18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

41. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Ég ætlaði ekki að segja meira í þessu máli, en ég hef verið að líta kringum mig í kvöld, og mér sýndist hann fjandi uppgenginn fyrir Trítilinn, það voru éljadrög, og kom þruma að lokum hjá hv. þm. Barð. Hann lét sér ekki nægja að ráðast á mína persónu, heldur lagði hann undir sig allt mitt lögsagnarumdæmi. Hann bar það fram, að ég hefði sagt um Dalamenn, að þeir væru mestu skattsvikarar á landinu. Ég hef aldrei talað það, að þeir væru skattsvikarar, ég held þvert á móti, að þeir séu minnstu skattsvikarar landsins. Ég vil benda honum á það, að ég þori að fullyrða, að skattsektir eftir síðustu l. hafa orðið margfalt meiri í Barðastrandarsýslu en í Dölum. Og hvað þýðir það? Það veit allur þingheimur. Ég ætla ekki að drótta því að hv. þm., að hann sé skattsvikari, þó að ríkisskattanefnd hafi kannske ekki þurft að hækka eins mikið á nokkrum manni á landinu og honum, þegar hún fór að rannsaka framtal hans og annarra manna. Mönnum getur skeikað í útreikningum sínum, án þess að það sé gert að yfirlögðu ráði. Við megum því ekki kalla alla skattsvikara, sem geta bilað í sínum útreikningum, þegar þeir eru að telja fram. Það er ekki hægt. Það hefur einu sinni verið hækkað á mér í ríkisskattanefnd, vegna þess að ég taldi ekki þingmannslaun mín til tekna; það er í eina skiptið, sem hefur verið hækkað á mér, en ég hef vitað misjafnt litið á það málefni og að Norðlendingar og þeir austan Fúlalækjar hafi frísprok um það efni.

En um það, að þessi maður, sem hér var gerður að umtalsefni, gæti ekki þjónað sýslumannsembætti, þá hef ég ekki heyrt, að hann hafi verið eða sé neinn vesalingur, andlega eða líkamlega, svo að hann geti ekki gegnt embætti, en allir geta veikzt um tíma. Það hefur ekki verið krafizt meira starfs af honum. Ég tók sem dæmi, að hann mundi geta gegnt sýslumannsembætti í Dölum, því að ég gæti verið talinn sízt líklegur til langlífis af sýslumönnum landsins, en ég efast ekki um, að hann gæti eins þjónað t.d. Barðastrandarsýslu.