02.05.1950
Efri deild: 99. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

46. mál, sauðfjársjúkdómar

Bernharð Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs af því, að ég — hef leyft mér áð flytja hér brtt. á þskj. 612. Ég geri nú ráð fyrir, að frv. þetta sé að ýmsu leyti til bóta, en því er eigi að leyna, að mér finnst ákvæði 6. gr. mjög vafasöm, og einkum var það þó eins og frv. var borið fram fyrst, því að þau ákvæði hafa tekið bótum frá því, sem þau voru. Ég á við það, að breytt er til um greiðslumáta bóta vegna fjárskipta, þannig, að menn verða hér eftir að taka, bæturnar í skuldabréfum, sem að vísu á að greiða vexti af, en áður áttu þau að vera vaxtalaus. Í eldri l. var aðeins ákvæði um það, hvaða bætur menn skyldu fá, og ég hygg, að ævinlega sé litið svo á, ef maður á fjárkröfu á hendur öðrum manni og ekkert sérstaklega samið um, í hverju skuli greitt, að þá sé átt við peninga. Þess vegna hlýtur að hafa verið átt við peninga í eldri l., ákvæðunum um bætur fyrir fjárskipti. En nú er þessu breytt í þessu frv. og á þann veg, að menn verða að taka bæturnar í skuldabréfum, einnig fyrir þau fjárskipti, sem búið er að framkvæma, ef bæturnar hafa eigi þegar verið greiddar. Í 4. efnismgr. 6. gr. stendur: „Ákvæði þessi skulu ná til bóta, sem greiða á, á yfirstandandi ári og framvegis.“ Það á að greiða á þessu ári bætur fyrir fjárskipti, sem þegar hafa verið framkvæmd. Meðan frv. var á þann veg, að eigi átti einu sinni að greiða vexti af bréfunum, þá hygg ég jafnvel, að þetta hafi stappað nærri því að koma í bága við stjskr., um friðhelgi eignarréttarins, því að réttmæt fjárkrafa er eign, og það að skerða hana mun a.m.k. standa mjög nærri því að koma í bága við stjskr. Nú skal ég játa, að töluverð umbót hefur orðið á ,þessu í síðustu mgr. 6. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, að heimilt sé að leysa þá bændur, er verða að vera sauðlausir í eitt ár, undan skyldu til að taka á móti greiðslum í skuldabréfum. En það er þó alltaf töluverður munur á heimild og rétti, þ.e. heimild annars aðila og rétti þeirra, er taka eiga við skuldabréfum. Ég verð að lita svo á, að þar sem fjárskipti hafa verið samþykkt með almennri atkvgr. og staðfest af ríkisstj., þá megi líta á það sem samning millí héraðsbúa í því héraði, sem fjárskiptin eiga að fana fram í, annars vegar og ríkisstj. hins vegar. Og mér er ómögulegt að líta öðruvísi á það en að með þessum ákvæðum í frv. um skuldabréfin rjúfi ríkisvaldið samninga, að því er snertir þá menn, sem þegar hafa framkvæmt fjárskipti eða lógað fé sínu vegna fjárskipta. Þess vegna er það, að ég hef borið fram brtt. á þskj. nr. 612 um það að breyta 4. efnismálsgr. 6. gr. á þá leið, að ákvæðin um skuldabréfin nái aðeins til bóta vegna þeirra fjárskipta, sem samþ. verða eftir að lög þessi öðlast gildi, því að það er alveg tvímælalaust heimílt að ákveða það. Ríkið getur hætt við það að láta menn hafa nokkrar bætur vegna fjárskipta, ef því svo sýnist, þ.e. þá menn, sem ekki hafa þegar eignazt kröfu á ríkið. Og úr því að það getur hætt að láta menn hafa nokkrar bætur vegna fjárskipta, þá getur það vitanlega breytt eðli bótanna, að því er þessa menn snertir.

— Nú hef ég heyrt því haldið fram, sérstaklega af hv. flm. frv., sem það flutti í hv. Nd., hv. þm. Mýr., að hér sé ekkert svikið með ákvæðum frv., því að þessi skuldabréf séu full greiðsla. En mér þykir það nýstárleg kenning. Ég, sem fæst lítillega við banka, mundi ekki vilja telja það fulla greiðslu á víxli, sem ég hefði keypt t.d. af hv. þm. Mýr., að hann kastaði í bankann einhverjum skuldabréfum til greiðslu á víxlinum, og ég hygg, að það mundu ekki aðrir bankar gera heldur og að hægt væri að gera aðrar ráðstafanir til innheimtu víxilsins en það að taka slík bréf sem fulla greiðslu. — Einkennilegt þykir mér það í næstsíðustu málsgr. líka, að það er ekki aðeins, að það eigi að leggja þá skyldu á vissar lánsstofnanir að taka þessi bréf upp í greiðslur afborgana, heldur líka vaxta. Það finnst mér, satt að segja, nokkuð langt gengið að leggja þá skyldu á þessar stofnanir að taka skuldabréfin upp í greiðslu vaxtanna. En ég hef nú ekki gert neina brtt. við það.

Ég hef borið mína brtt. fram sökum þess, að ég álít, að Alþ. Íslendinga geti ekki gert svona breytingar, sóma sins vegna. Hins vegar skal ég fúslega játa, að hagur ríkissjóðs krefst þess, að til þess sé tekið fullt tillit, hvernig hann er. Og þó að ég vilji ekki ganga með því að samþ. það, að þessi réttur til bótanna í peningum, eins og auðvitað var átt við áður, sé af mönnum tekinn með valdi, þá vil ég gjarnan stuðla að því, að menn taki með frjálsu samkomulagi sem mest af þessum skuldabréfum upp í þessar greiðslur, og þess vegna er annar málsl. brtt. minnar um það, að sauðfjársjúkdómanefnd skuli beinlínis vinna að því að fá menn, sem hafa þegar öðlazt rétt til bóta, til að taka bæturnar í skuldabréfum. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að það mundi mjög mikið verða að því gert, vegna þess að bændum þeim, sem fjárskipti hafa framkvæmt nú þegar, er það ljóst, að úr því sem komið er, er nú aðalatriðið, að fjárskiptin verði framkvæmd alls staðar þar, sem þessir sjúkdómar geisa í sauðfénu, til þess að smithættan vofi ekki alltaf yfir. Þess vegna er ég ekki í nokkrum vafa um það, að til þess að greiða fyrir þessu og til þess að létta undir með ríkissjóði, mætti koma á öflugum samtökum um það, að menn tækju greiðslurnar í skuldabréfum. Og þess vegna álít ég nú, að raunverulegur munur í framkvæmd yrði ekki mjög mikill, hvort heldur sem frv. er samþ. eins og það liggur fyrir, með breyt. hv. n., eða þótt hins vegar mín brtt. yrði samþ. En það er bara annar munur, sem mundi verða með því að samþ. mína brtt., því að þá gengi ríkisvaldið ekki á rétt neins manns, en það leitar samkomulags við hann um breytta tilhögun, en með hinu mótinu gengi það á rétt manna, sem þeir nú eiga. Og það eru a.m.k. margir svo skapi farnir, að fyrir þeim er allt annað að sýna þann þegnskap að slá sjálfráðir að einhverju leyti af kröfum sínum eða hins vegar að láta taka réttinn af sér með valdboði.

Ég geri nú varla ráð fyrir, að hv. n. vilji mæla með þessari brtt. minni, því að þetta atriði kom svo mikið til greina í hv. Nd., og hv. n. hlýtur að vera kunnugt um þann ágreining, sem út af þessu varð, og þess vegna hlýtur hún að hafa rætt þetta atriði málsins. Ég ætla ekki að fara í neinar þrætur hér um þetta, en geri aðeins grein fyrir minni brtt. Svo verða atkv. úr að skera. En mér hefur fundizt það vera skylda mín að benda á þetta, hvað vafasamt þetta er gagnvart hreint og beint eignarrétti manna, sem í frv. stendur að þessu leyti, eins og það nú er.