02.05.1950
Efri deild: 99. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

46. mál, sauðfjársjúkdómar

Eiríkur Einarsson:

Ég hef skrifað undir álit n. án nokkurra athugasemda og af ráðnum hug, því að ég mun í aðalatriðum fallast á þær brtt., sem liggja hér fyrir frá n., en þó er það eitt atriði, sem er vandasamt til ákvörðunar og ég vildi sérstakleg,a leiða tal að, en það er síðasta málsgr. í brtt. frá n. á þskj. 603. Það er það vald, sem sauðfjársjúkdómanefnd er þar fengið og mikill vandi er að leysa af hendi og lýtur að því, hvað taka skuli til greina, þegar bændur eru að nokkru leyti leystir undan því að taka á móti greiðslum í verðbréfum. Það segir raunar, að n. sé heimilt að leysa þá að nokkru leyti undan þeirri skyldu að taka á móti greiðslu í skuldabréfum, sem búa við sérstaklega mikla örðugleika og erfiðar fjárhagsástæður, að dómi nefndarinnar. Ég fellst á það, að tekið verði tillit til erfiðleika þessara manna, þegar hið vandasama mat fer fram af hálfu n., því að það er vitanlega góðra gjalda vert. En það, sem vakti fyrir mér umfram þetta, er það, að enn fremur menn á fjárpestarsvæðinu verðskulduðu, að tekið væri með í reikninginn, þegar þessar ákvarðanir verða gerðar, að sauðfjárpestin hefur allra mest mætt á þeim og valdið þeim miklum skaða. Ég vildi fyrir mitt leyti, að þetta yrði tekið með í reikninginn. Þessir menn, sem hafa orðið fyrir þessum þungu búsifjum, hafa borið harm sinn í hljóði, og það er ekki ytri aðstæðum, heldur dugnaði þeirra og þreki að þakka, að þeir hafa ekki fyrir löngu hrökklazt burt af búum sínum af þessum ástæðum. Með tilliti til þess, sem ég hef sagt, vil ég leyfa mér að bera fram skriflega brtt., sem hnígur að þessu, sem ég nefndi, að á eftir orðunum „að dómi nefndarinnar“ í síðustu málsgr. brtt., sem ég talaði um, komi: „og sauðfjárpestirnar hafa lengi mætt á og valdið miklum skaða.“ Formaður n. er hér staddur, og ef hv. n. vildi taka þetta til athugunar, er ég fús til að taka þessa till. aftur til 3. umr., ef orðið gæti samkomulag um þetta atriði, sem ég nú nefndi. — Mun ég nú afhenda hæstv. forseta þessa brtt.