25.04.1950
Efri deild: 93. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

46. mál, sauðfjársjúkdómar

Gísli Jónsson:

Ég vil beina því til hv. form. landbn., hvort hann vildi ekki lofa mér að fylgjast með þeim breyt., sem kynnu að verða gerðar í n. á frv. Það kemur til af því, að nýlega var framkvæmdastjóri sauðfjárveikivarnanna hjá fjvn., og afgreiðsla þessa máls byggist afar mikið á því, hversu mikil fjárhæð yrði tekin upp á fjárl. í þessu skyni. Það er rætt um það, að ef frv. verður að l. á því stigi, sem það er nú, þá sé hægt að lækka um 850 þús. kr. þá upphæð, sem sett var inn á fjárlfrv. í haust, það sé hægt að lækka þá upphæð úr 6 millj. í 5 millj., en hins vegar sé nauðsynlegt að taka upp 150 þús. kr. uppeldisstyrk, sem ekki er settur inn, svoleiðis að upphæðin mundi breytast um 850 þús. kr. til lækkunar, ef ekki verða gerðar neinar breyt. á frv. eins og það liggur fyrir nú. Hins vegar hefur framkvæmdastjórinn bent á, að það hljóti að valda töluverðum fjárgreiðslum, m.a. á þessu ári, að fellt hefur verið burt hámarkið, og hann óskar eftir, þó að það sé ekki tekið inn sama hámark aftur, að þá sé tekið upp hámark, en sé ekki neitt hámark í l., þá er ekki heldur hægt að ákveða, hvað þarf að taka inn í fjárl. Þess vegna vildi ég minnast á það við n., hvort hún sæi ekki fært að taka inn aftur hámarkið eins og það var í frv. eða setja eitthvert hámark og léti mig vita um það eins fljótt og unnt væri vegna afgreiðslu fjárl.