18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

41. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er spaugilegt að heyra, hvernig mælt hefur verið frá byrjun. Það var hæstv. landbrh., sem barðist fyrir því, að þetta embætti yrði stofnað. Síðan veitti hann manni embættið og skipaði hann skattdómara, það var ógilt af næsta ráðh. Það var ekki fyrir góðsemi, að viðkomandi maður fékk ekki dóm á sig til að borga laun allan tímann. Þá var embættið ekki lagt niður, heldur var þeim manni vikið frá, sem búinn var að fá veitingu ráðh. Síðan annar maður fékk embættið hefur hann talið aðalorsökina til, að þetta væri lagt niður, að heilsan hafi verið of góð til að láta þessa menn leika lausum hala. Það stendur styr um að leggja skattalögin niður. Ég legg til á öðru þskj. að leggja þau niður. Það er rétt að leiðrétta þá skoðun hv. 6. landsk., að verið væri að leggja starfið niður. Það er lagt til, að störf hans séu lögð undir héraðsdómara. Mér skilst, að þeir ættu að reynast harðari í rannsókn á þessum málum, til að gera þetta öruggara en það hefur verið. Landbrh. hefur látið setja lög til verndar skattsvikurunum, og nú á að fara að taka þetta af öllum þeim mönnum, sem höfðu þetta á hendi, og setja það undir einn mann. Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., af því að þetta er gert af sparnaðarástæðum: Er það vitað, að spöruð sé öll sú upphæð við þessa ráðstöfun, sem felld var niður úr fjárl., — ef ekki, hver er þá áætlaður sparnaður hjá ríkisstj. í sambandi við breyt. á þessum l.? Sé hann eitthvað minni en sú upphæð, hvers vegna er sú upphæð þá ekki tekin inn í fjárlfrv., sem hugsað er að þurfi að greiða þrátt fyrir breyt. á l.? Mér skilst, að þegar tekin var þessi upphæð úr fjárl., þá hafi ríkisstj. fullvissað sig um, að það mætti spara þessa upphæð alla. Hins vegar vil ég benda hæstv. ráðh. á, að það er misskilningur hjá honum að halda, ef þarf að greiða núverandi skattdómara laun á annað borð, að það stöðvist við 65 ára aldurstakmarkið, því að hann á heimtingu á að fá laun til sjötugs, því að það er ákveðið í l., að maður skuli starfa til sjötugs, en megi samkv. eigin ósk hætta 65 ára, en geri hann það ekki, þá hygg ég, að ríkisstj. geti ekki látið manninn hætta. Hér er því ekki um 2 ár að ræða, heldur 7 ár. En hitt er meginatriðið; sparast öll þessi upphæð, sem felld er úr fjárl., ef frv. er samþ.?