02.05.1950
Efri deild: 99. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

46. mál, sauðfjársjúkdómar

Haraldur Guðmundsson:

Forseti. Í prentun hefur það fallið niður, að ég ritaði undir nál. með fyrirvara. Sá fyrirvari gildir sérstaklega, auk þeirra aths., sem ég hef um málið í heild að gera, ákvæði 6. gr. frv. og brtt. þá, sem n. gerir við hana á þskj. 603, þó að ég viðurkenni, að sú breyt., sem n. leggur þar til, að gerð verði á þessari gr., sé fremur til bóta, en hitt. En ég tel, að það væri ákaflega misráðið, ef farið yrði inn á þá braut að gefa út ríkisskuldabréf til lúkningar á þeim greiðslum, sem hér er um að ræða. — Ég ætla, að í upphafi hafi verið gert ráð fyrir því, að þessi bréf ættu að vera vaxtalaus, og þá var nokkur ástæða sérstök til þess að hallast að því að hafa þetta fyrirkomulag, þó að ég fyrir mitt leyti ekki fallist á það. En því hefur verið breytt þannig, að þessi skuldabréf eiga að vera með 4% vöxtum, eins og frv. kom frá hv. Nd.

Í þessu sambandi get ég ekki látið hjá líða að taka fram, að mér finnst varla afsakanlegt, hversu grg., sem fylgir þessu frv., og upplýsingar þær, sem hæstv. ríkisstj. hefur látið í té í sambandi við frv., hafa verið snubbóttar, ef svo mætti segja. Í grg. frv. er ekki einu orði minnzt á neitt um það, hvaða fjárhæðir hér sé um að ræða, og í þeim viðræðum, sem verið hafa um þetta mál, hafa engar upplýsingar komið fram um það. Hitt hygg ég, að ekki orki tvímælis, að hér veltur á milljónum kr. Mig furðar á því, að það skuli hvað eftir annað koma fyrir í þessu máli og skyldum málum, að frv. séu borin fram um jafnstórkostleg fjárhagsatriði, án þess að gerð sé grein fyrir því, hve miklar fjárhæðir sé um að ræða í sambandi við ákvæði þeirra frv. eða hve mikill kostnaður fylgi því, sem frv. eru um. Og því fráleitara er að veita slíkan skuldabréfaútgáfurétt, þar sem engar upplýsingar eru, að mér virðist, fyrir um það, hve miklar upphæðir hér sé um að ræða. Það er gert ráð fyrir því hér í 6. gr. frv., að skuldabréfin megi nema tveim fimmtu hlutum af bótum samkv. 38. gr. l., en fjórum fimmtu hlutum samkv. 39. gr. l. Ég hef heyrt, án þess að ég geti um það dæmt, hvað rétt er, að ætla megi, að við þau fjárskipti, sem hér eru ráðgerð á næstu árum, muni kostnaðurinn nema um 25 millj. kr., og ættu þá þessi skuldabréf að geta numið 15–20 millj. eða meiru jafnvel en 20 millj. kr. Að leggja slíka till. fram, eins og hér er gert, án þess að leggja fram glöggar og greinargóðar áætlanir um kostnað við þessar ráðstafanir, sem fjárskiptin eru, virðist mér mjög misráðið.

Að því er sjálfa skuldabréfaútgáfuna snertir, vildi ég mjög vara við því, að farið verði inn á þá braut svo sem hér er gert ráð fyrir. Við vitum allir þm. þessarar d., hvernig háttað hefur verið um sölu á ýmsum þeim bréfum, sem gefin hafa verið út samkv. sérstökum l., sem Alþ. hefur sett, eins og kreppulánabréfunum og öðru slíku. Þau hafa yfirleitt verið seld mjög breytilegu verði, en í flestum tilfellum langt undir nafnverði, þannig að það hefur verið stórkostleg tekjulind fyrir fjármálamenn að kaupa þessi bréf undir nafnverði. Alveg eins yrði þetta um þessi bréf, ef þau yrðu gefin út upp á 15 eða 20 millj. kr. Og það yrði ekki nema sáralítill hluti af þeim, sem gengi til greiðslna á fasteignaveðslánum. Meiri hluti þeirra yrði hjá ýmsum einstökum mönnum, og mundi eitthvað af þeim ganga kaupum og sölum með því gengi, sem fáanlegt er, sem mótast eingöngu af því, hve mikið er af lausum peningum í umferð. — Auk þess, sem ég nú hef nefnt og að minni hyggju er mjög varhugavert, er þess að gæta, að greiðslur ríkissjóðs til byggingar skólahúsa og hafnargerða eru í vanskilum svo að tugum milljóna kr. nemur. Ég fæ ekki séð, ef horfið verður að því ráði, að ríkissjóður nú inni af hendi greiðslur, sem á ríkissjóði hvíla samkv. l., með skuldabréfum, að nokkur ástæða sé til að greiða þessi framlög vegna fjárskiptanna með skuldabréfum, heldur en framlög til skólabygginga og hafnargerða, sem hvor tveggja eru í vanskilum. Og eigi þannig að greiða þetta, sem ríkissjóður skuldar nú þegar, eins og ég hef sagt, og eigi að koma með þessi bréf vegna fjárskiptanna þar í viðbót inn á markaðinn, hlýtur það að skapa ringulreið og stórkostlegt verðfall á þessum bréfum. Ég hygg því, að sjálfsagt sé fyrir stjórnarflokkana að reyna að finna aðrar leiðir til þess að inna þessar greiðslur af höndum heldur en þær, sem hér er um að ræða. Samtök bændanna sjálfra gætu án efa að einhverju leyti risið undir því í bili að létta þeim fjárhaginn, meðan þeir biðu eftir þeim greiðslum, sem þeim ber úr ríkissjóði, ef um það eru settar reglur í samráði við þá aðila. Og það væri að minni hyggju stórum réttara og hyggilegra en það, sem hér er um að ræða. Ég skal geta þess, að í frv. um notendasíma í sveitum, sem er til meðferðar hér í hv. d., þá er talað um skuldabréf, sem engu síður er ástæða til að vara við en því, sem hér í þessu frv. er gert ráð fyrir um skuldabréfaútgáfu. Ég drap á, hversu ég teldi frv. því um uppsetningu málsins stórlega áfátt, með því að ekki skyldi þar fylgja kostnaðaráætlun eða að þeir, sem um það mál fjölluðu, skyldu ekki gefa glöggar upplýsingar um það efni. Eftir því sem ég bezt veit, mun vera búið að verja í pestarvarnir í allt um 35 millj. kr. frá upphafi og til þessa dags. Ég vil á engan hátt draga úr því, að nauðsyn bænda til styrks í sambandi við sauðfjárpestirnar og þá sérstaklega mæðiveikina hafi verið mikil og að óhjákvæmilegt hafi verið, að það opinbera réðist í sérstakar framkvæmdir til varnar útbreiðslu veikinnar. En hinu get ég ekki neitað, að mér finnst, að framkvæmdir í þessum efnum hafi verið mjög á reiki, að ég ekki segi fálmkenndar, og að ástæða sé til að ætla, að ekki hafi þetta fé notazt svo vel sem skyldi. Sé það nú rétt, sem ég hef ekki fengið glögga grein fyrir, að enn þurfi að verja til þessara mála samkvæmt þessu frv., miðað við það, að niðurskurður sé framkvæmdur á þeim svæðum, sem í hættu eru, um 25 millj. kr., þá er ekki vafi á því, að það ríður á, að meiri festa sé í framkvæmdum þessara mála, en hefur verið fram til þessa. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu nú. Ég mun ekki greiða atkv. gegn þessu frv. Hins vegar mun ég greiða atkv. gegn ákvæðum 6. gr. frv. um skuldabréfin, og það eins, þótt brtt. hv. landbn. eða brtt. hv. 1. þm. Eyf. yrðu samþ. Ég tel, að ef farið er inn á þá braut nú, þá væri þar rangt stefnt.