28.11.1950
Neðri deild: 29. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Út af ræðu hv. þm. N-Þ. vil ég taka það fram, að það hefur komið í ljós, að afkoma togaranna er þannig, að þeim hefur ekki verið kleift að greiða þetta gjald. Eftir því sem ég veit bezt hafa 2 eða 3 skip greitt þetta gjald af öllum þeim skipum, sem lagt hafa afla á land. Þegar l. voru sett, þá var lýst yfir, að það væri ekki tilgangur l. að leggja þetta gjald á taprekstur, en það hafði verið gert ráð fyrir því af þeim, sem l. settu, að afkoma togaranna mundi verða svo góð eftir gengisbreyt., að rekstur þeirra mundi þola gjaldið. En skömmu eftir að l. voru sett urðu ýmsar mjög róttækar breyt. í sambandi við rekstur togaranna, sem öllum eru kunnar og ekki er þörf að fara út í, sem urðu m.a. þess valdandi, að allir íslenzku togararnir hættu nokkuð snemma á vertíðinni að flytja ísvarinn fisk til Bretlands, og þeir reyndu að bjarga sér með því að salta aflann eða leggja hann á land til bræðslu. Þessi till. er fyrst og fremst fram komin af þessum sökum og eins hitt, að við þá samninga, sem gerðir voru milli útgerðarmanna og sjómanna, þá var það einn höfuðþátturinn í þeim samningum, að þetta gjald félli niður, því að öðrum kosti töldu útgerðarmenn sér ekki fært að standa við þá samninga, sem gerðir voru. Það er rétt, að í þessari till. er einnig lagt til, að gjald verði látið falla niður af hvalafurðum og það af þeim ástæðum, að þetta eina félag, sem rekur hvalveiðar hér við land, hefur mjög slæma afkomu. Það er að vísu gert ráð fyrir, að afkoman verði betri á þessu ári, en mér fannst allt mæla með því, að þetta gjald héldi ekki áfram að hvíla á þessari framleiðslu meðan hún bærist í bökkum og ekki er sýnt, hvernig hennar afkoma verður í náinni framtíð.