18.04.1950
Neðri deild: 85. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

46. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég vildi gera nokkrar aths. við það, sem fram hefur komið síðan ég talaði áðan. Ég ætla fyrst að víkja að hv. 2. þm. Rang. (IngJ). Hann ræddi og vildi telja mér til miska, að ég hefði lagt fram þetta frv. og viljað láta bréfin vera vaxtalaus. Frv. þetta var útbúið af þremur ágætum mönnum og var einn þeirra formaður fjarskiptafélags Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, og þótti mér sjálfsagt, að hann færi sjálfur í málið. Maður þessi lagði til, að málinu væri hraðað sem mest og að bréfin, sem bændur fengju, yrðu vaxtalaus. Ég skal ekki segja um það, hvort slíkt er rétt eða heppilegt, en ég vil taka þetta fram, til að hv. þm. sjái þegnskap og fórnfýsi þessara manna og áhuga á því, að fjárskiptin verði framkvæmd. Krafan um vextina kemur svo fyrst fram frá öðrum. Ég verð því að telja, að framkoma þessara bænda sé þeim til álíka mikils lofs og framkoma annarra bænda er þeim til lítils lofs í þessu máli.

Þá talaði hv. þm. um ógurlega erfiðleika og kostnað hjá mjólkurframleiðendum á þessu svæði, og allur var málflutningur hans á þá leið, að mér skildist helzt, að hann vildi ívilna þeim, sem hafa mjólkurbú, og sleppa þeim við að taka við bréfum, en hrúga þeim í þá, sem enn hanga á rolluskjátunum. En ég legg ekki að jöfnu, hve aðstaða þeirra, sem búa hér í nágrenninu og aðstöðu hafa til mjólkurframleiðslu, er betri en hinna, sem aðeins geta haft sauðfé.

Þá var hv. þm. að tala um, að það væri nánasarháttur af ríkinu að sýta í það að hafa vextina 2% hærri af bréfunum, og hélt, að ríkissjóður mundi standa jafnréttur eftir sem áður, en sannleikurinn er sá, að hlutir þeir, sem bændur eiga að fá í bréfum, munu nema 7–10 millj. kr., og 2% af því yfir allan tímann munu nema 3/4–1 millj. kr., og ég hélt satt að segja, að maður í fjvn., eins og hv. 2. þm. Rang., mundi sjá minni upphæð en þetta, og mundi ég þó ekki telja þetta eftir, ef það væri hægt.

Hv. 2. þm. Skagf. (JS) hefur misskilið orð mín eða snúið viljandi út úr þeim, þegar ég var að bera saman þá, sem eiga að falla undir ákvæði þessara laga, og hina, sem á eftir koma, en ég held, að allur þorri þessara bænda búi við betri kjör en þeir, sem á eftir koma. Sama breytingin átti eingöngu við þessa aðila, sem hér um ræðir, og þá, sem eiga eftir að skipta um fé, og meginhlutinn af þeim bændum, sem till. fjallar um, hafa ekki sambærilega afkomu miðað við hina, sem eiga eftir að skipta. Það var hárrétt hjá hv. þm. Borgf. um mismunandi afstöðu manna í Dalasýslu, þar sem sumir voru svo lánsamir, að fjárskipti fóru fram hjá þeim á meðan ástandið hjá ríkissjóði var betra, en hinir, sem eftir eru, verða allir að sitja við sama borð og verða að taka á sig kvaðir, hvort sem gengið hefur verið frá skiptunum áður en þessi l. voru sett eða ekki.

Hæstv. forsrh. sagði, að meginatriðið í þessu væri það, að hér væri verið að ganga á gerða samninga. En ég get ekki séð, að hér sé verið að ganga á neina samninga, og get ekki séð, að hér sé annað að gerast en það, að Alþ. setur l. og þegnarnir fara eftir þeim, en siðan koma lagabreyt., sem geta raskað ýmsu, sem gert var eða átti að gera eftir l., og er enginn munur á þessu og öðrum lögum. Hér var ekki um neina ákveðna samninga að ræða. Það eina, sem orkað getur tvímælis, er bótahámarkið, sem hér er numið úr gildi. Hitt er hvergi tekið fram í l., hvernig greiðslan fari fram, heldur aðeins, að hún fari fram, en ekkert um það, hvort það sé í peningum, skuldabréfum eða fárra ára ríkisláni. Þeir, sem eru með kröfur um sérréttindi á þessu sviði, styðjast því hvorki við siðferðíslegan né lagalegan rétt, og sé ég svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta.