allt yrði hreinsað. Það fór fram atkvgr. um þetta, en sá meiri hl., sem tilskilinn er, náðist ekki. Þetta þóttu ill tíðindi, og var hafin mikil „agitation“ fyrir því, að atkvgr. færi fram aftur, til þess að reyna að fá lögmætan meiri hluta. Það fór líka svo við seinni atkvgr., að næg þátttaka varð til þess, að þetta mætti verða. Þetta var gert fyrir eindregin tilmæli hins opinbera og gengið var út frá því, að þessir menn, sem lóguðu fé sínu, fengju sömu bætur og þá voru ákveðnar í l. og greiddar höfðu verið undanfarin ár. Það þarf ekki að orðlengja um þetta. Þessir bændur lóguðu fé sínu samkvæmt löglega gerðum samþykktum, staðfestum af stjórnarráðinu, og það er því raunverulega samningur milli stjórnarráðsins og bænda, að þeir fái þessar bætur. Nú, er bændur þessir hafa fargað fé sínu, kemur hér fram frv. á Alþ. um, að gerðar verði ráðstafanir í þessum efnum, sem hafa það í för með sér, að þessir menn sitja við önnur og lakari kjör en áður. T.d. er ráðgert, að þeim verði greitt með skuldabréfum, en ekki peningum. Þessir menn hafa ekki alls kostar getað unað við þetta. Þeim finnst, að með þessu séu gerðir samningar brotnir og að hið opinbera gangi með þessu á gefin heit. Mér dettur ekki í hug að neita því, að með þessu frv. sé stefnt að auknu öryggi í þessum efnum, með því að flýta fyrir fjárskurði. Þetta viðurkenni ég og flestir menn, sem hugsa rólega um málið, og till. okkar er sniðin með það fyrir augum. Ég viðurkenni líka, að breyt., sem gerðar hafa verið, miða að því að greiða úr og gera málið aðgengilegra, en það var í upphafi. En ég vil spyrja hv. þm., hvað þeir hefðu gert, ef þeir hefðu samið við mann um ákveðinn verknað á sömu lund og gegn sömu greiðslu og venja hefði verið undanfarið, en það hefði að vísu ekki verið beint tekið fram, að greiðsla skyldi fara fram í peningum, en svo hefði ætíð verið. Hvað yrði sagt, ef ég eða einhver annar í stað þess að greiða í peningum, elns og venja hefði verið, innti greiðsluna af hendi í skuldabréfum, sem ekki ætti að borga fyrr en eftir fimm ár? Mér þykir ekki trúlegt, að verkamenn mundu fallast á slíkt, og ég tel það efasamt, að nokkur okkar vildi fremja slíkan verknað, við mundum ekki telja það sæmandi. Og ef það er ekki sæmandi prívatmönnum, er hæpið að það sé Alþ. sæmandi. Ég viðurkenni tilgang frv., og mér er það persónulegt áhugamál, að fjárskurður dragist ekki úr hömlu. Með frv. er stefnt að auknu öryggi fyrir málið í heild, en við flm. þessarar till. leggjum áherzlu á, að þeir, sem lógað hafa fé sínu samkvæmt ákvæðum eldri l., verði ekki skyldaðir til að taka við greiðslu í skuldabréfum. Í stað þess viljum við, að leitað verði frjálsra samninga um það, að þessir menn taki bréfin upp í þær greiðslur, sem þeim ber að fá vegna fjárskiptanna, og að búnaðarsamböndin vinni að því, að svo mætti verða. Ég teldi það skyldu mína að vinna að því, og þannig mun vera um fleiri.

Ég hef svo ekki meira um þetta að segja. Ég hef gert nokkra grein fyrir till. okkar þrímenninganna og vænti þess, að menn hafi áttað sig á, hvað fyrir okkur vakir.